12.03.1924
Neðri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í D-deild Alþingistíðinda. (3304)

53. mál, prófessorsembættið í íslenskri bókmenntasögu

Forsætisráðherra (SE):

Jeg verð að biðja hv. deildarmenn að athuga það, að próf. Sig. Nordal var sýndur mikill heiður með tilboðinu frá Norðmönnum. Og það er enginn vafi á því, að fyrir slíkan andans mann mundi prófessorsembætti í Kristjaníu verða framúrskarandi tækifæri til þess að draga athygli að sjer og sínum ágætu hæfileikum. Þar mundi hann, sá afburðamaður sem hann er, fá notið sín fyllilega. Það er því mikil freisting fyrir hann að taka þessu boði. En samt gerir hann kost á því að sitja kyr. Jeg bið menn að athuga þetta vel.

En ástæðan til þess, að hann vill gera kost á þessu, er sú, að menn hafa stöðugt verið að biðja hann að fara hvergi. Það hafa ótal menn komið til mín, sem ráðherra, og talið það hið mesta óhapp, ef próf. Sigurður Nordal væri látinn fara af landi burt og taka við embætti við erlendan háskóla. Það er þjóðarmetnaður, að þeim fræðum, sem hann kennir hjer, sje haldið í sem allra mestum heiðri. En einmitt þetta, að prófessorinn vill heldur vera hjer kyr, þrátt fyrir hið glæsilega tilboð frá útlöndum, það sýnir, hvað það er ástæðulaust að bregða honum um skort á ættjarðarást. Fyrir honum ræður einmitt meir áhugi á því að vinna fyrir sína þjóð, heldur en glæsileg framtíð fyrir sjálfan hann. Þetta bið jeg menn að athuga og forðast að blanda honum persónulega og á óheppilegan hátt inn í þessar umræður. Þegar jeg átti tal um þetta efni við hann, þá óskaði hann aðeins, að ekki yrði mikið reiptog um málið, eins og þó hefir, því miður, orðið hjer í hv. deild í dag.