24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

1. mál, fjárlög 1925

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Það er eðlilegt, að till. fjvn. veki nú, ekki síður en endranær, meiri athygli utan þings og innan en flestar aðrar till., sem bornar eru fram á þinginu. Hefi jeg líka rekið mig á það nú síðan till. nefndarinnar voru lagðar fyrir hv. deild, að skoðanir manna á starfi nefndarinnar eru mjög mismunandi. Þykir mörgum sem nefndin hafi aldrei fyr verið svo smámunaleg og heimsk, og munu ýmsir liggja henni á hálsi fyrir þetta. — Jeg tel því ekki úr vegi nú að byrja framsögu mína með því að skýra í fám orðum frá ástæðum ríkissjóðsins og möguleikunum til þess að gera fjárlögin bæði rjetta mynd og tekjuhallalaus, svo menn fái sjeð, hvernig nefndin var sett og að hún hlaut að skoða það sem sína fyrstu skyldu að sjá ríkissjóðnum farborða.

Eins og menn vita, þá nam tekjuhallinn fyrir árið 1923 1½ miljón króna. Bar ríkisstjórnin því fram tollhækkunarfrv. í byrjun þingsins í því skyni að jafna tekjuhallann. En fjhn. komst brátt að þeirri niðurstöðu að sú tollhækkun myndi eigi nægja til þessa, og kom hún því fram með annað frv. í þessu skyni, verðtollsfrv. En jeg geri ráð fyrir, að þótt þeir tollar, sem þessi frv. gera ráð fyrir, standi til ársloka 1925, þá gerum við ekki betur en með þeim að komast yfir árið 1923. Höfum við þá samt sem áður ekkert upp á að hlaupa fyrir þetta yfirstandandi ár. Ef gert er ráð fyrir, að mikið af þessum tollaukum, sem inn kæmu á árinu 1925, gengju til þess að dekka árið 1924, þá er sýnilegt, að lítið má byggja á þeim fyrir árið 1925, sem fjárlagafrv. tekur yfir.

Frá fjárlagafrv. stjórnarinnar var nú svo gengið, að reikningslega var þar um ½ milj. króna tekjuafgangur. Fjvn. skilar því frá sjer með 100 þúsund króna tekjuhalla. Stafar þetta þó ekki af því að nefndin hafi sýnt meiri bruðlunarsemi en stjórnin, því mismunur þessi stafar af gætilegri tekjuáætlun nefndarinnar og reikningslegum hækkunartill. á sumum gjaldaliðunum. Eins og sjest á nefndarálitinu hefir nefndin hækkað þessa lögboðnu gjaldaliði um ….. 310 þús.

Aðra liði og bætt við nýjum ............ 170 —

Lækkað tekjuhliðina ........................ 275 —

Þetta gerir samtals 755 þús.

Upp í þetta hefir nefndin lækkað ýmsa útgjaldaliði um .. 160 —

Er þá mismunurinn 595 þús. sem gerir, að frádregnum tekjuafganginum á frv., tæpra 100 þús. kr. halla. Enn má geta þess, að öll kurl eru þó ekki komin til grafar. Þannig hefir nefndin enn ekki tekið ákvörðun um suma liði frv., er stórkostlega þarf að hækka. Má þar nefna útgjöldin til berklavarna, er stjórnin hefir áætlað 100 þús. kr., en verða áreiðanlega eftir undanfarinni reynslu upp undir 360 þús. kr. Stjórnin hafði haft á orði að leggja frv. fyrir þingið um þetta efni, þar sem lagt yrði til að dreifa þessum kostnaði af ríkissjóði yfir á hjeruð, sveitir og einstaklinga, en þar sem frv. þetta er ekki komið fram, og því litlar líkur fyrir að það gangi í gegn, má búast við 200 þús. kr. hækkun á þessum lið. Þá er víst, að dýrtíðaruppbótin fyrir árið 1925 verður hærri en nú. Hve miklu það munar, er ekki gott að segja. Hækki hún um 10%, nemur það um 150 þúsund krónum, og hækki hún um 20%, þá 300 þúsund. Þá hefir landssímastjóri lagt til, að 100 þús. kr. verði veittar til þess að fullkomna loftskeytastöðina hjer áður en nýir samningar byrja við Stóra norræna á árinu 1926. Telur hann þetta óumflýjanlegt öryggi til þess að ná betri samningum, og hefir stjórnin fallist á, að svo myndi vera.

Þetta verður þá samandregið:

Til berklaveikisvarna, hækkun… 200 þús.

Hækkun dýrtíðaruppbótar um... 200 —

Til loftskeytastöðvarinnar ........ 100 —

eða samtals um 500 þús.

Þetta er þá orðið, með þeim 100 þús. kr. halla á frv. eftir tillögum nefndarinnar, sem jeg áður nefndi, um 600 þús. kr. Og geri maður svo ráð fyrir, að samþyktar yrðu breytingartillögur frá hv. þm., sem fram eru komnar og nema að hækkunum kringum 200 þús. kr., þá er tekjuhallinn orðinn 800 þús. kr.

