01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í D-deild Alþingistíðinda. (3081)

140. mál, kæliskápur

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það er ekki mikið starf, sem stjórninni er ætlað að gera hjer, enda mun hún með ánægju greiða fyrir málinu. Hv. frsm. (JS) tók það fram áðan, að nefndin ætlaðist til að ef kostnaður yrði einhver, þá skyldi hann greiddur úr ríkissjóði. Lít jeg þá svo á, að í samþykt till. liggi heimild til að greiða væntanlegan kostnað. Jeg tel annars enga ástæðu til að bæta nokkru við hina ítarlegu ræðu hv. frsm. (JS), en skal aðeins taka það fram, að jeg tel mjög æskilegt, að þetta skip gæti orðið til afnota fyrir bæði sjávarútveginn og landbúnaðinn, því að með því verður þessum báðum aðiljum ljúfara að styrkja þetta fyrirtæki.