25.04.1925
Neðri deild: 64. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1883 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Það hlýtur að sjálfsögðu að vera mjer og hv. þm. Mýra. (PÞ) mikið gleðiefni, að þingið hefir nú horfið að því ráði, sem við bentum á við umræður um ríkisveðbankalögin 1921, að væri eina ráðið til þess að koma á fót lánsstofnun handa landbúnaðinum, sem gœti orðið honum að verulegu liði. Við bentum þá á það, að lánsstofnun fyrir landbúnaðinn væri svo sjerstök, að hún þyrfti að vera algerlega sjerstæð og áháð öðrum lánsstofnunum. í öðru lagi bentum við á það, að það væri óhugsandi, að hægt væri að hafa þau lánskjör, sem telja mætti viðunandi fyrir landbúnaðinn, nema stofnuninni væri þegar í upphafi lagt til talsvert mikið reiðufje. Með frv., sem hjer liggur fyrir, er þessi leið farin, og það er þess vegna vitanlegt og sjálfsagt, að við munum vera því fylgjandi, eins og svo að segja allir hv. þdm. En það er okkur náttúrlega alveg sjerstakt ánægjuefni, að þetta frv. hefir komið fram og að það hefir fengið annað eins fylgi og raun er á orðin.

Jeg skal ekki fara mörgum orðum um brtt., sem hjer liggja fyrir, en jeg vildi aðeins benda á eitt atriði, sem á skortir, til þess að landbúnaðinum í heild sinni verði þetta til eins mikillar eflingar eins og nauðsyn ber til; það er, að ákvæði vantar um það, á hvern hátt leiguliðar geti fengið lán úr sjóðnum. Því eins og nú er ástatt á landi hjer, þá mun það vera um það bil 14 bænda, sem eru leiguliðar. Jeg mintist lauslega á þetta við hæstv. fjrh. (JÞ) á síðastliðnu hausti, þegar hann var að undirbúa þetta mál. Hann taldi mikil vandkvæði á því. Benti jeg honum á eina leið, sem jeg taldi færa, en við nánari athugun sá jeg, að það myndi geta rýrt verðgildi brjefanna og söluskilyrðin að einhverju leyti.

Það var sjerstaklega út af till. hv. 2. þm. Reykv. (JBald), sem jeg vildi segja nokkur orð. Því verður ekki neitað, að mikil þörf er á að hafa tilraunabú, og mundu menn geta lært talsvert af þeim, þar sem ýmsar nýjar aðferðir við ræktun og annað væru viðhafðar og ný verkfæri notuð. En það er ómögulegt að setja slík skilyrði, sem till. háttv. þm. ákveður, inn í þetta frv. Því það má ekki með nokkru móti setja þar inn nein skilyrði, sem haft gœtu þær afleiðingar, að söluverð brjefanna lœkkaði. Nei; það, sem er um að gera, er, að lánin sjeu trygg og vextirnir ekki settir alt of lágir. Með því tiltölulega mikla framlagi, sem sjóðurinn fær þegar í byrjun og síðan smámsaman, er enginn efi á því, að hann getur, þegar fram í sækir, lækkað vextina verulega, án þess að brjefin yrðu óútgengileg.

Af till. hv. 4. þm. Reykv. (MJ) vildi jeg, að samþykt væri ein; það er að fella niður síðustu málsgrein 14. gr., um að lána þess meira úr sjóðnum sem verðfalli brjefanna kynni að nema. Þetta ákvæði frv. er dálítið varasamt; það getur bætt úr fyrir einstökum mönnum á erfiðum tímum, en alment ekki. Og að setja slíka undantekningarreglu, sem getur skaðað álit sjóðsins, en hefir litla þýðingu alment, það álít jeg alveg fráleitt. Jeg vildi því mæla með því, að sú brtt. hv. þm. yrði samþykt; en aðrar breytingar á sama þskj. tel jeg ekki til bóta. Fasteignamatið getur á sumum tímum verið of hátt, því það gildir um 10 ár í einu, og ef verðgildi peninga breytist til batnaðar á sama tíma, getur svo farið, að fasteignamatið verði talsvert of hátt. Eins verður líka þess að gæta, að fasteignamatið getur ekki verið algild regla til að byggja á, vegna þess að sumar eignir geta gengið úr sjer á þeim tíma, sem það gildir, en aðrar stórbatnað og aukist að verðgildi um þúsundir króna, t. d. þar, sem miklar jarða- og húsabætur hafa verið framkvæmdar.