03.04.1925
Efri deild: 46. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2053 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

8. mál, verslunaratvinna

Sigurður Eggerz:

Jeg sje ekki ástæðu til að gera þá breytingu, sem hv. allshn. leggur til að gerð verði á 5. gr. frv., sem sje að gera minni kröfur til heimilisfestu en gerðar eru í stjfrv. Í 5. gr. stjfrv. stendur m. a.: „Ef fjelag er, þar sem nokkrir fjelagar eða allir bera fulla ábyrgð á skuldum fjelags, þá skulu þeir, sem þá ábyrgð bera, allir fullnægja skilyrðum 1.–4. og 6. tölul. 3. gr.“ En samkv. brtt. hv. nefndar eiga ekki aðrir að fullnægja þessum skilyrðum en stjórn fjelagsins og svo þeir, sem rita firmað. Jeg fæ ekki sjeð neina ástæðu til að gera þessa breytingu.

Að því er snertir 2. brtt. á þskj. 270, þá verð jeg að segja, að jeg var í fyrstu að hugsa um að greiða henni atkv., því mjer finst ekki nema sanngjarnt, að sú þekking sje heimtuð, sem þar segir.

En hinsvegar er þess að gæta, að til eru margir menn, sem hafa fengist við verslunarstörf um margra ára skeið, þó ekki hafi þeir lokið prófi við verslunarskóla. Maður, sem t. d. hefir verið bókhaldari við verslun í 5–6 ár, mun að öllum jafnaði vera betur undir það búinn að reka sjálfstæða verslunaratvinnu en sá, sem kemur beint frá prófborði einhvers verslunarskóla.

Jeg skal játa, að það er rjett að heimta meiri þekkingarskilyrði en nú er gert af mönnum, sem vilja reka sjálfstæða verslun, en hinsvegar er hart að útiloka slíka menn frá þeim atvinnurekstri. Jeg get þess vegna ekki greitt umræddri brtt. atkv. skilyrðislaust. Ef hún verður samþykt, þá verður um leið að setja einhver bráðabirgðaákvæði um þá menn, sem nú eru gamlir og reyndir starfsmenn við verslanir, þó að þeir sjeu enn ekki orðnir kaupmenn.