22.02.1924
Neðri deild: 6. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (3149)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Jón Kjartansson:

Það er ekki ætlun mín að blanda mjer í þessar umr. og teygja tímann á þann hátt. Þó get jeg ekki varist að láta í ljós undrun mína yfir orðaskiftum hv. flm. (TrÞ) og hæstv. forsrh. (SE). Hv. flm. ávítar hæstv. forsrh. fyrir handvömm og drátt í málinu, en hæstv. ráðherra verst með því, að það, sem gert hafi verið, sje samkvæmt samkomulagi beggja ráðherra. Þykir mjer þetta fara undarlega saman, enda einkennilegt, að hæstv. atvrh. (KlJ) skuli ekki láta neitt til sín heyra í málinu. Þætti mjer nú fróðlegt að fá að heyra afstöðu hans, svo að upplýsast mætti, hvor nær hefir farið hinu rjetta, hæstv. forsrh. (SE) eða hv. flm. (TrÞ), því að það væri skaðlegt, ef stórmáli, sem hjer er um að ræða, væri stefnt í hættu vegna sundurlyndis og ósamkomulags ráðherranna.