09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (2891)

103. mál, endurheimt ýmsra skjala og handrita

Magnús Jónsson:

Jeg get tekið það fram, að jeg er alveg sammála hv. þm. Str. (TrÞ) um þessa till.; jeg álít hana sjálfsagða og mun því greiða henni mitt atkvæði. Það mun rjett vera, sem hv. 2. þm. Rang. (KlJ) sagði, að þetta liggur ekki laust fyrir hjá Dönum. Það getur oft verið gott fyrir fráfarandi ráðherra að segja, að eitthvert verk verði auðvelt fyrir eftirmann sinn, en það er bara eigi ávalt mikið að marka það, því að það er sjaldan álitið, að þurfi svo mjög að vanda búning viðfangsefnanna í hendur eftirmannanna. Jeg held, að reynslan hafi öll fremur sýnt, að þetta verði allþungur róður, og svo er það ætíð um þessa hluti. Það er urmull af illa fengnum skjölum, bókum, listaverkum og þess háttar dreift út um löndin. Hefir þeim sumum verið stolið, rænt í hernaði, fengin að láni og alla vega, en ætíð hefir það reynst nær ókleift að ná nokkru aftur í hendur rjettra eigenda. Það hefir farið svo, að menn hafa vitnað í hefð, sem væri komin á það, að þessir hlutir væru þarna, þó að þeir væru annara eign í raun og veru. Það er helst, að menn ná þessum eignum sínum aftur með líku móti og þeir mistu þær, þ. e. eftir gömlu reglunni: væ victis!

En jeg stóð aðallega upp til þess að vara við einu atriði, sem hv. 2. þm. Rang. (KlJ) einnig benti á, þ. e. að fara um fram alt með lipurð og sanngirni út í þetta mál. Jeg heyrði því fleygt árið 1907, að þessar málaleitanir hefðu orðið okkur fremur til ills. Það var áður alsiða í Danmörku, að forstöðumenn safna sýndu hina mestu lipurð í því að lána hingað heim merkar og sjaldgæfar bækur og annað það, er menn hjer þurftu að nota, en þegar fór að bera á kröfunum hjeðan um endurheimt skjalanna, urðu Danir smeykir, og hafa síðan verið tregir til lána. Jeg veit að vísu eigi, hvað satt er í þessu, en þegar nú Árni Magnússon hefir einu sinni skrifað sitt fræga „sk.“ (þ. e. skilist) á einhverja bók eða skjal, þá gæti jeg trúað, að Danir yrðu smeykir við að lána hana, en mundu hins vegar vilja halda sjer við setninguna „beati possidentes“ og segja: „Bókin, eða skjalið, er hjer og fer ekki heldur hjeðan“. Því legg jeg alla áherslu á, að þó að þetta mál verði flutt af okkar hálfu með festu, verði þó gætt allrar sanngirni og varast að fara fram með ákafa. Aftur á móti get jeg efast um, að það sje rjett, sem hv. 2. þm. Rang. (KlJ) hjelt fram, að þessi tími væri svo heppilegur til þess að bera fram þessar kröfur, er Norðmenn fara með svipaðar kröfur á hendur Dönum á sama tíma. Það gæti fremur hugsast, að Danir ljetu þetta eftir okkur, Íslendingum, en yrðu yfir höfuð tregari í þessu, ef fleiri þjóðir færu að krefjast þess sama af þeim. Fengju aftur á móti Norðmenn sínum kröfum framgengt, ætti okkur einnig að veitast auðvelt að fá þetta af Dönum. En snúist Danir illa við þessum kröfum Norðmanna, mundi það gera okkur erfiðara fyrir. Mjer finst sjálfsagt, að endurheimt sje sem hægt er af þessum skjölum, því að það mun reynast, að þarna er meira saman komið en flesta grunar hjer nú, af því, sem við eigum fulla heimtingu á að fá aftur.