25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í D-deild Alþingistíðinda. (3403)

81. mál, starfsmannahald við landsverslunina og áfengisverslunina

Jakob Möller:

Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hv. þm. Str. (TrÞ) sagði um Landsbankann. Hv. þm. hefir víst ekki athugað, að dæmið með Landsbankann sannar einmitt þetta, að ef ríkið fer í þessum efnum inn á starfssvið einstaklinganna, þá verður það að fylgjast með þeim, að því er launakjör snertir. Að því er snertir Landsbankann, þá var ekki hægt annað en að fylgjast með Íslandsbanka, bæði að því er snerti laun bankastjóranna og annara starfsmanna. Ella hefði ríkisbankinn útilokað sig frá því að eiga kost á jafnhæfum starfsmönnum sem hinn.

Jeg lít annars svo á, að það sje alls ekkert fjarri sanni að leggja Landsbankann niður sem ríkisbanka og gera hann að hluthafabanka. Hefir og legið fyrir þinginu frv. frá fyrv. stjórn þess efnis. Hann yrði þá ekki lengur sá ásteytingarsteinn, sem hann hefir verið til þessa, að því er laun starfsmannanna snertir. Tel jeg það í rauninni það eðlilegasta, að hann kæmist undir sjerstaka stjórn, sem ekki væri eins háð þinginu og nú er.