Nú er spurningin, hvar eigum við að taka fje til að jafna þennan halla. Er það hægt á fjárlagafrv.? Til þess að ganga úr skugga um það, skal jeg nú sýna fram á, að þó við tökum út hverja einustu ólögbundna greiðslu, þá fáum við ekki upp í þetta. Og byrja jeg þá á 7. gr.

Greiðslur af lánum ríkissjóðs eru um 2 milj., eða meira en fjórðungur af tekjunum. Allir munu sammála um, að af þessum lið verði ekki tekið. Þá er alþingiskostnaður, konungsfje, til ráðuneytisins, ríkisfjehirðis, hagstofunnar og utanríkismála o. fl., aftur að 11. gr., sem er samtals tæp ½ milj. kr. Úr þessum kostnaði er hvergi hægt að draga nema leggja niður hagstofuna, og vinnast við það 23 þús. kr., sem er ólögbundið, og auk þess nokkuð við niðurlagning sendiherraembættisins, sem þegar er tekið til greina.

Til dómgæslu og lögreglustjórnar í 11. gr. er alt lögbundið, um ½ milj. Heilbrigðismálin í 12. gr., 678 þús. kr., eru líka lögbundin, og erum við þá komnir að 13. gr., samgöngumálunum. Af þessari grein hafa verið skornar niður af stjórninni allar framkvæmdir, hversu nauðsynlegar sem þær voru, aðeins gert ráð fyrir viðhaldi á því, sem gert hefir verið, og af skornum skamti þó. Má segja, að þegar svona langt er gengið, eigi enginn útgjaldaliður í fjárlögunum rjett á sjer, því að hjer hefir verið skorið á sjálfa lífæðina.

Næst er 14. gr., kirkju- og kenslumál. Hefir nefndin gert þar nokkuð að til lækkunar við skólana, og verður naumast lengra gengið, ef það fyrirkomulag á að halda sjer, sem nú er. En með breytingu á því mætti spara verulega á þessum lið, sem jeg skal koma að síðar. Í 15. gr., listir og vísindi, er ólögbundið um 135 þús. af 211 þús.

Þá er komið að 16. gr., til verklegra framkvæmda; nemur hún 439 þús. kr. Með því að skera þar niður hvern einasta eyri til framkvæmda má fella þar niður um 410 þús. kr., því að annað í þessari grein er lögbundið. Af 18. gr. má taka alt ólögbundið eftirlauna- og styrktarfje, sem með dýrtíðaruppbót nemur um 60 þús. kr.

Þegar jeg nú dreg þetta saman af allri gjaldahliðinni, sem ekki er lögskipað að greiða, þá verður það:

1. Á Hagstofunni kr. 23 þús.

2. — 15. gr., listir og vísindi ..... —135 —

3. — 16. gr., verklegar framkv... — 410 —

4. — 18. gr., eftirlaun og styrktarfje — 60 —

Samtals kr. 628 þús.

Þess er nú að gæta, að af þessum kr. 628 þús. hefir nefndin þegar tekið í sínum lækkunum 160 þús. kr. Það eru því ekki eftir nema 468 þús., sem hægt er að lækka um, og vegur það ekki á móti þeim 800 þús. kr. halla, sem jeg áður gat um. Mismuninn, um 330 þús., er hvergi hægt að taka á frv. að óbreyttu því skipulagi, sem nú er á skólum landsins. Og kem jeg þá aftur að 14. gr. Ef ekki á að afgreiða fjárlögin með tekjuhalla eða stórþyngja enn skatta á þjóðinni, sýnist ekki annað ráð fyrir hendi en að fresta öllu skólahaldi í landinu. Með frestun á skólunum ynnust um 580 þús. kr. í sambandi við þetta er það vel athugandi, sem líka kom til tals í nefndinni, að með því að taka aðeins einn lið í þessum skólamálum, barnafræðsluna, og fresta henni, sparast um 270 þús. kr. Þessi stóra upphæð liggur í því, að svo er ákveðið í lögum um laun barnakennara, að verði önnur skipun gerð á þessum málum, sem geri kennarana óþarfa, falla niður laun þeirra með uppsagnarfresti. Með þessu væri við það hægt að rjetta tekjuhallann, þar sem vænta má, að allar till. hv. þm. til aukinna útgjalda verði ekki samþyktar. Verð jeg að líta svo á, að þetta beri vel að athuga, og ekki get jeg talið það beinan þjóðarskaða, þótt þessum málum væri frestað um sinn.

Þegar nefndin hafði athugað þetta, eins og jeg nú hefi frá skýrt, var henni líkt farið og ferðamanni, sem kemur að stórfljóti, sem er alófært yfirferðar nema á ís, en hefir þá rutt sig til sjávar. Byltingar undanfarinna ára hafa brotið allar brýr af leið okkar og tefja og teppa alt áframhald. En eins og kuldi náttúrunnar brúar torfærurnar með klaka, eins mun köld og róleg skynsemi best fleyta okkur yfir þessa farartálma. Og þá mun sparsemi og gætni, þó í smáu sje, eiga sinn stóra þátt þar í. Og ef menn ennfremur athuga það, að verði haldið áfram á þeirri braut, sem undanfarið hefir verið farin, að fá árlega miljóna króna tekjuhalla, þá er skamt til stórra tíðinda. Hjer verður því að stöðva, en það er óhugsandi að gera það nema með föstum og ákveðnum tökum, og má þá ekki komast hjá því, að ýmsum líki ver og sjerstaklega þeim, sem hafa haft þann aðaltilgang að komast sem dýpst í landssjóðinn. Að taka ný lán, til þess að rjetta við fjárhag ríkissjóðs, virtist allri nefndinni óforsvaranleg leið og að líkindum ófær.

