31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

1. mál, fjárlög 1926

Sveinn Ólafsson:

Það er aðeins stutt aths. út af orðum hv. frsm. (TrÞ) um brtt. undir rómv. XXV á þskj. 235, orðum, sem hann veik að okkur flm. þessarar brtt.

Háttv. frsm. (TrÞ) kannaðist við, að við ættum lagalegan og siðferðilegan rjett til þess að fá þessa viðbótarbyggingu við Eiðaskólann. Þessi viðurkenning er rjett og góðra gjalda verð, en hann bætti því við, að við ættum ekki rjett á að fá fjeð veitt í þetta sinn. Jeg skal því reyna að sýna fram á, að við eigum ekki aðeins rjett á að fá fjárveitinguna nú, heldur áttum við heimtingu á þessu fyrir mörgum árum. Þetta hefir tvisvar verið lögfest, bæði 1917 og 1919, auk þess sem stjórnin 1920 og ’21 ljet gera áætlun um kostnað, sem þá var metinn 180000 kr., og undirbúa verkið með aðflutningi byggingarefnis. Ekki þarf heldur að líta á þetta eins og neina náðargjöf, því að ríkissjóðnum var afhent verðmæti í jörðum, munum og gangandi fje að gjöf frá hjeruðunum, sem í hlut eiga, þegar 1918, og var hún miklu meira virði en það, sem nú er beðið um til byggingarinnar.

Mjer virðist því hallað rjetti Austfirðinga, ef þeim er neitað um fjeð í nauðsyn, sem þeir hafa áður lagt fram, en á sama tíma boðið fram fje, ef svo mætti segja, til þeirra, sem enga slíka heimtingu eiga á því. Jeg tel, að það sje gert með t. d. 20000 kr. fjárveitingu til hjeraðaskóla, 5000 kr. fjárveitingu til sundlaugarbyggingar í S.-Þingeyjarsýslu, 2000 kr. veitingu til húsmæðrafræðslu á Ísafirði o. s. frv. Allar þessar till. styður hv. fjvn., en treystist ekki að mæla með fjárveitingu til byggingar á Eiðum. Ekkert þessara þriggja fyrirtækja getur átt jafnríkan rjett til fjárins, þótt þarfleg sjeu, sem þeir, er fjeð eiga inni hjá ríkissjóði.

Þá vík jeg að brtt. minni um styrkinn til alþýðufræðslu stúdentafjelagsins. Hv. frsm. (TrÞ) hafði á móti henni, af því að ekkert stúdentafjelag væri til á Austfjörðum. En jeg fæ ekki sjeð, að það komi þessu máli mikið við, hvort slíkt fjelag er þar til eða ekki. Um mörg ár hefir fje þetta verið veitt og notað til fyrirlestra á ýmsum stöðum, einkanlega hjer í Reykjavík og nágrenninu og að nokkru á Akureyri. Jeg man ekki til þess, að slíkir fyrirlestrar hafi verið fluttir á Austurlandi, nema tvisvar, og munu hafa verið tveir hvort sinn. Auðvitað þarf ekkert stúdentafjelag að vera þar, til þess hægt sje að verja þar fje til fyrirlestra, og ekki getur mjer virst ósanngjarnlegt, þótt ánafnaður væri 1/6 af þessum 1200 kr. alþýðufræðslustyrk til fyrirlestra austur frá. Hugmyndin hlýtur þó að vera sú, að alþýða alls landsins njóti góðs af þessu fje, ef hægt er, en ekki aðeins Reykjavík og Norðlendingafjórðungur. Jeg legg að öðru leyti ekki mikla áherslu á þetta atriði; aðalástæða mín til þess að standa upp í þetta sinn var að andmæla því, sem háttv. frsm. (TrÞ) hafði ofmælt, er hann sagði, að við Austfirðingar ættum ekki heimtingu á að fá þessa viðbót við Eiðaskólann á næstu árum. Jeg held því hiklaust fram, að fjárveitingin til byggingar skólans eigi meiri rjett á sjer en flestar aðrar fjárveitingar, sem nú er beðið um. Meðan skólinn er ekki bygður er æskulýður hjeraðanna í grendinni flæmdur á brott til mikils tjóns fyrir sveitirnar. Þeir, sem ekki fá þarna inngöngu, leita tíðum í aðrar áttir í mentunarleit, og hverfa þá oft að fullu frá átthögunum.

Skólinn á Eiðum er sá eini af fullkomnari alþýðuskólum landsins, sem eftir er í sveit, síðan Möðruvallaskólinn, illu heilli, var fluttur til Akureyrar. Hann stendur svo langt frá sjó og áhrifum kauptúnanna, að hann getur mótað nemendur og laðað þá að sveitinni. Þeirra áhrifa þykist jeg líka hafa orðið var, jafnvel á þá, sem úr kauptúnum hafa sótt skólann; og þetta er ef til vill þýðingarmesta atriðið. Í sveitinni ílengjast þeir fremur, sem þar hafa dvalið námsárin, og með því er sveitunum unnið mest gagn og heildinni allri. En meðan skóli þessi verður að vísa frá vegna húsþrengsla helmingi umsækjenda, getur hann heldur ekki nema að hálfu leyti unnið sitt þarfa hlutverk.