28.04.1925
Neðri deild: 66. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1947 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

20. mál, verðtollur

Frsm. (Magnús Jónsson):

Þetta frv. er búið að vera nokkuð lengi á fyrstu göngu sinni. Það er eitt af stjfrv., sem útbýtt var í þingbyrjun, en kemur nú fyrst á dagskrá til 2. umr. Þar sem sjálfsagt er, að málið verði afgr. í einhverri mynd, teldi jeg æskilegt, að umr. væri nú í hóf stilt. Enda hygg jeg, að óþarft sje að fjölyrða mjög mikið, því að eins og nefndin er sammála um aðalatriði málsins, svo mun og vera um allan þingheim.

Þegar þessi bráðabirgðaverðtollur var settur á þinginu í fyrra, datt engum manni í hug, að hjer væri um neina fyrirmyndartolllöggjöf að ræða, sem standa ætti um aldur og æfi, heldur hnigu öll rök í þá átt, að hjer væri aðeins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, í þeim tilgangi að afla ríkissjóði þeirra tekna, er á vantaði til þess, að enginn tekjuhalli yrði á fjárlögunum það árið. Þessi verðtollur er því óvönduð smíði og aðeins hægt að rjettlæta hann sem fjársöfnunarleið, en ekki sem neina fyrirmyndartollapólitík.

Eitt, sem meðal annars sýnir, hve tollurinn er lítt ætlaður til frambúðar, er það, að hann er algerlega „negativ“, þ. e. talið er upp, hvað falla eigi undan tollinum, en annars er ætlast til, að alt annað, sem finst í ákveðnum flokkum vörutollslaganna, falli undir tollinn. Það, sem gerir því verðtollinn ennþá lakari, er það, að hann er bygður á öðrum óvönduðum lögum, sem sje vörutollslögunum frá 1921. Þar eru, eins og kunnugt er, taldar upp af meira og minna handahófi allskonar vörur og þeim skipað í ákveðna flokka, og seinast er svo einskonar ruslakista, sem í er safnað öllu því, sem eftir var. Þegar svo ákveðið var að leggja á bráðabirgðaverðtoll, þá var þessi ruslakista, eða 7. flokkur vörutollslaganna, tekin með. Þess vegna er auðsætt, hve þessi tollur getur komið ákaflega illa og misjafnt niður. Því var einnig með lögunum í fyrra reynt að kippa undan þessum tolli nokkrum vörum, sem hv. þm. komu helst til hugar, en nærri má geta, hve ófullkomin sú upptalning þeirra varð, þar sem þeir höfðu ekki annað við að styðjast en verslunarskýrslurnar, sem eru ákaflega ófullnægjandi til slíkrar sundurliðunar.

En enda þótt verðtollurinn sje aðeins bráðabirgðasmíð, hygg jeg, að menn sjeu sammála um það, að ekki sje óheppilegt að hafa verðtoll á nokkrum vörum, en aðeins þurfi að útbúa lögin alt öðruvísi en gert hefir verið. Og þótt þessi bráðabirgðaverðtollur hafi reynst óvinsæll, og það jafnvel meira en hann á skilið, þá verður því ekki neitað, að hann hefir gefið stórmiklar tekjur í ríkissjóð, og að mikill meiri hluti þeirra kemur af dýrum og sumpart óhófsvörum, sem efnamennirnir nota öðrum fremur. Og jeg er sannfærður um, að ef þessi tollur er borinn saman við hinn tollinn, sem settur var í fyrra, sem sje 25% gengisviðaukann, sem lítið hefir verið talað um og menn virðast hafa vel sætt sig við, þá muni samt sýna sig, að gengisviðaukinn kemur miklu ver og órjettlátar niður en verðtollurinn.