Jeg hefi viljað sýna hv. þingdm. fram á, hvílíkt alvörumál hjer er um að ræða, áður en til atkvæða kæmi, en auðvitað verður svo hver og einn að gera það upp með sjálfum sjer, til hverra bjargráða eigi að grípa.

Jeg ætla svo ekki að hafa lengri formála eða fara lengra út í það að sýna fram á, hvernig ástandinu er varið, en ekki verður það hrakið, að taka verður til örþrifaráða til þess að komast yfir alla þröskuldana.

Jeg skal svo fara fám orðum um brtt. nefndarinnar. Þær eru margar, og hefir það í sjálfu sjer ekki mikla þýðingu að fara rækilega út í hverja brtt., því margar þeirra eru svo vaxnar, að þær leiða hver af annari.

Í fyrsta lagi er tekjubálkurinn.

Nefndin hefir þar með fyrstu brtt. lagt það til, að aukatekjurnar væru lækkaðar úr 300 þús. kr. niður í 280 þús. kr. Ástæður nefndarinnar fyrir þessari lækkun eru teknar fram í nál. og eru sjerstaklega þessar, að nefndin telur öldungis víst, að viðskiftin muni fara þverrandi og þar af leiðandi muni falla niður ýmsar aukatekjur, sem verða af miklum viðskiftum. Sýnist það algerlega víst, að aukatekjurnar muni ekki geta náð því, sem stjórnin hefir áætlað þær, enda hafa þær 1923 farið niður í 296 þús. kr. Og því hefir þetta verið lækkað, að nefndin hefir skoðað varlega tekjuáætlun fyrsta og síðasta skilyrðið fyrir sæmilegri útkomu fjárlaganna.

Í öðru lagi er sú brtt. nefndarinnar, að hækka áfengistollinn úr 350 þús. kr. upp í 375 þús. kr. Þessi breyting sýnist vera varleg, með tilliti til þess, að 1923 kemst hann upp í 472 þús. kr. Eins og menn muna, kom og fram á síðasta þingi frv. frá fjvn. þess efnis að hækka áfengistollinn, en var tekið aftur í samráði við hæstv. þáv. forsrh. (SE), þar sem hann taldi, að það gæti komið í bág við samninga þá, sem gerðir voru við Spánverja. Í stað þess lofaði stjórnin að hækka verð á vínum þeim, sem seld væru. Það var þó ekki gert, og urðu því tekjurnar af áfengisversluninni minni en búast hefði mátt við, ef svo hefði verið farið að.

Í þriðja lagi hefir nefndin lækkað kaffi- og sykurtollinn um 25 þús. kr. Hefir hann líka farið lækkandi undanfarin ár, t. d. var hann 75 þús. kr. minni 1923 en 1922. Nefndin gerir og ráð fyrir, að ef höftum verður komið á, muni draga úr innflutningi þessara vara sem annara.

Þá er vörutollurinn lækkaður mjög mikið, eða um 250 þús. kr. Nefndin hefir að sjálfsögðu búist við því, að af því að innflutningshöftum verði á komið leiði, að innflutningurinn verði miklu minni en verið hefir, og hefir þess vegna gert þessa brtt., að henni þykir ekki líklegt, að tollurinn nái hinni áætluðu upphæð. Ef borið er saman hvað tollurinn var 1923, þá sjest, að hann var að vísu rúm 1 milj. kr., eða 52 þús. kr. meira, en þrátt fyrir tollaukann, sem nú bætist við hann, býst nefndin ekki við, að sá tollauki vegi á móti því, sem höftin draga úr, og hefir því ekki sjeð annað ráð en að lækka tollinn.

Næst er það, að nefndin hefir lækkað gjald af konfekt- og brjóstsykursgerð um 5 þús. kr. Skiftir það litlu máli, en er fært niður af því að 1923 var það aðeins 16 þús. kr.

Nefndin hefir aftur á móti hækkað tekjurnar af víneinkasölunni upp í 300 þús. kr. Telur hún það ekki óvarlegt, vegna þess, að hún býst við, að horfið verði nú að því ráði, sem drepið var á á síðasta þingi, að hækka verð vínsins, sem selt er.

Þá hefir nefndin enn gert þá brtt. við tekjubálkinn, að lækkaðar sjeu tekjur af bönkum úr 100 þús. kr. niður í 50 þús. kr., enda hefir sá liður aðeins orðið 52 þús. kr. 1923.

