05.05.1924
Neðri deild: 64. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í D-deild Alþingistíðinda. (3073)

142. mál, framhaldsnám í gagnfræðaskólanum á Akureyri

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg er hissa á því, að nokkrir greindir menn í þessari hv. deild hafa lýst yfir því, að þeir skilji ekki till., og að þeir skuli hafa misskilið hana á margan hátt. það er auðsjeð, að það eitt liggur í till., að Alþingi heimilar gagnfræðaskólanum á Akureyri að nota húsrúm það og kenslukrafta, sem þegar er búið að veita fje til í fjárlögum.

Það hefir verið bent á það, að ef til vill kunni eitthvað að ganga af því fje, sem áætlað er til tímakenslu við skólann. Eftir venjulegri reglu yrði það þá ekki alt útborgað, en verði þessi till. samþ., gengur afgangurinn til þeirrar framhaldskenslu, sem kennararnir veita efnilegum nemendum. Þeir, sem búast við, að skólinn verði jafnfjölsóttur og hin síðustu ár, geta því óhræddir greitt till. atkv. það er alls ekki farið fram á að vísa neinum frá, sem rjett á til gagnfræðanáms. En svo er ástatt, að kennararnir vilja gjarnan veita efnilegum og góðum nemendum framhaldsnám, ríkinu að kostnaðarlausu eða sama sem, og er það virðingarverður áhugi, og ætti þingið að mæta þeim áhuga á miðri leið og heimila útborgun á öllu því fje, sem þegar hefir verið veitt skólanum, ef vera kynni, að eitthvað sparaðist af venjulegu gagnfræðanámi. Auðvitað þurfa kennararnir ekki að biðja um leyfi til að taka eitthvað af sínum eigin tíma í þarfir þessara nemenda. það er aðeins um það að ræða, hvort þeir megi fá afganginn af tímakenslufjenu, ef af því gengur.

Hjeðan var afgreitt frv. um kennaraskólann, mjög líks efnis. Var kennurum þar leyft að bæta við sig eins mánaðar kenslu árlega, án þess að það kostaði ríkið meira en 1–200 kr.

Fjöldi manns kemur hingað til Rvíkur að norðan á hverju ári, og það yrði stórsparnaður fyrir þá menn, eins og hv. aðalflm. (BSt) hefir bent á, ef þeir gætu haldið áfram sínu námi fyrir norðan og þyrftu ekki að fara hingað suður til annars en taka stúdentspróf. Engin hætta er á því, að fleiri yrðu stúdentar, þótt þessi till. væri samþykt. Hjer er alls ekki farið fram á, að gagnfræðaskólinn fái rjett til að veita mönnum það próf. Annars skil jeg ekki alla þá varasemi og tortrygni, sem vaknar, hvenær sem gagnfræðaskólann á Akureyri ber á góma.

Ótti manna við stúdenta er annars broslegur. Og eins og þingið virðist hrætt við þá, sýnist undarlegt, að það skuli ekki grípa til róttækra ráðstafana til að girða fyrir, að nokkrir verði stúdentar. Að menn skuli t. d. ekki hrifsa stafrófskverin af börnunum, áður en þau verða læs, af ótta við, að þau verði einhverntíma stúdentar. En stúdentahræðslan er gersamlega ástæðulaus í sambandi við þessa till., nema menn vilji draga úr stúdentamentun með þeim hætti að gera námið svo dýrt, að ekki geti aðrir en Reykvíkingar og auðugustu utanbæjarmenn komið sonum sínum og dætrum á framfæri. En þess er að gæta, að fleiri landshorn hafa rjett á sjer en það, sem við byggjum. Hjer í Reykjavík senda foreldrarnir börn sín í mentaskólann, og ríkið greiðir kostnaðinn, ca. 500 kr. á hvert barn á ári. Nú greiðir hver að meðaltali 80–100 kr. í ríkissjóð á ári, og hagnast því Reykjavíkurbúar ekki lítið á þessum viðskiftum við ríkissjóð. Það er meiri en lítil hætta búin menningu vorri af þessari sjerstöðu Reykjavíkur. Kjarni þjóðarinnar hefir til þessa ekki þroskast í Reykjavík.

Að vísu er ekki hægt að styðja þessa till. með þeim ástæðum, sem nú fylgja flestum málum, að hún feli í sjer sparnað eða bjargi mannslífum. Till. sparar að vísu ekki ríkisfje, heldur fje fátækra námsmanna. Og ekki sýnist heldur úr vegi, að hv. deild, sem lætur sjer svo ant um að spara mannslífin, vilji gera eitthvað til að gefa þeim meira gildi.