Öllum nefndarmönnum kom saman um það, að þessi bráðabirgðaverðtollur í því formi, sem hann er nú, væri aðeins bráðabirgðaráðstöfun, og ætti að vera það. En þeim kom og saman um, að ekkert vit væri í að fella hann alveg niður að svo komnu, eins og líka sjálfsagt er, að eð hann á að falla úr gildi, þá á hann að falla smátt og smátt niður. Því augljóst er, hvílíkar afleiðingar það hefði, ef svo gífurlega hár tollur væri feldur niður alt í einu og verslanir yrðu að sitja uppi með allar þær vörur, sem þær hefðu aflað sjer meðan tollurinn var á þeim. Það yrði alveg óbærilegt fyrir þær. En nefndinni kom ekki saman um það, hvenær byrja ætti á niðurfærslunni. Einn hv. nefndarmaður hefir gert það atriði að ágreiningsefni. Hann vill, að tollurinn nú þegar, eða frá 1. júní, lækki á öllu jafnt niður í 15%, eða um 14 frá því, sem hann er nú. Hinir nefndarmennirnir vilja aftur á móti framlengja tollinn þannig, að hann gildi fyrst um sinn til ársloka 1926 og gefi til þess tíma nokkurnveginn sömu tekjur og hann gefur nú. Meðfram er þetta sprottið af því, að það verður að telja heilbrigðast, að þingið, sem nú er að ganga frá fjárlögunum fyrir árið 1926, fari mjög nærri um, hvernig þessum stórkostlega tekjulið verður varið á því ári. Það má játa, að þessi bráðabirgðaverðtollur hefir farið nokkuð fram úr áætlun þessa 3/4 hluta árs, sem hann hefir staðið, og einnig nú má búast við, að hann verði framvegis nokkuð hærri en hann er áætlaður í fjárlögum. Að vísu er búið að færa áætlunina fyrir 1926 upp í 800000 kr., en það er ekki óvarlegt. En á hitt má líka líta, að lítt mun skaða, þó tollurinn fari fram úr áætlun, því nú sýnist alt benda til þess, að fjárlögin verði afgreidd með nokkrum tekjuhalla á yfirborðinu. Sýnist því ekki fjarri sanni, að þessi áætlun væri svo varleg, að hún bætti þann halla að nokkru. Að vísu er þess að gæta, að ekki er um eyðslufje eitt að ræða þar sem þessi tekjuhalli er, því að þar með eru taldar 600 þús. kr. til afborgunar á lausum skuldum, og verður hinn raunverulegi tekjuhalli því minni. En svo mun vera gert ráð fyrir, að ríkissjóður endurgreiði landhelgissjóði þessa upphæð, og mun það vart takast nema með lánsupphæð, ef enginn tekjuafgangur verður á áætlunarliðunum. Hjer gæti það komið í góðar þarfir, að verðtollurinn færi fram úr áætlun, því vart verður svo um aðra liði, að meiru nemi en því, sem gjaldaliðirnir reynast meiri en áætlað er. Hefir mjer virst svo fara undanfarin ár, er jeg hefi athugað fjárlögin og landsreikningana, að tekju- og gjaldaáætlanirnar muni yfirleitt vega hvor aðra upp, nema þá á þessum eina lið.

Auðvitað verður svo með þennan toll sem aðra, að hann gefur meiri tekjur á góðu árunum, en minni á hinum mögru; en yfirleitt mun hann samt fara nokkuð fram úr áætlun. Þó býst jeg ekki við, að neinn vilji halda honum að mestu óbreyttur frá því, sem er, lengur en til ársloka 1926, eins og nefndin leggur til.

