22.03.1924
Neðri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í D-deild Alþingistíðinda. (3317)

92. mál, þegnskylduvinna

Jakob Möller:

Jeg ætla að nota tækifærið þegar við þessa umræðu til þess að lýsa yfir því, að jeg get ekki fylgt þessari tillögu eða þeirri hugmynd, sem þar er borin fram. Mjer virðist tvímælalaust, að hugmyndin sje fram borin af hugsýni. En þá hugsýni hlýtur þvingunin að drepa. Það er sagt um okkur Íslendinga, að við þolum illa alla þvingun. Og jeg álít, að hægt sje að drepa áhuga og hugsýni í hverju máli sem vera skal, með þvingun. Jeg sje, að flm. hafa fundið þetta vel, og reynt að fara svo langt sem unt var í því að gera þetta sem frjálsast, en samt er það að lokum framkvæmt á þann hátt, að beitt er þvingun.

Jeg hefði viljað, að það hefði a. m. k. verið vikið að því í þessari till., eða meðmælunum með henni, úr því ekki er farið lengra að sinni en hugsað til undirbúnings, að því hefði verið skotið til stjórnarinnar, hvort ekki mundi hægt á annan hátt að stofna til algerlega frjálsrar þegnskylduvinnu. Hugmynd, sem bygð er á „idealisma“, stendur og fellur með því, hvort menn vinna henni af fúsum og frjálsum vilja eða ekki. Það, sem fyrir mjer vakir, er þetta, að ef gengið er á móti þessari grundvallarsetningu, þá er málið drepið í fæðingunni.

Jeg get hugsað mjer framkvæmd þessa máls þannig, að ríkið gangist fyrir því að koma slíkri þegnskylduvinnu á með frjálsum samskotum. Til þess að koma á frjálsri þegnskylduvinnu þarf áhuga, en það fyrirtæki, sem stofnað er af áhuga, mun lifa, ef það kemst af stað. En sje þvingun beitt, þá mundu þeir menn, sem nauðugir tækju þátt í starfinu, eitra andrúmsloftið kringum sig með óánægju, og fyrirtækið yrði á skömmum tíma dauður hlutur og ekki annað en baggi á ríkissjóði.

Af því þetta er aðeins fyrsta stig málsins, þá sje jeg ekki frekari ástæðu til þess að fara mjög ítarlega í einstök atriði þess. En það er grunur minn, að það fari aldrei lengra, því að ekkert sýslufjelag mun vilja nota þá heimild, sem hjer yrði gefin.

En það mætti skjóta því til stjórnarinnar að athuga, hvort ekki mundi tiltækilegt að stofna frjálsa þegnskylduvinnu.