Þessar brtt. nefndarinnar við tekjuhliðina nema því, að lækkun liðanna verður 350 þús. kr., en hækkunin 75 þús. kr., eða að tekjuáætlunin er lækkuð alls um 275 þús. kr. Og jeg vil leggja áherslu á það enn sem fyr, að þetta er mest gert af því, að nefndin telur það mestan styrk fjárlaganna, að tekjurnar sjeu varlega reiknaðar, svo að gjaldaliðirnir verði aldrei spentir meira upp en hófi gegnir. Og væntir nefndin, að hv. þd. standi með sjer að þessu máli.

Þá kemur næst gjaldabálkurinn.

Fyrsta brtt. nefndarinnar við hann er við 7. gr. og fer fram á að hækka vexti af innlendum lánum um 100 þús. kr. Þetta er fram komið af því, að þegar nefndin kynti sjer skuldir ríkissjóðs við Landsbankann, þá komst hún að því, að talsvert af skuldunum er ekki fært á skuldalista stjórnarinnar, eða fullar 2 milj. kr. Ekki er nefndinni kunnugt um hvort fjárhæð þessi er samningsbundin, en telur, að svo sje ekki. Er ekki búist við, að mikið verði greitt af skuldinni, en þó gerir nefndin ráð fyrir, að eitthvað kunni að greiðast, og er því ekki farið fram á meiri hækkun en svarar til 7% af tæplega 1½ milj. kr. En sú hækkun virðist óumflýjanleg.

Þá er næst brtt. við 10. gr., viðvíkjandi sendiherra vorum í Kaupmannahöfn. Eins og kunnugt er, hefir núverandi sendiherra lagt niður embættið og eins er hjer á ferðinni í þinginu frv. um, að ekki sje að sinni skipaður maður í hans stafi. Af því að nefndin telur, að greinilegur þingvilji sje með þessu frv., hefir hún gert þessa brtt., að feld sjeu niður laun sendiherra, risnufje og húsaleiga. Aftur leggur hún til, að skrifstofukostnaðurinn sje hækkaður um 3 þús. kr. Jeg skal engan veginn halda því fram, að sú upphæð kunni að vera hæfilega áætluð, því gert er ráð fyrir, að í þeim lið sjeu falin laun þess manns, sem stjórnin kann að fela sendiherrastörfin, þegar henni þykir þörf til þess. Og eftir nánari upplýsingum, sem jeg hefi fengið, þykir mjer vel hugsanlegt, að þessi liður þyki enn helsti lágt reiknaður. Jeg get og getið þess, að samkvæmt landsreikningunum hefir skrifstofukostnaðurinn farið yfir 19 þús. kr., og þó að jeg miði ekki sjerstaklega við það, getur það þó ef til vill gefið til kynna, að nauðsynlegt sje að hækka þetta. Því þó það yrði að einhverju leyti, spöruðum við mikið í þessu máli frá því sem verið hefir.

Þá eru næst brtt. við 11. gr. Eru þar fyrst brtt. viðvíkjandi hæstarjetti, ýmsum gjöldum bæjarfógetans í Reykjavík og lögreglustjórans, svo og um 1500 kr. lækkun á húsaleigu lögreglustjóra. Breytingin á hinum þremur liðunum er aðeins fólgin í því að setja „alt að“ við upphæðirnar, svo að girt sje fyrir, að yfir þær verði farið.

Næsta brtt. nefndarinnar er við sömu grein, sú að hækka brunaábyrgðar- og sótaragjald um 10 þús. kr. Virðist þessi hækkun óhjákvæmileg, þar sem kostnaðurinn hefir farið yfir 22 þús. kr. 1922, og gjöld þessi fara enn hækkandi, og eru sjerstaklega líkur til þess um ábyrgðargjöldin, að svo fari.

Síðasta brtt. nefndarinnar við 11. gr. er um landhelgisgæsluna; hefir upphæðin verið hækkuð um 30 þús. kr. Nefndinni barst erindi frá hv. sjútvn., þar sem farið var fram á að hækka þennan lið upp í 145 þús. kr. Dylst nefndinni ekki, að hjer er um mikilsvert mál að ræða, og telur nauðsynlegt, að lagt sje til þess alt, sem hægt er, en svo hátt vildi nefndin þó ekki fara. Enda virðist hv. sjútvn. hafa verið á svipaðri skoðun, því hún leggur til, að nokkuð af fjenu sje tekið úr landhelgissjóði. Á það gat nefndin ekki fallist að svo stöddu, þar sem landhelgissjóðurinn er bundinn með sjerstökum lögum, og eins hitt, að mikið af honum er runnið í ríkissjóð og orðið að eyðslufje. Virtist nefndinni því, eins og fjárhagnum er komið, ekki gerlegt að hækka lið þennan nema upp í 80 þús. kr.

Þá eru brtt. við 12. gr. Er það fyrst að lækka skrifstofukostnað landlæknis úr 2 þús. kr. niður í 1500 kr. Er það gert í samræmi við þá skoðun, að klípa verði af hverjum útgjöldum, sem hægt er. En síðan nefndin gekk frá þessu, hefi jeg fengið nokkrar upplýsingar í málinu. Jeg skal samt strax geta þess, að jeg hefi ekki haft tækifæri til að skýra nefndinni frá þeim, og hefir hún því, eins og aðrir hv. þdm., óbundnar hendur í því efni, hvort hún vill hverfa frá þessari brtt. vegna þessara upplýsinga.

