02.05.1924
Sameinað þing: 4. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í D-deild Alþingistíðinda. (3216)

104. mál, fækkun ráðherra

Flm. (Magnús Torfason):

Hæstv. atvrh. (MG) skaut fram í ræðu minni, að þó engin baula væri á básnum, gæti hann vel hirt naut.(MG: Já, jeg get vel hirt naut!) Getur verið, að hann sje sjerstaklega vel fallinn til þeirra starfa,

Hæstv. forsrh. (JM) vildi halda fram, að það væri ekki löglegt að hafa aðeins tvo ráðherra. Jeg verð að segja, að ef hann heldur því fram, þá hlýtur hann að fara gegnum sjálfan sig. Jeg ætlaði mjer ekki að fara mikið út í lög um það efni, því að það vildi nú svo til, að meirihluti hæstv. stjórnar hefir lýst sig samþykkan þessari tilhögun, sem kom á 1922, um fækkun ráðherra niður í tvo. En úr því lagaskilningur þeirra hefir breyst síðan, verð jeg að fara nokkrum orðum sjerstaklega um það atriði. Þau lagaatriði, sem koma sjerstaklega til greina, eru 11., 12., 13. og 14. gr. stjórnarskrárinnar. Í fyrsta lagi er ákvæðið í 11. gr. þar stendur: „Konungur ákveður tölu þeirra (ráðherra) og skiftir störfum með þeim“. Þetta er vitaskuld þungamiðjan í stjórnarskránni, sem önnur ákvæði stjórnarskrárinnar eiga að miðast við; þau verður að skilja samkvæmt þessari grein, svo framarlega sem orð hinna greinanna koma ekki í bága þar við. 12.–14. gr. nota fleirtöluorðið um ráðherra, en ekki tvítöluorðið. Jeg vil halda því fram, að fleirtöluorðið hefði verið notað jafnvel þótt ráðherrar hefðu þá aðeins verið tveir, er stjórnarskráin var sett, vegna þess ákvæðis, að konungi er gefið vald til að fjölga ráðherrum. Þessvegna var sjálfsagt að taka í stjórnarskrána þá töluna, sem rífust er. Það segir enginn maður í mæltu máli: „einhver ráðherrann, eða annar ráðherranna, ef tveir eru“, nje heldur: „fyrir hönd hinna ráðherranna, eða annars þeirra, ef tveir eru“. Það vita allir, að þótt þeir geti verið tveir, þá grípur fleirtalan þar yfir og raskar engu. Jeg hefi fyrir mjer orð hæstv. fjrh. (JÞ), að hann sagði, að ekkert ákvæði í stjórnarskránni væri því til fyrirstöðu að fækka ráðherrum niður í tvo. Kvaðst hann hafa vandlega athugað þetta. Núverandi hæstv. forsrh. (JM) sagðist einnig vera þessu samþykkur, og tók það fram, að ákvæðið í 11. gr. væri beint sett til þess, að ráðherrar gætu verið tveir. Hæstv. forsrh. (JM) lagði líka blessun sína yfir tveggja manna ráðuneytið 1920. Hæstv. atvrh. greiddi ekki atkvæði um málið þá, en jeg þykist vita, að hafi hann litið svo á, að hjer væri verið að fremja stjórnarskrárbrot, þá myndi hann, sem lagamaður, hafa talið sjer skylt a. m. k. að greiða atkv. á móti því. Má því segja, að hann hafi sama sem samþykt þetta.

Mjer hefir verið sagt, að eldri lög, sem koma í bága við yngri lög, falli þá úr gildi, alment tekið. Ennfremur, að yngri, tæmandi lög felli úr gildi gömul lög, jafnvel þótt þau komi ekki í bága við nýrri lög. Þessi ákvæði hjer, um tölu ráðherranna, eru tæmandi, og engu þar við að bæta nje úr að fella, sem sje, að konungur ákveði tölu ráðherra. — Annars verð jeg að kalla það merkilegt, að það skuli koma fram nú á þessu þingi, að það sje stjórnarskrárbrot og lagabrot að hafa tvo ráðherra. Þessir hinir sömu hæstv. ráðherrar hafa einmitt látið konung samþykkja það, að ráðherrar sjeu tveir til langframa. Sje þetta stjórnarskrárbrot nú, þá hefir það verið stjórnarskrárbrot fyrir nokkrum árum; m. ö. o., þá er það borið á fyrv. hæstv. ráðherra, að þeir hafi ráðlagt hans hátign konunginum að brjóta stjórnarskrá ríkisins, og þar með gert sig seka um hrein og bein drottinsvik. (Atvrh. MG: Mikil er vitleysan!) Það er með þetta eins og oft kemur fram víða annarsstaðar, að það stendur ekki í dag, sem skrifað var í gær. Það er til nokkuð, sem heita pólitískar lygar, sem notaðar eru eftir því, sem á þarf að halda. Svo mikið er víst, að þeir menn, sem nú skipa Íhaldsflokkinn, komu með engin slík andmæli fram 1922.