Á þskj. 304 hefir nú nefndin borið fram allfyrirferðarmiklar brtt. við frv. Eins og menn sjá, eru þær stórum miklu meiri fyrirferðar en hve breytingarnar eru miklar efnislega. Meiri hl. leist svo á, að það væri tæplega rjettlátasta fyrirkomulagið, að bráðabirgðaverðtollurinn væri jafnmikill á öllum þeim vörum, sem hann fellur á, og að ef til vill mætti nota þá ársreynslu, sem fengin er, til þess að laga þetta. Meðal þeirra vara, sem tollurinn kemur á, eru auðvitað sumar, sem eru alóþarfar, svo sem sólhlífar, kniplingar, blúndur o. s. frv.; en svo eru og aðrar hinar mestu nauðsynjavörur, svo sem eldavjelar, ofnar, gleraugu, kaffikvarnir o. fl., o. fl. Hjer sýnist vera svo langt bil á milli, að undarlegt mætti heita, ef ekki fyndist rjettlátari lausn á málinu en sú, að láta tollinn vera jafnháan á öllum þessum vör um. Hitt virðist ólíkt sanngjarnara, að taka alóþörfu vörurnar í flokk sjer og tolla þær hærra, og hafa svo nauðsynjavörurnar í öðrum flokki, sem lægra væri tollaður. Jeg held, að menn muni tæplega hafa skiftar skoðanir um þetta, heldur kunna menn að deila um, hvort þetta muni ekki valda þeim erfiðleikum í framkvæmdinni, að það reynist ómögulegt þess vegna. Það er vitaskuld, að breytingar á slíkri löggjöf valda altaf stórkostlegum erfiðleikum, en jeg fæ ekki sjeð, að þessi flokkaskifting geri erfiðari framkvæmd laganna en hún er nú yfirleitt. Jeg efast að vísu ekki um, að allmörg atriði komi til úrskurðar og að sumir kunni illa að una við úrslitin, en aðalatriðið er ekki það, heldur hitt, að þessi flokkaskifting bætir að minni hyggju úr miklu misrjetti og ranglæti. Það er ekkert vit í að tolla bráðnauðsynlegar vörur jafnhátt og alóþarfar vörutegundir. Um framkvæmdina er það ennfremur að segja, að talsvert mikill hluti þeirra vörutegunda, sem eftir brtt. nefndarinnar á að tolla með 30%, hefir áður heyrt undir A.-lið aðflutningsbannsreglugerðar stjórnarinnar, og mun því nokkur hefð á það komin, hvaða vörur heyri hjer til. Um það, sem tolla á með 10%, er það að segja, að ekki er hundrað í hættunni með þær vörur, sem liggja á takmörkunum milli 10–20%. hvoru megin þær lenda.

Þetta er langsamlega aðalbreytingartillaga nefndarinnar, sem ræðir um þessa tvo flokka, sem á að stimpla með 10 og 30%. Annars er í rauninni aðeins haldið fram á þeirri leið, sem gengið var inn á í fyrra, að undanskilja ýmsar vörur tollinum. Hjer er aðeins bætt við þá upptalning þeim vörutegundum, sem framkvæmdin hefir sýnt, að nauðsyn ber til að sjeu undanskildar. Sömuleiðis er brtt. III ekki annað en svolítill viðbætir um það, að stjórninni er heimilt að undanskilja verðtolli allar vjelar til iðnaðar og framleiðslu. Jeg býst yfirleitt við, að ekki verði mikill ágreiningur um þessar till. nefndarinnar.

Það hefir valdið dálitlum erfiðleikum í nefndinni að samræma þetta frv. frumvarpi um vörutollslögin, er lá fyrir nefndinni á sama tíma. Og jeg hefi tekið eftir, að keðjulásar í vörutollslögunum eru kallaðir hjer vörpukeðjur. Þessu má auðveldlega breyta, ef frv. verður samþykt.

Jeg held, að jeg hafi ekki fleira að segja að svo komnu. Raunar hafa ýmsar brtt. borist frá hv. þm. auk þeirra, sem í nál. eru boðaðar frá hv. 3. þm. Reykv. (JakM). En jeg ætla að bíða með að ræða um þær þangað til hv. þm. hafa fyrir þeim mælt, til þess að komast hjá endurtekningum.