Mjer hefir verið skýrt svo frá, að landlæknir hafi fastan mann í skrifstofu sinni, sem vinni þar 6 klst. daglega. Hefir maður þessi lægri laun en nokkur annar í samskonar stöðu, eða 1200 kr. Þær 800 kr., sem eftir eru, tekur landlæknir fyrir húsaleigu, ljós og hita, sem hann sjálfur leggur til. Nú hefir landlæknir fengið tilboð í húspláss þetta, um að leigja það fyrir 1500 kr. Hefir hann því tekið það fram, enda liggur það beint við, að verði skrifstofukostnaðurinn lækkaður, muni hann taka þessu tilboði, sem honum er miklu hagfeldara, og heimta sjer útlagt pláss annarsstaðar fyrir skrifstofu. Jeg vil ekkert segja um þetta, annað en frá mínu sjónarmiði yrði þetta landinu dýrara, en annars ráða menn sjálfir atkvæði sínu um þennan lið.

Næst er brtt. um læknisvitjanastyrkinn. Nefndin leggur til, að stjórnin jafni niður styrk þessum eftir svipuðum hlutföllum og verið hefir. Lítur nefndin svo á, að stjórnin standi betur að vígi í því efni en þingið eða fjvn. Getur, eins og oft vill verða í þeim málum, komið fram karp, þegar um líkar ástæður er að ræða. En það vill nefndin taka fram, að hún ætlast til þess, að ekki verði farið fram úr áætlunarupphæðinni. Jeg get í þessu sambandi minst á brtt. frá hv. 1. þm. N.-M. (H- Stef) og fleirum, um sjerstakan styrk til læknis í Jökuldals, Hlíðar-, Tungu-, Hjaltastaðar- og Eiðahreppum. Nefndin hefir ætlast til, að sá styrkur fælist í þessari upphæð, ef læknir fengist þangað, þó vitanlega geti svo farið, að hann verði lægri en áður var áætlað, því hann verður að vera, eins og allir aðrir styrkir, í hlutfalli við aðalupphæðina.

Þá er hjer næst brtt. um niðurfærslu á launum aðstoðarlæknisins á Ísafirði. Eins og tekið er fram í nál., telur nefndin ekki að ríkissjóði beri skylda til að greiða honum meira en 800 kr. með dýrtíðaruppbót. En þar sem laun hans hafa verið hækkuð undanfarið, með tilliti til launabóta annara lækna, virðist nefndinni ekki rjett að lækka við hann meira en um 500 kr. að sinni.

Þóknanir til lækna, sem kenna við háskólann hjer, augnlæknis, tannlæknis og háls- og eyrnalæknis, hefir nefndin fært úr 1200 kr. niður í 1000 kr. Sömuleiðis ferðastyrk augnlæknis um 200 kr. Um bindandi samninga við menn þessa er nefndinni ekki kunnugt, en upphæðir þessar hafa undanfarið verið mjög á reiki, og taldi nefndin því fært að klípa af þeim eins og öðrum.

Þá hefir nefndin næst hækkað starfslaun við spítalann á Kleppi um 2 þús. kr. Að vísu komu fram ýmsar svipaðar kröfur, sem nefndin sá sjer ekki fært að verða við, en samkvæmt upplýsingum og skýrslu geðveikralæknisins taldi hún þessa hækkun óhjákvæmilega.

Þá eru næst tveir nýir liðir, sem nefndin leggur til, um styrk til byggingar sjúkraskýla og læknisbústaða í Grímsneshjeraði og Borgarfjarðarhjeraði. Sams konar erindi bárust frá mörgum öðrum hjeruðum og var úr vöndu að ráða fyrir nefndina, hverju sinna skyldi. Kom það jafnvel til umtals, að neita bæri öllu, eins og fjárhagurinn væri. Virtist það samt varla gerlegt, og varð þá ofan á að leggja þetta til, af þeim ástæðum, að í þessum tveim hjeruðum virtust málin lengst komin og best undirbúin. Þannig er búið að setja á stofn læknisbústað í Grímsneshjeraði. Síðasta þingi barst beiðni um, að sjerstakur styrkur yrði veittur til hans. En þá leit deildin svo á, að hjeraðið hefði komist að svo góðum kaupum á Geysishúsinu, sem það hafði keypt í þessum tilgangi, að eigi væri ástæða til að sinna beiðni þessari, og var því till., sem fór fram á 3 þús. kr. styrk til læknisbústaðarins, feld. Nefndin vill engan dóm leggja á það, hve hagfeld kaup þessi hafi verið. Til þess þarf alveg sjerstaka rannsókn. Eitthvað hefir hún samt viljað gera í málinu, og hefir því komið sjer saman um styrk til þessarar stofnunar, en þó eigi hærri styrk en hv. þm. kjördæmisins fór fram á í fyrra. Þótt þingið þá feldi þessa beiðni, þótti nefndinni sanngjarnt að taka hana til greina á þann hátt, sem hún hefir gert.

