09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

6. mál, sameining yfirskjalavarðarembættis og landsbókavarðarembættis

Ásgeir Ásgeirsson:

Það, sem jeg sagði um sameiningu allra safnanna þriggja, ber ekki að skilja sem tillögu mína, enda liggur það ekki fyrir. Jeg vildi aðeins benda á, að eins rjettmætt væri að sameina öll söfnin, og þar sem það er vitanlegt, að hinn setti þjóðskjalavörður muni fá veitingu fyrir embættinu, liggur því máli ekkert á. Jeg segi þó ekki, að jeg mundi fylgja þessu, heldur benti á, að þetta væri rjetta aðferðin, ef menn vilja steypa saman.

Jeg er ekki eins hræddur og hv. 4. þm. Reykv. (MJ), þegar jeg heyri samsteypu nefnda. Hann óttast að þá muni alt fara í kaldakol, háskólinn í gær og söfnin í dag. Jeg býst ekki við, að farið verði að rugla saman náttúrugripum og bókum, en að bókum og skjölum verði ruglað saman, er ekkert kvíðvænlegra en að rugla saman skáldsögum og stærðfræðibókum, eins og gert er. Þetta gengur því ekki í mig, enda liggur samsteypa allra safnanna ekki fyrir.

Jeg er samdóma hæstv. forsrh. (JM) um það, að ekki þurfi nema einn aðalstarfsmann við Þjóðskjalasafnið og að Hannes Þorsteinsson eigi að veita því forstöðu, meðan hans nýtur við. Það mun vera tilfinning okkar beggja, að ágætur maður í þessum fræðum eigi að vera húsbóndi á sínu eigin heimili. En ef það er látið eftir einum ágætismanni og vjer eignuðumst fleiri ágæta menn í þessari grein, yrði að sjálfsögðu að láta það líka eftir öðrum. Það mun enginn vera hjer, sem teldi það heppilegt, að dr. Jón heitinn Þorkelsson, fremur en Hannes Þorsteinsson nú, hefði unnið við safnið undir stjórn annars. Jeg vil með tillögu minni spara alt að því eins mikið fje sem frv. fer fram á, en mjer þykir skemtilegra, að íslenskur fræðiþulur væri húsbóndi á þessu höfuðbóli íslenskra fræða og þyrfti ekki að vera gefinn undir annan.