Þá skal jeg snúa mjer að einstökum atriðum í ræðu hæstv. forsrh. (JM). Meðal annars sagði hann, að ekki mætti fækka ráðherrum vegna þess, að fjárlög gerðu ráð fyrir þremur og fje væri veitt til þriggja manna. Jeg hefi aldrei heyrt fyr á þinginu, að haft verði á því, þótt menn spari fje; jeg hygg, að stjórnin hafi fulla heimild til að spara þetta fje, og það er fullvíst, að hún fengi engar ákúrur hjá næsta þingi fyrir það.

Út af því, að jeg studdi nokkuð á það, hvern jeg myndi kjósa úr ráðuneytinu, vildi hæstv. forsrh. (JM) draga þá ályktun, að jeg hlyti að vera stuðningsmaður hæstv. stjórnar. Jeg sagði ekkert frekar en það, á hverjum ráðherra jeg fyrir mitt leyti hefði minst traust, og hver þeirra mætti að mínu áliti helst missa sig. Annars fanst mjer það ekki heppilegt af hæstv. forsrh. (JM) að fara inn á þessar sakir gagnvart mjer sjerstaklega, því að jeg veit ekki betur en að hæstv. forsrh. (JM) eigi blátt áfram líf sitt að þakka mönnum, sem ekki voru taldir sjerstakir stuðningsmenn stjórnarinnar.

Hæstv. forsrh. (JM) vildi segja, að þessi till. væri árás á hæstv. stjórn. (Forsrh. JM: Á atvinnumálaráðherra). Hæstv. forsrh. sagði hvað eftir annað, að það væri árás á stjórnina. Þetta er alls ekki rjett. Það er síður en svo, að jeg hafi ráðist á hæstv. stjórn; jeg hefi ekki talið upp neitt af hennar verkum, henni til lasts; jeg veit ekki betur en að þegar árásir koma á einhverja stjórn, þá sjeu talin upp verk, sem henni hefir miður farist. Því hefi jeg sneitt hjá, sem vera bar. Þess var ekki heldur að vænta, að neitt slíkt lægi í minni till.; hún hefir verið dregin mestalt þingið, en var fram komin áður en hæstv. stjórn var mynduð, blátt áfram komin fram sem vottur um þá skoðun mína, að ráðherrar ættu að vera tveir, eins og verið hefir upp á síðkastið. Þetta var bending til Íhaldsflokksins um að mynda ráðuneyti með aðeins tveimur mönnum. Mjer hefði þótt það lagleg fæðingargjöf frá flokknum til þjóðarinnar að byrja með því að gefa þennan sparnað. Eins og menn vita, tíðkast það oft, að menn gefi til guðsþakka, þegar fæðing er afstaðin, sjerstaklega þegar hún var eins hörð og í þetta sinn.

Að jeg nefndi hæstv. atvrh., stafar blátt áfram af því, að jeg hefi minst traust á honum; þar fyrir hefi jeg ekki sagt, að jeg hafi ekkert traust á honum. En jeg hlýt að játa, að jeg hefi minst traust á honum af þeim, sem eru í ráðuneytinu.

Hæstv. forsrh. (JM) var að ávíta mig fyrir það, sem einhverja óhæfu, að jeg hefði minst á, að hæstv. fjrh. (JÞ) hefði gripið inn í verkahring hæstv. atvrh. það er einmitt það, sem hann hefir margfaldlega gert. Jeg hefi verið á nokkrum þingum og tekið eftir því, að ráðherrar hafa forðast að grípa fram í hver fyrir öðrum, sjerstaklega hafa þeir varast að tala hver á móti annars frv. Jeg skal í því sambandi benda á mjög merkilegt atvinnumál, sem var afgreitt í fyrradag, sem sje vegalögin. Jeg held jeg fari ekki rangt með, þótt jeg segi, að hæstv. fjrh. (JÞ) hafi þar komist í andstöðu við hæstv. atvrh. (MG). Ekki veit jeg, hvað er að grípa inn í verkahring annars ráðherra, ef það er ekki þetta. Hingað til hafa ráðherrar, ef þeir voru ósammála, látið nægja að sýna það með atkvgr.

