10.03.1924
Neðri deild: 19. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

20. mál, kennaraskóli

Pjetur Ottesen:

Það gladdi mig að heyra það, að hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) kvað skoðanabræðra minna í fræðslumálunum að leita í sveitinni. Í sveitinni er kjarni þjóðarinnar; þar er þeirra manna að leita, sem halda við því, sem best er og heillavænlegast með þessari þjóð, og þá vitanlega líka í fræðslumálunum. — Jeg endurtek það, að þetta gladdi mig stórlega. — En að því er snertir tal hv. þm. um heita og kalda strauma, þá vil jeg leyfa mjer að halda því fram, að þeir menn, sem hvorki hugsa um sveitar nje ríkissjóðinn, muni trauðla geta látið mjög holla strauma eða hlýjumikla streyma út frá sjer.

Hv. þm. kvað engar launakröfur myndu fylgja frv. þessu, en jeg get ekki betur fundið en hv. þm. hafi notað undanfarin tækifæri við umræður þessa máls til þess að reyna að sýna fram á, að kennarar við kennaraskólann stæðu að minsta kosti mentaskólakennurum jafnfætis. Þykist jeg því viss um, að þegar endurskoðun á launalögunum kemur til umræðu á næsta þingi, þá muni hv. þm. fylgja því fram, að laun kennaraskólakennaranna verði hækkuð. Hefir þannig hugboð mitt fengið stuðning hjá honum sjálfum.