19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í C-deild Alþingistíðinda. (3486)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Frsm. (Ágúst Flygenring):

Jeg tek undir það með hv. 4. þm. Reykv. (MJ), að best sje, að samvinna milli þeirra, sem að þessari atvinnu standa, útgerðarmanna og sjómanna, sje sem best, og vil jeg síst af öllu auka á þær deilur nje fallast á það, sem hv. 2. þm. Reykv. (JBald) sagði, að það væri aðeins fyrir vissan flokk manna, að unnið væri á móti máli þessu. Mál þetta er ekkert flokksmál, og á ekki að vera það. Hv. þm. Borgf. (PO) er alls ekki að vinna fyrir neitt togarafjelag, og er hann þó einn versti mótstöðumaður þessa frv.

Viðvíkjandi frv. sjálfu og ábyrgðinni, get jeg getið þess, að fjelögin hafa þegar hugsað sjer kaup á togurum og að snúa sjer til vissra banka, ef málið nær fram að ganga. En jeg hefi ekki leyfi til að skýra nánar frá því.

Stjórnin mun vissulega girða fyrir, að flaggað sje með ábyrgðinni, og ekki gefa hana út fyr en hana þarf að nota, og það með þeim tryggingum, sem hún tekur gildar. Verður það mál ekki lagt í aðrar hendur en stjórnarinnar einnar, og má treysta því, að hún kunni að fara með það. Annars get jeg bent á, að samskonar heimild hefur áður verið veitt, og það án nokkurrar greinargerðar, svo að þetta er ekkert nýtt.