Þá kem jeg að rúsínunni í botnlanganum hjá hæstv. forsrh.(JM), og hún er sú, að af því að jeg vildi ekki binda mig við það, að ráðherrar væru ætíð tveir, heldur mætti fjölga þeim, þegar batnar í ári, mætti draga af því þá ótvíræðu ályktun, að þeim skyldi fjölga aftur með því að setja mig í ráðherrasess. Jeg bjóst sannarlega ekki við þessari hnútu frá honum, af því við þekkjumst vel frá fornu fari og höfum verið saman á allmörgum þingum. Hæstv. forsrh. (JM) veit vel, að jeg hefi aldrei verið að trana mjer fram til þess að ná í bitlinga eða embætti. Jeg hefi sótt um eitt starf, sem hæstv. forsrh. (JM) átti þátt í að veita, og fjekk það ekki, en hæstv. forsrh. mun vita, að jeg talaði aldrei um það við hann. Hissa, að hann skyldi koma með þetta.

Jeg bauð mig fram einn míns liðs og hefi hallast að minsta flokknum á þingi. Jeg hygg, að flestum muni það kunnugt, að jeg lýsti því strax yfir í vetur, að jeg liti svo á, að koma ætti íhaldsstjórn samkvæmt kosningaúrslitunum, og jeg hefi aldrei hvikað frá því. Einu sinni var minst á það við mig, að taka þátt í stjórnarmyndun, og jeg þverneitaði því. En að Íhaldsflokkurinn komst að stjórninni var því að þakka, að í hinum flokkunum var ákveðið valdalystarleysi ríkjandi, og það meira en nokkru sinni fyr. Og að hæstv. stjórn situr áfram, er líka þessu einstaka valdalystarleysi hinna flokkanna að þakka.

Hæstv. forsrh. (JM) vildi telja þetta ómerkilegt mál. Það gerði hann ekki 1922, og málið er jafnmerkilegt nú. Vitanlega er hjer alls ekki verið að ráðast á konung og hans rjett, því eins og kunnugt er, ráða ráðherrarnir sjálfir því, hvað margir þeir eru og hvernig þeir skifta með sjer störfum, en konungur skrifar aðeins undir. Og þar sem konungur hefir ekki skift sjer af slíku í Danmörku, gerir hann það því síður hjer norður við Íshaf.

Hv. þm. Ak. (BL) byrjaði með því að segja, að jeg hefði með þessu gert árás á hæstv. atvrh. (MG), en í svari til hæstv. forsrh. (JM) hefi jeg lýst því yfir, að svo er ekki. Hv. þm. (BL) talaði um, að ráðherralaunin væru svo lág, að það tæki því ekki að spara einn ráðherra. Jeg skal ekki fara út í það, það liggur ekki fyrir hjer, en 10 þús. kr. eru 10 þús. kr., og í atkvgr. þingsins hefir mjer virst minni summur spila talsverða rullu. Með þessu er líka svarað hv. þm. Barð. (HK), sem talaði um, að hjer væri um að ræða traust eða vantraust. Það er ekki rjett, heldur hefir verið talað um traust og minna traust. Hv. þm. (HK) var að brýna mig á því, að jeg hefði verið reiðubúinn að taka starfið að mjer með hv. fyrv. atvrh. (KlJ). Þessu hefi jeg svarað. Í því sambandi kvað hann mig hafa gert lítið úr vinnukröftum hv. 2. þm. Rang. (KlJ). Jeg kom ekki nærri því spursmáli, lýsti því einu yfir, að honum hefði veist ljett að gegna þessu embætti. Jeg hefi dálítið fyrir mjer í því. Annað mál er það, eins og jeg tók fram, að ef hann er nú 63 ára, þá ætti því fremur maður, sem er næstum tveim tugum yngri og mikill starfsmaður, að geta gegnt því. Nú á sjötugsaldri væri eðlilegt, að hann væri farinn eitthvað að bila, en það er langt frá mjer að gera lítið úr starfskröftum hans.

Þá vildi hv. þm. (HK) halda fram, að hæstv. atvrh. (MG) hefði betri þekkingu á búnaðarmálum en hæstv. fjrh. (JÞ). Jeg veit ekki, hvaðan honum kemur það. Báðir eru aldir upp í sveit, en hæstv. fjrh. (JÞ) er framúrskarandi verkfræðingur og hefir átt við stórkostleg jarðræktarfyrirtæki hjer á landi og mikið kynt sjer slík mál. Jeg sje ekki, að hæstv. atvrh. (MG) hafi því neitt betri aðstöðu til að vera búnaðarmálaráðherra, nema ef hann kann betur til fjósaverka.

Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að jeg væri vanur að fara krókaleiðir. Það er ekki rjett, og hann ætti sannarlega ekki að vera að brigsla mönnum um krókaleiðir, hann hefir komið að mörgum flokkum sjálfur. Það er ekki rjett, að þessi till. sje árás á hann, en eins og jeg hefi lýst yfir, hefi jeg minst álit á honum. En eins og jeg hefi tekið fram, er till. alls ekki flutt sem vantraustsyfirlýsing, því að í slíku máli hefir það auðvitað engin áhrif, hvort ráðherrarnir eru 2 eða 3. Hefði þessi till. komið strax á dagskrá, er henni var úthlutað, hefði hæstv. forsrh. (JM) væntanlega hallast að því, að fá sjer aðeins einn meðverkamann.

Þá gat hæstv. atvrh. (MG) þess, að jeg myndi skoða hann sjerstakan óvin Flóaáveitunnar. Jeg hefi ekkert talað um það, og ekkert heyrst um það. En þetta, að hann getur ekki hugsað sjer annað en Flóaáveituna, kemur sjálfsagt af því dæmalausa víðsýni, sem hv. þm. Barð. (HK) var að tala um, að væri hjá hæstv. atvrh.

Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að lögin frá 2. jan. 1917, um að ráðherrarnir skyldu vera þrír, hefðu aldrei verið numin úr gildi, en jeg hjelt, að þau væru numin úr gildi með stjórnarskránni. Hann var að bera mjer á brýn, að jeg væri ekki mikill lagamaður, jeg tek ekki til þess; það getur vel verið, að hann sje mjer meiri á því sviði. Jeg hefi aldrei reynt til að slá mig til riddara á minni lagavisku. En þetta minnir mig á það, þegar hann var að veitast að mjer fyrir sömu sakir í gær. Jeg hefi síðan talað við manninn, sem þann dóm dæmdi, sem um var að ræða, og hann játaði, að jeg hefði ekkert um það sagt, hvort dómurinn hefði verið rjettur eða rangur. Minnir þetta mann á það, að hæstv. atvrh. (MG) gleymir aldrei, að hann er „prókúrator“, en það fer ekki vel á því í ráðherrasessi.

Loks mintist hann á, að jeg hefði farið til Ítalíu til að læra stjórnaraðferð Mussolini, og var í því sambandi að brigsla mjer um, að jeg starfaði lítið í mínu embætti. Jeg verð nú að segja, að það var ákaflega göfugmannlegt, og honum líkt, að brigsla mjer um, að jeg skyldi taka mjer þriggja mánaða frí eftir að hafa verið 30 ár í þjónustu landsins. Þetta var mitt fyrsta frí og allur kostnaður greiddur úr mínum eigin vasa, og hvað því viðvíkur, að jeg hafi vanrækt embættið á meðan, þá veit hann það vel, að það má undirbúa mikið áður en farið er, og bæta úr því á stuttum tíma, sem bæta þarf. Og loks vil jeg benda á, að jeg hefi ágætan skrifara, sem jeg borga 3600 kr. á ári, en allur skrifstofukostnaðurinn, sem jeg fæ greiddan, er 2898 kr., eða með öðrum orðum, jeg verð að borga skrifaranum 702 kr. úr eigin vasa og allan annan kostnað auk þess. Hann (MG) þykist gera mikið og talaði um, að jeg vildi rýra hann sem vinnumann. Það hefi jeg ekki gert; jeg þekki hann feikilega lítið, en hefi ekkert á móti því að lýsa því yfir, að jeg hefi heyrt, að hann væri góður starfsmaður. En þegar hann er að tala um, að hann hafi mikið að gera, þá get jeg sagt hæstv. atvrh.(MG) það, að þegar hann lagðist svo fast á móti því, að Alþingi ákvæði innflutningshöftin, þá skreið það með þingbekkjunum, að hæstv. atvrh. (MG) vildi ómögulega missa höftin úr hendi sjer, svo að hann hefði eitthvað að gera, og að á þeim væri hans tilverurjettur bygður, með þeim ætti að skapa honum atvinnu.

Hv. þm. V.-Sk. (JK) var að spyrja mig, hvort jeg vildi heldur með þessu spara vinnukraft eða peninga. Jeg held, að jeg hafi þegar í upphafi lýst því yfir, að þetta væri ein sparnaðartill., sem þjóðin hefði beðið um og jeg hefði lofað að styðja.