03.04.1925
Efri deild: 46. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

8. mál, verslunaratvinna

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg legg ekki svo ýkjamikið upp úr því, þó að Sambandið og Verslunarráðið geti sameinast um brtt. 2 á þskj. 270, því á þeim degi urðu þeir Heródes og Pílatus vinir, og man hv. 5. landsk. (JJ), hvernig á því stóð. Þetta sannar engan veginn, að hjer sje um þjóðþrifamál að ræða, því að þessir aðiljar hugsa fyrst og fremst um sjálfa sig, en við, sem hjer sitjum, eigum að hugsa um þjóðfjelagsheildina. Það er því ekki næg sönnun fyrir ágæti brtt., þó að Sambandið og Verslunarráðið sjeu sammála um hana, þar sem eigin hagsmunir þessara aðilja falla hjer saman. (JJ: Það er verslunarstjettin, sem við gera sig sem best mentaða). Já, að vísu. En við erum ekki sammála um, að alt sje fengið þó að þessum skólum sjeu veitt einkarjettindi. Og við eigum ekki að fara skilyrðislaust eftir vilja Sambandsins eða Verslunarráðsins í þessum efnum, heldur eftir því, sem við teljum rjettast og heppilegast bæði fyrir verslunarstjettina og aðrar stjettir.

Út af ummælum hv. 1. landsk. (SE) um brtt. hv. allshn. við 5. gr. skal jeg taka það fram, að jeg er sammála hv. þm. (SE) um, að þessarar breytingar er ekki þörf. En brtt. þessi er flutt vegna þess, að hv. nefnd hefir fundist fjelög með breytilegri fjelagatölu falla undir 1. lið 5. gr., en þau falla í raun og veru undir 3. lið greinarinnar.

Svo var til ætlast, að 1. liður næði til fámennra fjelaga, þar sem a. m. k. einn fjelagi bæri ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum fjelagsins. Jeg verð því að álíta, að stjfrv. sje brtt. betra að þessu leyti, þar sem það er þrengra. Ef t. d. 3 menn reka verslun í fjelagi, þá verða þeir allir að fullnægja skilyrðum 1.–4. og 6. tölul. 3. gr. samkv. stjfrv., en þurfa þess ekki eftir till. hv. nefndar.

Háttv. 1. landsk. (SE) benti einnig á menn, sem lengi hefðu starfað við verslunarfyrirtæki, t. d. sem bókhaldarar, í sambandi við brtt. á þskj. 270,2. Hjelt hann, að ráða mætti bót á því ákvæði með bráðabirgðaákvæði; en svo er þó ekki, því að slíkir verslunarmenn, án prófs, koma auðvitað jafnt hjer eftir sem hingað til, og ákvæðið verður jafnranglátt gagnvart þeim, sem síðar koma, sem þeim, er nú eru fyrir, og það er einmitt vegna þessara manna, sem það er ranglátt að gera það að föstu skilyrði, að menn hafi tekið próf við þá skóla, sem í brtt. segir. Það ætti að vera nægilegt, að maðurinn sýndi á einhvern hátt, að hann sje hæfur til að fást við verslunarstörf, og það má ómögulega blanda þessu saman við störf lækna. Þau eru alt annars eðlis og svo langtum vandasamari, að slíkt er ekki sambærilegt. Hver getur t. d. „opererað“ nema sjermentaðir læknar? (JJ: Það eru til sjálflærðir læknar). Það er mjög sjaldgæft, og jeg held alveg útilokað, að til sjeu sjálfmentaðir læknar, sem geti leyst öll læknisstörf af hendi. Sama máli gegnir um lögfræðinga. Það er til fjöldi manna, sem getur int af hendi mörg þau störf, sem lögfræðingar hafa venjulega með höndum, en svo koma fyrir mál, t. d. sakamál, sem engir geta leyst úr nema lögfræðingar. Og svona er því varið á mörgum sviðum. En í verslun kemur slíkt ekki fyrir, og er því ekki sambærilegt.

Mjer finst þetta ákvæði brtt, einna svipaðast því, ef sett yrði í lög, að engir gætu orðið bændur, sem ekki hefðu gengið í bændaskóla og lokið þaðan prófi, en það er braut, sem jeg fyrir mitt leyti vil ekki ganga inn á.