25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í D-deild Alþingistíðinda. (3359)

129. mál, klæðaverksmiðja

Halldór Stefánsson:

Það veltur á tvennu, hverja þjóðfjelagslega þýðingu það hefir, að stofnað sje til aukins ullariðnaðar hjer á landi. Fyrst. hvernig slíkur iðnaður kemur til að verka á heimilisiðnaðinn í landinu, og í öðru lagi, hver fjárhagsstuðningur það verður fyrir ullarframleiðsluna.

Að því er snertir fyrra atriðið, þá hygg jeg, að það muni heldur verða til að draga úr heimilisiðnaðinum, ef stofnuð yrði aðeins ein verksmiðja. Að minsta kosti hefir reyndin til þessa orðið sú, að fullkomnar ullarverksmiðjur hafi jafnan haft þær verkanir. Það er stærð þeirra og einkum fjarlægð þeirra og óbein viðskifti við ullarframleiðendur, sem gerir þetta að verkum. Aftur á móti er því svo varið, að því nánara sem sambandið er milli verksmiðjunnar og ullarframleiðenda, þeim mun betur er hún fallin til að styðja og efla heimilisiðnaðinn. Þá getur hver og einn fengið ullarvinnuna á því stigi og á þeim tíma, sem honum hentar best. Af þessum sökum myndi t. d. verksmiðja hjer í Reykjavík alls ekki hafa meiri þýðingu fyrir heimilisiðnaðinn úti á landi, síst á Austurlandi, en norskar verksmiðjur. Það er því engum efa bundið, að það verður miklu hagfeldara í þessu tilliti að hafa verksmiðjurnar fleiri, en smærri.

Að því er snertir hitt atriðið, fjárhagsstuðninginn við ullarframleiðendur, þá veltur það aðallega á forminu, hvort fyrirtækið verður í hlutafjelags- eða í samvinnufjelagsformi. Það er undir því komið, hvort það verður til sem gróðafyrirtæki fyrir stofnfjeð, eða til verðhækkunar fyrir innlenda framleiðslu. Verði það stofnað sem hlutafjelag, þá getur það ekki haft nema litla þjóðhagslega þýðingu, því almenningur kemur þá ekki til að hafa nema tiltölulega lítið gagn og lítinn áhuga fyrir því. Verði það aftur á móti í samvinnuformi, þá getur þýðing þess orðið mikil, því það verður þá samgróið hag og áhuga almennings. Þessi till., sem hjer er um að ræða, gerir ráð fyrir hlutafjelagsforminu, og eftir öllum líkum að dæma er verksmiðjunni ætlað að vera í Reykjavík. Ef svo færi, þá ætti Reykjavík mjög hægt með, með útsvörum o. fl., að draga til sín allan hagnaðinn úr höndum fyrirtækisins og ullarframleiðenda.

Í öðru lagi gerir till. ráð fyrir aðeins einni verksmiðju, og er það ólíklegt til þess að efla eða auka heimilisiðnaðinn í landinu. En til þess ætti þó kvörninni einmitt að vera snúið. Í þessu sambandi skal jeg taka það fram, að ef svo færi, að reist yrði aðeins ein verksmiðja, þá ætti hún að vera á Austurlandi, vegna þess, að Austfirðingar eiga ógreiðastan aðgang að verksmiðjum og minstan kost á stuðningi til aukins heimilisiðnaðar, og aðstaða þar að engu leyti verri en nokkursstaðar annarsstaðar.

Jeg vildi aðeins taka þetta fram til athugunar fyrir þá, sem fara kunna með málið í framtíðinni, og til að skýra afstöðu mína til þessa máls síðar, eftir því, hver leið verður farin og hvert formið verður.

Að lokum skal jeg svo geta þess, að jeg mun á þessu stigi málsins greiða atkv. með brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) og með brtt. á þskj. 377. Þó þykir mjer ekki ólíklegt, að jeg við síðari umr. málsins beri fram brtt.