28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

5. mál, vegalög

Jón Sigurðsson:

Það eru nú þegar margir þm. búnir að taka það fram, að þeir greiði engum brtt. atkv. sitt, og er útlit fyrir, að þeir ætli að efna það, eftir því að dæma, hve margir stólar eru hjer auðir. (KlJ: Það er alveg ósæmilegt, hve fáir eru á fundi).

Jeg gat þess við 2. umr., að jeg teldi ekki heppilegan tíma nú til að endurskoða vegalögin, og þar með leggja stór aukin útgjöld á ríkissjóð, og vísaði í því sambandi til þess, hve hagur ríkissjóðs væri örðugur. Jeg skal þó ekki ræða þá hlið málsins nánar, þar sem mjer virðist, að deildin hafi sýnt með atkvgr., að hún æski þessarar endurskoðunar. En of mikils handahófs hefir mjer þótt gæta í þessari endurskoðun. Til þess að bæta úr því lítilsháttar hefi jeg leyft mjer að koma með brtt. á þskj. 397, sem hefir verið gerð hjer að umtalsefni. Jeg skal nú í fám orðum sýna fram á sanngirni þessarar kröfu. Með þessu frv. er farið fram á, að nokkrir sýsluvegir sjeu gerðir að þjóðvegum. Þannig eru teknir í þjóðvegatölu sýsluvegir í Gullbringusýslu og Strandasýslu. Sú ástæða, sem færð hefir verið fram gegn tillögu minni, að Hofsósvegurinn sje sýsluvegur og því beri ekki að taka hann í þjóðvegatölu, er því einskis virði. Þá er á það að líta, hverja sanngirniskröfu hjeraðið eigi í þessu efni samanborið við önnur hjeruð. Sannleikurinn er sá, að Skagafjarðarsýsla hefir orðið einna verst úti af öllum sýslum landsins hvað þjóðvegi snertir.

Það verða eftir frv. aðeins tvær sýslur á landinu, sem fengið hafa minna af þjóðvegum, þ. e. Ísafjarðarsýsla og Barðastrandarsýsla. (TrÞ: Strandasýsla miklu minna). Ekki eftir breytinguna, sem frv. gerir ráð fyrir, og þó er jeg ekki viss um, að Barðastrandarsýsla verði ver úti. En þá er líka upp talið. Menn geta sjeð, hvort þörfin muni vera meiri í Skagafjarðarsýslu eða í Ísafjarðarsýslu, þar sem mestallar samgöngur eru á sjó. Þjóðvegir þeir, er Skagafjarðarsýslu hafa fallið í skaut, eru Sauðárkróksbrautin, sem líklega er stysta akbrautin á landinu fyrir utan Hvammstangaveginn, og vegarspotti frá Víðimýri yfir Vallhólminn og fram Blönduhlíð, og liggur svo að mestu eftir afdal. Austur-Skagafjarðarsýsla er fyllilega sambærileg Vestur-Húnavatnssýslu. Austur-Skagafjarðarsýsla hefir aðeins fengið þjóðvegarspottann, sem jeg nefndi, fram Blönduhlíðina, innan við 20 km. á lengd, og þó að nokkru eftir afdal. Vestur- Húnavatnssýsla hefir þjóðveg yfir þvera sýsluna, líklega um 60 km., og þar að auki braut út á Hvammstanga. Þetta kauptún er mjög á borð við Hofsós, svo að ef Hvammstangabrautin á rjett á sjer, sem jeg efast ekki um, þá er víst, að Hofsósvegurinn á það einnig og að Austur-Skagafjarðarsýsla á hina fylstu sanngirniskröfu til þessa. Helsta ástæðan gegn því væri þá sú, að Austur-Skagafjarðarsýsla er ekki sjerstakt sýsluhjerað, en ekki er það veigamikil ástæða. Ef menn vilja líta með sanngirni á þetta mál, er engum blöðum um það að fletta, að Austur-Skagfirðingar eiga meiri kröfu til, að tillit sje tekið til þeirra en flestra annara landsmanna. Það er engin sanngirni í því að taka upp þjóðveg suður í Keflavík, en sleppa algerlega jafnstóru og þjettbýlu hjeraði, sem Austur-Skagafjarðarsýsla er. Jeg get búist við því, að orð mín falli að þessu sinni í grýtta jörð og menn sjeu fyrirfram ráðnir í því að gera engar breytingar og sýna enga sanngirni. Að Skagafjarðarsýsla verði hart leikin eftir þessu frv., ef að lögum verður, get jeg sannað með tölum, ef orð mín eru dregin í efa. Um það er ekki að fást, en ósanngirni er það, og ekkert annað, ef þessi tillaga er feld.

Út af athugasemd hv. þm. Mýra. (PÞ) við þessa tillögu, skal jeg aðeins geta þess, að hann fór rangt með tölur. Hv. þm. kvað þennan veg vera 35–40 km., en það er ekki rjett. Vegurinn er 24 km. Sú niðurstaða, sem hv. þm. komst að, er annars býsna góður spegill af því, sem stundum vill verða hjer á þingi. Fyrst sagðist hann vera á móti þessari brtt. af því, að vegurinn lægi út úr hjeraðinu, en þegar það var leiðrjett, kvað hann enn frekari ástæðu til að vera á móti brtt., vegna þess, að vegurinn væri allur innanhjeraðs. (PÞ: Það var mismæli, sem jeg leiðrjetti þegar). Þetta er góður spegill af því, hvað komið getur fram í svona máli, þegar kapp er komið í menn.

Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) kvað þennan veg ekki eiga meiri rjett á sjer en hvern annan sýsluveg, og nefndi vegi á Landi og Rangárvöllum, í Árnessýslu og víðar. Það er nú engin ný bóla, að fulltrúar Sunnlendinga þykist einir eiga að ráða ríkissjóðnum. Hingað til hafa þeir ekki borið skarðan hlut, og þurfa þeir síst að kvarta undan því, hvernig ríkissjóður hefir farið með þá, er kemur til vega. Er síst ástæða fyrir þá að vitna til þess, að þeir eigi jafnmikla sanngirniskröfu sem Norðlendingar, sem lítið hafa fengið til vega. Til dæmis hefir Grímsnesvegurinn einn kostað meira en helmingi meira en Skagafjarðarbrautin, og er hann þó aðeins álma af aðalbrautinni, fyrir utan Eyrarbakkabrautina o. fl.