04.04.1924
Sameinað þing: 3. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í D-deild Alþingistíðinda. (3123)

41. mál, takmörkun nemenda í lærdómsdeild

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg vil aðeins benda hv. 4. þm. Reykv. (MJ) á það, að latínan ein er ekki nægileg til að ráða bót á meinum mentaskólans. Það var sannreynt, að á meðan latínukenslan var mun meiri og erfiðari en nú, þá gátu menn, sem þóttu hinir mestu skussar, komist í gegnum skólann. Tek jeg þetta fram, til að koma í veg fyrir þann misskilning, sem raunar er allalmennur, að hægt sje að stemma stigu fyrir of mikilli stúdentaframleiðslu með því að auka latínunámið.

Vænt þótti mjer að heyra, að hv. 4. þm. Reykv. (MJ) fann enga „tekniska“ örðugleika við samkepnisprófið. Aftur á móti setti hann það mest fyrir sig, að menn yrðu reknir frá, eða með öðrum orðum fjellu, og einkum vegna þess kostnaðar, sem það hefði í för með sjer fyrir þá, og vegna hneisunnar, sem þeir biðu við það. En hvernig er þessu varið nú? Hingað koma menn árlega til að taka próf inn í 1. og 4. bekk mentaskólans og — eins og gerist og gengur — þá falla þeir, sumir hverjir. Jeg verð því að álíta þetta óþarfa umhyggjusemi hjá hv. þm. (MJ). Það, að menn falli við próf, er ekkert nýtt fyrirbrigði. Þessi ástæða gegn frv. verður því að teljast fallin af sjálfu sjer.

En hvernig færu menn nú að, ef 800 gáfaðir unglingar kæmu eitt árið til að taka inntökupróf í mentaskólann? Það er enginn „teoretiskur“ ómöguleiki, að það kunni að koma fyrir. Yrði gripið til þeirra ráða að leigja húsnæði úti í bæ fyrir kensluna? Eða myndu menn taka upp aukna latínukenslu til að stemma stigu fyrir þessum ofvexti í stúdentaframleiðslunni? Jeg efast um það. Nær er mjer að halda, að mín ráð yrðu upp tekin fremur.

Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) skýrði það rjettilega, að menn undraði á að sjá háskólalærðan mann í eyrarvinnu. Það mundi verka á menn eins og að sjá lög- fræðing í læknisembætti. Þar er maðurinn kominn út fyrir sitt svið. Og meðan það er ekki orðinn siður, að sprenglærðir guðfræðingar fari í eyrarvinnu, þá er mentaði maðurinn í hafti hvað þetta snertir.

Jeg vil nú ekki fjölyrða meira um þetta. En benda vil jeg hv. þm. á, að um engan sparnað við skólahaldið verður að ræða að sinni, nema þessi till. mín verði samþykt. En fari svo, að hún verði feld, þá hafa hv. þm. um leið gefið yfirlýsingu um það, að þeir vilji láta arka að auðnu, hvernig fari, og skeyti hvorki um að koma í veg fyrir óhóflegan kostnað við skólahaldið nje alt of mikla stúdentaframleiðslu.