02.05.1924
Efri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

1. mál, fjárlög 1925

Sigurður Eggerz:

Jeg mintist á stúdentastyrkinn í fyrri ræðu minni og sagði þá, að hæstv. stjórn hefði sýnt því máli of mikið tómlæti. En jeg skal játa, og vil, að það komi fram í umr., að síðan hefi jeg heyrt, að hæstv. forsrh. (JM) hafi mælt eindregið með hækkuðum styrkveitingum til stúdenta í hv. Nd., en um þetta var mjer ekki áður kunnugt.

Jeg vildi því treysta á það, að hæstv. stjórn finni einhverja leið til þess að láta stúdentana fá jafnmikinn styrk og gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. fyrverandi stjórnar, því að jeg er viss um það, að ef hún finnur leið til þessa, þá muni þingið samþykkja hana eftir á, þar sem jeg þykist vita, að flestir hv. þm. hafi fulla samúð með óskum og kröfum stúdenta í þessu efni. Jeg veit, að hv. þdm. er kunnugt, að þessi afstaða mín til stúdentanna er ekki ný. Áður, þegar jeg hafði með þessi mál að gera og styrkurinn til stúdenta, sem stunda nám erlendis, var áætlaður í íslenskum krónum, leyfði jeg mjer óátalið af þinginu að borga hann út í dönskum krónum. Sömuleiðis fjekk jeg því til vegar komið í fyrra, að þeim var greidd gengisuppbót úr ríkissjóði af þeim peningum, sem þeir fengu senda hjeðan að heiman.

Mjer er sjálfum vel kunnugt um erfiðleika þá, sem stúdentar eiga við að stríða, og get tekið undir það með hæstv. forsrh., að þó að þeir, sem dvelja við háskólann hjer heima, sjeu hart. leiknir eins og fjárlagafrv. er nú úr garði gert, þá eru hinir, sem stunda nám erlendis, enn harðara leiknir.

Vil jeg vænta hins besta af hæstv. stjórn, að hún reyni að bæta úr þeirri meðferð, sem stúdentar nú hafa fengið, og er jeg sannfærður um, að það verður ekki átalið síðar.