25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (2902)

103. mál, endurheimt ýmsra skjala og handrita

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það var við því að búast, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald), vildi láta ríkið hafa vínverslunina með höndum, eins og alla aðra verslun. En á hinu furðar mig, hvernig hann rökstuddi þá skoðun sína. Úr því að hann er þess fullvís, að ógæfan fylgi þessari verslun, þá er það kynlegt um jafnmikinn ættjarðarvin, að hann skuli heldur kjósa, að hún leiði glötun yfir alt landið en einhvern einstakling þess. Að því er mig annars snertir, þá er jeg ekkert hjátrúaður í þessum efnum, enda stendur hjer alveg sjerstaklega á. Það er ekki tilgangurinn að ota fram vörunni, eins og á sjer stað annarsstaðar. Hjer er aðeins um einfalda afhendingu að ræða. Það er rjett athugað hjá hv. þm. (JBald), að ekki er víst, að það verði viðurkendur sómamaður, sem lægst býður. En jeg gaf hv. þm. (JBald) ekkert tilefni til að óttast þá hættu, því að í mínum orðum fólst það eitt, að selja ætti verslunina í hendur þeim viðurkenda sómamanni, sem lægst byði. Þann dóm á umsækjendunum verður auðvitað að leggja undir ríkisstjórnina.

Jeg skal svo að lokum þakka hæstv. stjórn, hvernig hún hefir tekið í málið.