10.03.1924
Neðri deild: 19. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (3433)

20. mál, kennaraskóli

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það mun satt vera, sem hv. þm. Borgf. (PO) hjelt fram, að til sje flokkur manna andvígur fræðslukerfi landsins eins og það er nú. Jeg veit, að nokkrir sveitabændur líta málið sömu augum og hv. þm., en fámennur mun sá hópur vera. Kaupstaðabúar munu aftur á móti vera svo að segja undantekningarlaust með fyrirkomulaginu eins og það er, enda er það engin furða. Þar játa allir nauðsyn þess og vilja bæta gallana, en ekki rífa niður kostina. Í sveitunum eru menn ekki á eitt mál sáttir, eins og hv. þm. Borgf. (PO) virðist ætla, heldur verður þar skýrt vart tveggja strauma. Annar er kaldur og stafar frá þeim, sem stara stöðugt á hag sveitar- og ríkissjóðsins, en gleyma þörfum barnanna. Hinn er heitur og á upptök sín hjá þeim, er hafa fyrir augum þörf barnanna og vita, að nokkuð þarf til að vinna að veita þeim góða fræðslu. Sem betur fer er hlýi straumurinn sterkari í sveitum landsins.

Jeg skal játa, að það fer talsvert fje til barnafræðslunnar, en þó ekki eins mikið og hv. þm. Borgf. telur sjer trú um. Fjárveitingin kemur víða niður. Rjettast er að reikna þennan kostnað þannig, að ljóst verði, hve mikið kemur á hvert barn. Jeg hefi litið svo til, að nú nemi það 40–50 krónum á hvert barn, og má árangurinn af kenslunni vera lítill, ef ekki svarar kostnaði.

Mjer skildist það á hv. þm., að hann væri á móti frv. sumpart í því skyni að auka framleiðslu í landinu, sumpart til þess að koma gjöldum ríkissjóð úr 7 miljónum niður í 3, eins og var fyrir stríðið. Hv. þm. er hjer á heldur slæmum villigötum. Hann ætti að taka bandið frá augunum; þá myndi hann fljótlega sjá, að meiri þörf er að knýja á annarsstaðar. Hjer er engu verið að eyða. Þessu frv. fylgir engin krafa um launahækkun kennaranna. Ekki svo að skilja, að jeg líti svo á, að þeir eigi að vera ver launaðir en kennarar mentaskólans. Um þá skoðun eru fleiri en jeg. T. d. skal jeg benda á það, að í Svíþjóð eru þeir jafnt launaðir og í Danmörku betur en hinir. En um það er ekki að ræða hjer, heldur bara þetta, að nota betur starfskrafta þessara manna en verið hefir.

Hv. þm. kvaðst ekki hafa búist við því, að það kæmi til nokkurra mála, að þetta frv. færi lengra en til nefndar. Jeg veit, að honum voru þetta vonbrigði. — Jeg ætla að vona það, að hann eigi eftir að verða fyrir fleiri vonbrigðum í þeim efnum.