28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

100. mál, verðtollur

Sveinn Ólafsson:

Jeg kvaddi mjer hljóðs af því að jeg vildi svara hæstv. fjrh. (JÞ) nokkrum orðum. Það var einkum ein fullyrðing hjá honum, sem jeg vildi mótmæla. Það var sú fullyrðing, að jeg hefði ágreiningslaust gerst flm. að þessu frv. í fjárhagsnefnd. Jeg mótmæli þessu eindregið. Jeg varð einmitt flm. með alveg sjerstöku skilyrði, sem sje því, að samferða þessu frv. yrði haftafrv. Að öðru leyti vil jeg taka það fram, að þegar hæstv. fjrh. læst ekki skilja í þeirri mótspyrnu, sem þetta frv. yrði nú fyrir, þá má hann sjálfum sjer um kenna, þar sem hann sem formaður fjárhagsnefndar hefir tafið svo fyrir haftafrv., að það komst ekki fram á rjettum tíma. Við minnihlutamenn fórum eindregið fram á það í nefndinni, að það frv. yrði tekið fyrir í nefndinni áður en þetta frv. yrði afgreitt. Því var ekki sint og ýms smámál, og það jafnvel ómerkileg mál, afgreidd á undan.

En það er nú ýmislegt fleira, sem jeg hefi við þetta frv. að athuga og meðferð þess. — Jeg hefi áður talað um þann ókost við það, að ekki væru jafnhliða gerðar neinar ráðstafanir til þess að aftra okursölu á þeim vörum sömu tegundar og verðtollsvörurnar, sem fyrir væru í landinu, er tollurinn væri á lagður. Hæstv. fjrh. svaraði þá á þann hátt, að þeir góðu kaupmenn myndu jafna þetta þannig, að setja meðalverð á hvorartveggja, hækka nokkuð eldri birgðir, en selja vægu verði þær nýju, sem tollur lendi á. Það má vel vera, að þeir góðu kaupmenn geri þetta, en þá er eftir að vita, hve þessir góðu kaupmenn eru margir og hver ráð verða með hina. Jeg hefi þegar frjett um geipilega verðhækkun hjer í bænum síðan reglugerð stjórnarinnar var gefin út, og er sú hækkun þó tæplega afleiðing af neinni samsvarandi hækkun vegna verðtolls, þar sem verðtollslögin eru enn í smíðum. Hæstv. fjrh. kvað kaupmönnum þá heldur ekki myndi vera of gott að græða á þessum eldri birgðum, því að þeir myndu síðar verða fyrir skakkafalli, þegar þessi lög yrðu feld úr gildi og vörur lækkuðu í verði. Jeg tel ekki miklar líkur til þess, að kaupmenn birgi sig svo með torseldum vörum rjett áður en lögin falla úr gildi, að það komi þeim að tjóni. Er hitt hægur vandi fyrir þá, að reikna út, hve mikið þeir þurfa fyrir þann tíma, sem lögin standa, og draga svo inn seglin í lok tímabilsins. — Nei, sú verðhækkun, sem lögð er á þessar eldri vörur, er hreinn gróði í vasa kaupmannsins, án þess að nokkuð tilsvarandi skakkafall komi til jafnvægis. En hitt get jeg vel skilið, að hæstv. fjrh. vilji svo vera láta, því að með þessu og verðtollinum, án varna gegn okursölu, er skaraður eldur að köku hans höfuðstuðningsmanna og skjólstæðinga, Reykjavíkurkaupmannanna.

Hæstv. fjrh. vildi halda því fram, að ekki þyrfti að óttast nein tollsvik, ef verðtollsfrv. yrði eitt afgreitt, en bannvara mundi verða tollsvikin til landsins. Þetta væri vegna þess, að almenningsálitið fordæmdi hrein tollsvik, þótt það sæi í gegnum fingur við þá, sem flyttu inn bannaðar vörur.

Jeg verð að játa það, að mjer þótti þetta nokkuð kringileg röksemd og fullbrosleg til þess að koma úr þessari átt. Jeg hefi satt að segja aldrei heyrt þess getið, að þeir, sem tollsvikju vörur, beri slík mál fyrst undir almenningsálit og leiti þar samþykkis.

Jeg nenni annars ekki að elta ólar um þetta meira við hæstv. fjrh. Jeg vil aðeins, áður en jeg hætti, geta þess, að jeg mun greiða atkvæði með þessu frv. til 3. umr., í þeirri trú, að áður meðferð þess lýkur verði tekin ákvörðun um haftafrv. Sú trú mín er bygð á þeirri yfirlýsingu, sem báðir hæstv. ráðherrar hafa gefið um það, að þeir vilji fylgja höftunum eins langt og ríkissjóður þoli. Þetta er að vísu nokkuð loðin yfirlýsing, og hefði jeg heldur kosið, að hún hefði verið á þá leið, að fylgi hefði verið heitið að ákveðnu marki, t. d. höftum, sem næmu 5–6 milj. kr. En þótt þessi yfirlýsing sje óákveðin, þá gefur hún samt til kynna, að hæstv. ráðherrar sjeu ekki með öllu andvígir haftaleiðinni. Var þess líka að vænta, að jafnvitrir menn myndu sjá, að eigi tjáir að setja sig eindregið á móti því, sem rödd fólksins hrópar svo hátt um, því að ekki væri ólíklegt, að tómlæti hæstv. ráðherra um óskir fólksins kæmi þeim ella í koll við næstu kosningar. Þegar jeg nú lýsi yfir því, að jeg muni greiða atkv. með frv. til 3. umr., þá er það með það fyrir augum, að vel rætist úr þessu fyrirheiti hæstv. stjórnar, þótt það sje ekki sem ljósast. — Annars endurtek jeg það, að þessi yfirlýsing er mjög óákveðin. Með henni er sagt, að hæstv. ráðherrar ætli sjer sjálfir að ákveða eftir eigin geðþótta, hvenær og hve mikið skuli banna og hvenær of nærri sje gengið ríkissjóðnum með höftunum. En það kynnu nú að vera einhverjir fleiri, sem einhvern þátt vildu eiga í þessum ákvörðunum eða athuga þær eftir á.

Jeg skal þó að lokum taka það fram, að jeg hefi með þessu alls ekki tekið neitt fram um það, hvort samverkamenn mínir í nefndinni vilja fylgja frv. með þessum skilningi á yfirlýsingu hæstv. ráðherra. Jeg tel það þó líklegast. Sje það ekki, þá munu þeir koma fram með sínar athugasemdir.