25.03.1924
Efri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

20. mál, kennaraskóli

Eggert Pálsson:

Það hefir við umræðurnar um þetta mál verið reynt til að gera nokkurn samanburð á menningar- og mentunarástandi þjóðarinnar fyr og nú, og þess vegna vildi jeg segja fáein orð út frá minni reynslu.

Það er skoðun mín, að framfarir miklar hafi ekki átt sjer stað í þessum efnum síðan fræðslulögin frá 1907 gengu í gildi. Þó vil jeg á hinn bóginn ekki fullyrða, að áberandi afturfarir hafi orðið. Það var svo áður fyr, að greind börn komust með nokkurri leiðbeiningu eins langt og börn á sama reki og með sömu hæfilegleikum komast nú. Tornæm börn urðu þá aftur úr, alveg eins og nú gerist og gengur. Reynslan er því í raun og veru sú sama nú eins og áður var, enda þótt tilkostnaður sje nú margfalt meiri. Jeg hygg það ofmælt hjá hv. 1. landsk. (SE), að áður fyr hafi verið erfitt að finna menn hæfa til þess að gegna hreppstjóra- eða oddvitastörfum, en að nú sje þetta innanhandar í hverri sveit. Jeg hygg, að slíka menn hafi æfinlega mátt finna. Og aldrei hefi jeg heyrt, að skortur á slíkum mönnum hafi komið að skaða. En væri það nú rjett hjá hv. 1. landsk., að hægra væri nú en áður að finna slíka menn, þá tel jeg allsendis óvíst, hvort eigna beri þá breytingu fræðslulögunum frá 1907. Flestir eða allir þeir menn, sem nú gegna þessum stöðum, voru komnir af barnsaldri árið 1907, og hafa því ekki meðtekið sína fyrstu fræðslu samkvæmt þeim lögum. Þessir menn, sem hv. 1. landsk. telur nú svo miklu hæfari en gömlu mennina til þess að gegna oddvita- og hreppstjórastöðu, hafa allir fengið sína bernskufræðslu áður en lögin frá 1907 gengu í gildi. En hinsvegar er það ennþá óreynt, hversu hæfir þeir menn reynast, sem numið hafa samkvæmt þeim lögum.

En þó jeg líti þannig á, þá finn jeg þó ekki ástæðu til þess að leggjast á móti frv. nje hamla framförum kennarastjettar vorrar. Hjer er farið fram á að lengja námstímann nokkuð og bæta einni námsgrein við. Og þar sem jeg er því samþykkur, að þetta þurfi ekki að hafa í för með sjer verulegan aukinn kostnað, ef alls sparnaðar er gætt, þá sje jeg ekki neitt því til fyrirstöðu, að frumvarpið sje samþykt.