Þá vík jeg næst að beiðni, sem komið hefir frá Borgfirðingum um styrk til læknisbústaðar og sjúkraskýlis. Málið er þar í besta lagi á veg komið; jörð hefir verið útveguð til læknisseturs og nægilegt fje er fyrir hendi af hjeraðsins hálfu. Ekkert er til fyrirstöðu, að hafist verði handa þar. Þar stóð líka svo á, að núverandi læknir hafði, er hann tók við hjeraðinu, fengið loforð um sjúkraskýli og læknisbústað. Mundu hjeraðsbúar því hafa mist hann, ef þessu fengist ekki framgengt, og því sameinuðu þeir sig og lögðu fram fje til þessa. Auk þess má geta þess, að þessi styrkur verður ekki útborgaður úr ríkissjóði fyr en 1925, og munu þá hjeraðsbúar búnir að byggja og leggja alt til í bráðina. Nefndin hefir því viljað leggja til, að þessari beiðni yrði sint af framantöldum ástæðum.

Þá kom og beiðni, er gekk í sömu átt, frá Flateyjarhjeraði. Þar stendur svo sjerstaklega á, að þar er læknislaust og ekki líkur til, að læknir fáist þangað, en læknisvitjun út á við hinsvegar svo dýr (um 200 kr.), að efnaminna fólk fær eigi risið undir slíku. Var því margt, sem mælti með þessari styrkbeiðni, en málið var hinsvegar svo lítið undirbúið, að nefndin sá sjer ekki fært að sinna því nú, einkum þar sem ekki varð sjeð, að hjeraðsbúar hefðu fje fyrir hendi til að leggja fram á móti. Gat því alt lent í strandi, þótt veittur hefði verið styrkur úr ríkissjóði. Nefndin telur það líka jafnan fyrsta skilyrðið fyrir slíkum fjárveitingum úr ríkissjóði, að trygging sje fyrir nægu fje af hjeraðanna hálfu. Fleiri slíkar beiðnir bárust, er margt mælti óneitanlega með, en voru of lítt undirbúnar víðast. Eitt af því, sem nefndinni gekk til að taka þær beiðnir til greina, er fyr var getið, var það, að ella hefði getað safnast fyrir of þungur baggi á ríkissjóð síðar meir, er átt hefði að fullnægja öllum þessum beiðnum. Annars verða víst nóg tækifæri að ræða þetta síðar, þótt jeg kunni að hafa einhverju gleymt nú. Jeg vildi aðeins taka fram ástæður nefndarinnar fyrir því, hvers vegna hún tók þessar tvær beiðnir fram yfir hinar.

Næsta brtt. nefndarinnar víkur að sóttvörnum. Vill nefndin þar hækka fjárveitinguna úr 4. þús. kr., sem stjórnin áætlar, upp í 15 þús. kr. Það virðist ekki geta komið til mála, að hægt sje að komast af með svo lítið fje í þessu skyni, sem stjórnin ætlar. Þessi liður komst árið 1920 upp í 55 þús. kr. Þá stóð að vísu nokkuð sjerstaklega á, en árið eftir nam hann þó 19 þús. kr. og árið 1922 17500 kr. Þetta mun því síst of hátt áætlað hjá nefndinni. Sama er að segja um næsta lið, um varnir gegn því, að næmir sjúkdómar berist til landsins, sem nefndin vill hækka úr 1 þús. kr. upp í 4 þús. kr. Þessi liður hefir verið nokkuð mismunandi undanfarin ár, en árin 1918–20 var hann þó til jafnaðar um 20 þús. kr. á ári. Það er því í fylsta máta rjettmætt að hækka hann, en nefndin hefir þó ekki viljað fara lengra. Sama er að segja um gjöld samkvæmt fátækralögum, sem nefndin leggur til að hækka um 10 þús. kr. Þessi liður varð síðasta ár 82000 kr., og má búast við, að hann verði nú hærri. Nefndin hefir yfirleitt ekki viljað, að útgjöldin væru langt fyrir neðan það, sem áætlað er, heldur sem næst veruleikanum.

Þá kem jeg að næstu brtt. við 12. gr., um lækkun á styrk til Líknar. Samkvæmt tilmælum, sem nefndin hefir fengið, vil jeg leyfa mjer að taka hana út til 3. umr.

Næsta brtt. er um að fella niður styrk til yfirsetukvenna. Nefndin var sammála um, að fræðsla í þessu efni væri komin svo langt áleiðis hjerlendis nú orðið, að ekki væri ástæða til að veita styrki þessa, og það því fremur, sem nefndin leggur til að afnema alla utanfararstyrki. Af sömu ástæðum hefir nefndin komið sjer saman um að fella niður utanfararstyrki til hjúkrunarkvenna.

