30.04.1924
Efri deild: 58. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í D-deild Alþingistíðinda. (3203)

127. mál, sala sjávarafurða

Frsm. meirihl. (Jóhann Jósefsson):

Jeg vil gera tilraun til að leiðrjetta hjá hv. flm. skilning hans á dagskránni, sem hann reyndi að hamra fram. Hann segir, að við forðumst eins og heitan eld að koma nálægt útflutningsnefnd. Við vísum í nál. á till. frá erindreka um útflutning og fiskimat. Ein till. er um eftirlit útflutnings á saltfiski. í 1. málsgrein er byrjað á að tala um að skipa nefnd í þessu skyni. Af þessu hlýtur hv. flm. (IP) að vera ljóst, að við höfðum ekki fyrir augum að draga úr málinu. Hv. flm. (IP) hefir altaf, frá því fyrsta hann fór að láta þetta mál til sín taka, bygt allar sínar spilaborgir um framtíðarfyrirkomulag á þessu margumtalaða miljónatapi, en jeg hefi mjög ríkar ástæður til að ætla, að þetta miljónatap eigi sjer hvergi stað nema í hugum þeirra manna, sem hafa tekið fyrir að halda því fram. (IP: Er þetta ekki spilaborg?) Get jeg ekki sjeð, að það væri hyggilegri aðferð, sem hv. flm. (IP) virðist eingöngu hallast að, sem sje, að alt í einu væri fiskverslunin rifin úr þeim farvegi, sem hún er nú komin í, og sett í hönd ríkisins, heldur en að þingið reyndi með góðra manna ráðum að stuðla að framförum þessarar verslunargreinar í höndum landsmanna sjálfra, án beinnar ríkisíhlutunar um söluna.

Þetta bjargráð hv. flm. (IP) er áreiðanlega ekki eins örugt eins og hann sjálfur heldur. Það mundi miklu fremur vekja óhug í fisksölulöndunum, ef við settum einkasölu á fiskinn. Og ef hann væri einu sinni vakinn, væri það mikið erfiðara að vinna markaðinn aftur, þegar aðrir væru búnir að ryðja okkur burt, eins og fór fyrir Newfound-lendingum. Þar höfum við ljóst dæmi um það, hvað vanhugsaðar ráðstafanir hins opinbera í þessu efni geta leitt af sjer. Hv. flm. (IP) hefir lýst yfir, að svo og svo væri þetta og hitt eftir sínu kaupmannsviti. Liggur næst að álíta, að ekki sje kaupmannsvit hans fyrirferðarmikið, eftir þeim skoðunum, sem hann hefir látið í ljós hjer í þessu máli. Hann hefir sýnilega ekki traust á því, að nokkuð verði gert í þessu máli nema af ríkisvaldinu. Maður með svipuðum hugsunarhætti hafði komið sölunni í það eymdarhorf, sem jeg gat um, á Newfoundlandi. Sá maður kom sjer svo vel inn á fiskimenn og fiskútflytjendur þar í landi, að hann var gerður að fiskimálaráðherra. Þrátt fyrir það, þó einmitt þessi hugsjónamaður kæmist í embætti þetta, þar sem hann hafði hina bestu aðstöðu til að beita sjer fyrir áhugamáli sínu, þá fór um það eins og áður er lýst, vegna þess, að það sýndi sig, að þó þeir gætu ofurvel gert sínar ráðstafanir heima hjá sjer, viðurkendu Spánverjar og aðrir viðskiftavinir þeirra hinumegin Atlantshafsins engin valdboð um verðlag, en sneru sjer blátt áfram til annara fiskframleiðsluþjóða með fiskkaup sín.