22.03.1924
Efri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

5. mál, vegalög

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) hefir nú gert grein fyrir því, hvers vegna brtt. á þskj. 190 er komin fram. Jeg vil taka það fram, að þær brtt., sem nefndin hefir komið sjer saman um að gera á frv., er hvorki að bæta þjóðvegum við nje heldur að afnema þjóðvegi, sem þar eru ákveðnir. Heldur ganga þessar brtt. í þá átt að breyta legu þjóðvega og þjóðvegakafla. Hvað viðvíkur þjóðveginum í kjördæmi hv. 1. þm. Eyf., og sem í frv. er ákveðinn um Þelamörk, Kræklingahlíð, Akureyri og síðan Vaðlaheiði, þá tel jeg sennilegt, að nefndin hefði lagt til, að legu hans yrði breytt, ef fram hefði komið rökstudd ósk um það. Mjer þykir mikið fyrir að verða að andmæla óskum hv. 1. þm. Eyf. um veginn frá Akureyri til Saurbæjar, en af fyrgreindum ástæðum gat nefndin ekki fallist á þær. — Yfirleitt má segja, að með þessu frv. sje gerð mikil bragarbót og unnið sýslufjelögunum gagn hvað snertir fjárframlög til akfærra þjóðvega. Það hefir sýnt sig, að í kjölfar þessarar einu brtt. ætla margar aðrar að sigla. Hafa bæði hv. 1. þm. Rang. (EP) og hv. 2. þm. G.-K. (BK) boðað brtt., ef till. hv. 1. þm. Eyf. nær fram að ganga. Sýnist það því vera bæði æskilegast og hyggilegast að lofa frv. að fara óbreyttu til 3. umr. og að forðast sem mest brtt., er tefja endanlega samþykt frv. Vildi jeg því mælast til þess við hv. 1. þm. Eyf., að hann tæki till. sína aftur. Ef hv. 1. þm. Eyf. sæi sjer fært að verða við þessum tilmælum mínum, myndi komið í veg fyrir, að aðrar slíkar brtt. kæmu fram. Gæfi það því um leið frv. miklu betri byr í gegnum þingið.