Fyrsta brtt. við 13. gr. er um að hækka fjárveitinguna til póstmálanna um 6 þús. kr. Auðvitað var miklu víðar ágreiningur milli póstmeistara og stjórnarinnar, en um smávægileg atriði, sem nefndin slepti; en framhjá þessum lið gat nefndin ekki gengið. Póstmeistari sýndi fram á nauðsyn þessarar hækkunar með nákvæmlega sundurliðuðum reikningi, og þingið veit, að póstmeistari er ekki heimtufrekari en þörf krefst. Nú stendur líka svo sjerstaklega á, að í ráði er, að haldinn verði alþjóðlegur póstmálafundur á næsta ári. Jafnvel þótt enginn maður verði sendur hjeðan á þennan fund, hlýtur þó töluverður kostnaður að leiða af honum fyrir ríkið (eyðublöð o. þ. h.). Nefndinni þótti því sjálfsagt að hækka þennan lið, þar sem póstmeistari áleit, að talsvert af þessum kostnaði hlyti að lenda á árinu 1925.

Næsta brtt. fer fram á að lækka um 3 þús. kr. kostnað við aðstoð vegamálastjóra. Nefndin gerði sjer far um við vegamálastjóra að lækka sem mest þennan lið, þar sem um engar framkvæmdir í þessum efnum er að ræða, og vill sömuleiðis lækka skrifstofukostnað vegamálastjóra um 1500 kr. Mönnum þykir kannske einkennilegt, að ekki sje hægt að lækka þennan kostnað meira, er framkvæmdir allar falla niður, en nefndin felst á röksemdir vegamálastjóra fyrir því, að frekari lækkun geti ekki átt sjer stað, því til eftirlits með viðhaldi er óumflýjanlegt að hafa aðstoðarmann. Nefndin hefir fallist á, af sömu ástæðum, að ekki sje varið meira fje til áhaldakaupa en stjórnin leggur til.

Þá vík jeg að styrk þeim, er síðasta þing veitti til að halda uppi bifreiðaferðum austur um sveitir, en feldur var niður af stjórninni. Nú hefir komið fram samskonar beiðni aftur. Nefndin veit, að styrkur þessi hefir allmikla þýðingu fyrir þessi hjeruð, en er þó til mests hagnaðar fyrir þá einstöku menn eða þann mann, er nýtur hans, því aðrir setja auðvitað niður fargjöld þessar leiðir eins og sá, sem samið er við. En auðvitað hefir hann líka þá skyldu að halda uppi reglubundnum ferðum um leið og hann nýtur hlunnindanna. Nefndin hefir því viljað verða við þessu, en með því skilyrði, að styrkurinn sje aðeins bundinn við ferðir haust og vor. Ferðir um sumartímann munu hinsvegar frekar vera til gamans en gagns. (MJ: Hvað er styrkurinn hár!). Það er satt, að fallið hefir úr brtt. upphæðin, en hún mun vera 1000 kr.

Þá kemur næst brtt. nefndarinnar um strandferðirnar. Fjvn. hefir ekki fengið álit samgmn. um þau atriði, er undir hana heyra, bátastyrkina, og geri jeg það því ekki að umtalsefni. Við liðinn til strandferða hefir nefndin bætt við „til Esju“, af því ekki er um annað skip að ræða. Ennfremur leggur nefndin til að veittar sjeu 45 þús. kr. til Eimskipafjelags Íslands, og er það nýr liður til strandferða. Ástæður fjel. eru teknar fram í nál., sem sje þær, að fjelagið getur ekki kept við þau útlendu skipafjelög, er halda uppi siglingum hjer við land einungis í gróðaskyni, en skeyta ekkert um hinar smærri og afskektari hafnir. Í öðru lagi á það mjög erfitt með afborganir og vexti af hollenska láninu vegna gengismunar. Síðasta greiðsla á því á að fara fram 1927. Fleiri málaleitanir, sem hafa komið fram frá fjelaginu, sýna, að þörf sje á að styrkja það, og nefndinni er það ljóst, að kostnaður fjelagsins við strandferðirnar er mjög mikill, en hinsvegar brýn þörf á að halda þeim uppi, og hefir hún því komið fram með þessa brtt. Jeg skal geta þess, að samgmn. beggja deilda hafa mælt eindregið með þessum styrk, og að því leyti hefir fjvn. fengið vitneskju frá hv. samgmn., en alls ekki um önnur atriði.

Næstu brtt. nefndarinnar eru viðvíkjandi símakerfinu. 1. brtt. er um að hækka fjárveitinguna til viðauka símakerfisins úr 20 þús. kr. upp í 25 þús. kr. Eftir upplýsingum frá landssímastjóra taldi nefndin rjett að mæla með þessari 5 þús. króna hækkun. 2. brtt. er um hækkun á launum símamanna úr 273150 kr. upp í 300 þús. kr. Þar sem hjer er að ræða um launahækkun, og hana allmikla, þykir mjer hlýða að gera nánari grein fyrir þessari brtt., einkum þar sem þetta hafði verið allmikið ágreiningsatriði milli landssímastjóra og stjórnarinnar.

