15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (3038)

125. mál, hressingarhæli fyrir berklaveika

Tryggvi Þórhallsson:

Af því að þetta er fyrri umr., vil jeg benda hv. flm. (MJ) á eitt athugavert atriði í þessu máli. Jeg er alls ekki á móti því, að orðið sje við beiðni fjelagsins, en jeg vil vekja eftirtekt á því, að þessi jörð er mjög svo mögur, meira að segja fádæma hrjóstrug. Vildi jeg skjóta því til flm. (MJ), hvort hann vildi ekki hafa orð á því við fjelagið, að rjettara væri að fá einhverja aðra jörð. Það eru örþrifaráð að setja slíkt hæli á stað, þar sem ómögulegt er að rækta neitt, umhverfið grjót og urðir. Eru það hreinustu vandræði, að fjelagið geti ekki einu sinni haft von um að afla sjer sjálft mjólkur á jörðinni. Það er kanske ekki rjett af þinginu, að gerast forsjá fjelagsins, en mjer fanst viðkunnanlegra að benda á þetta.