Frá till. landssímastjóra hafði stjórnin dregið 24600 kr., og þó öllu heldur 31200 kr., er hún taldi ekki nauðsynlegar greiðslur. Frádráttinn á 24600 kr. byggir stjórnin á því, að hún telur upp ýmsa starfsmenn við símann, sem hún telur ónauðsynlega. Nefndin gerði sjer alt far um að kynna sjer þetta, svo að áætlunin gæti orðið sem næst sanni. Fann hún, að í þessum 24600 kr., sem stjórnin hafði dregið frá, voru laun ýmsra starfsmanna, sem annaðhvort voru komnir í stöður eða óhjákvæmilegt var að skipa. Þannig hafði stjórnin ekki tekið með laun símaverkfræðings, 3500 kr., þar sem enginn var þá í þeirri stöðu, en nú hefir verið skipað í hana. Þá voru dregnir undan tveir símritarar á Seyðisfirði, sem nú eru komnir í þær stöður, og loks var slept einum 1. flokks skrifara og einni varatalsímakonu. Laun þessara starfsmanna nema samtals 18 þús. kr., eða að viðbættri dýrtíðaruppbót þeirri upphæð, sem nefndin leggur til, að áætlunin verði hækkuð um. Nefndin hefir annars ekki tekið afstöðu til ýmsra atriða, sem stjórnina deilir á við landssímastjóra, hvort nauðsynleg sjeu eða ekki. Fylgir hún stjórninni í því, að þau muni ekki vera nauðsynleg, en þessa hækkun taldi hún óumflýjanlega, þar sem menn væru í öllum þessum stöðum og ekki yrði hjá því komist að greiða þeim kaup.

Næsta brtt. er um að hækka fjárveitinguna til bæjarsímans í Reykjavík úr 60 þús. kr. upp í 90 þús. kr. Það þykir sjálfsagt í mikið ráðist að hækka þennan lið um 30 þús. kr., eins og fjárhag ríkisins er komið nú. En þetta er eitt af því fáa, sem gefur ótvíræðar tekjur í aðra hönd. Landssímastjóri telur vafalaust, að fyrir hverjar þúsund kr., sem varið er til aukningar bæjarsímans, aukist tekjurnar um 500 kr., og gefi þetta fje þannig 50% vexti á ári. Auðvitað má segja, að ekki beri brýna nauðsyn til að leggja út í þennan kostnað nú, þar sem hagur ríkissjóðs sje svo þröngur, en nefndin leit þó fremur á hitt, hve miklar tekjur eru hjer í aðra hönd, þar sem þessi viðbót verður greidd að fullu á 2 árum.

Þá leggur nefndin til, að hækkuð sje fjárveitingin til Borðeyrarstöðvarinnar um 5000 kr., bæði vegna þess, að nokkur breyting hefir orðið á launum stöðvarstjórans, þar sem nýr maður er kominn í þá stöðu, en hinn, sem áður var, hafði sjerstakan samning, og svo hafði gleymst í frv. að taka með afborgun og vexti af húseign, sem síminn á þar.

Þá er lagt til að hækka liðinn til eftirlitsstöðva og annara talsímastöðva um 15000 kr., upp í 80000 kr., sem að nokkru leyti er samningsbundið, en stafar að nokkru af fyrirhugaðri aukningu bæjarsímans í Reykjavík.

Loks er stórhækkun á viðhaldi símanna, úr 90000 kr. upp í 110000 kr. Nefndin telur óhjákvæmilegt, að viðhaldið sje í sem allra bestu lagi, og þó að ekki verði veittar nema 90000 kr., kveður landssímastjóri ekki viðlit að komast af með það.

Næsta brtt. er nokkuð á annan veg en ýmsar aðrar, þar sem farið er fram á að hækka skrifstofukostnað vitamálastjóra um 500 kr. Hefir hann sýnt nefndinni fram á það með fullum rökum, að þótt ekki verði reistir nýir vitar á næsta ári, sje svo mikið annríki á skrifstofunni, að þar verði ekki fækkað. Síðastliðið ár var skrifstofukostnaðurinn 4500 kr., og þó að sennilegt sje, að hann fari fram úr 3500 kr. á næsta ári, vildi nefndin samt ekki fara hærra.

Þá leggur nefndin til, að rekstrarfje vitanna verði hækkað um 5000 kr. Átti hún tal við vitamálastjóra, og taldi hann ekki sennilegt, að komist yrði af með minna. Aftur á móti leggur nefndin til, að fjárveiting til sjómerkja verði lækkuð um 3000 kr., og er það gert í samráði við vitamálastjóra.

Jeg hefi nú farið stuttlega yfir brtt. fjvn. aftur fyrir 13. gr. Auk þeirra liggja fyrir allmargar brtt. frá einstökum þm., sem jeg hefi lítið um að segja, fyr en hv. flm. hafa talað fyrir þeim. Þó að venja hafi verið að lýsa afstöðu nefndarinnar til slíkra brtt. strax í framsögu, ætla jeg að geyma það að þessu sinni, þangað til jeg þarf að svara þeim athugasemdum, sem gerðar kunna að verða við tillögur nefndarinnar. Annars hefi jeg ekki meira að segja um þennan kafla af hálfu nefndarinnar. Getur verið, að mjer hafi láðst að taka eitthvað fram, en þess vil jeg þó biðja hv. deild, að hún láti ekki tillögur nefndarinnar gjalda þess, þó að mjer hafi tekist ófimlega framsagan, heldur líti á hitt, að nefndin hefir viljað leggja alla áherslu á að mæla ekki með öðrum hækkunum en þeim, sem hún telur alveg óumflýjanlegar.