12.05.1925
Neðri deild: 78. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2127 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

8. mál, verslunaratvinna

Jakob Möller:

Jeg hefi ekki rannsakað þetta mál neitt nákvæmlega, en jeg er altaf að finna við og við atriði, sem mjer finst vafasöm. Mjer er það ekki full kunnugt, hvernig verið hefir með útsölu á brauðum og mjólk, hvort verslunarleyfi hefir þurft. Hygg þó, að svo hafi ekki verið. En mjer sýnist eftir frv. óhjákvæmilegt, að slík útsala falli ekki undir 2. lið 1. gr., nema aðeins að því er tekur til þeirra, sem framleiða slíkar vörur sjálfir; aðrir munu þurfa að fá verslunarleyfi. Afleiðingin yrði sú, að þessar vörur yrðu að minsta kosti ekki ódýrari en verið hefir. Mjer þætti því ekki ósennilegt, að nefnd þeirri, sem stjórnin hefir skipað til að athuga dýrtíðina í Reykjavík, þætti þessi breyting á verslunarlöggjöfinni athugaverð. Það er ekki einungis, að þessar verslanir sleppi nú við að greiða leyfisgjaldið, heldur og ýmsar kröfur, sem gerðar eru til verslunarrekenda í þessum lögum. Þessi verslun er oft í höndum þeirra, sem annars lítið kunna til þessarar atvinnu, og verður enginn skaði að. Og mjer er ómögulegt að sjá, að þessi tegund verslunar þurfi nauðsynlega að lúta svo ströngum lagafyrirmælum.

Jeg hefi litið svo á, að vafasamt væri, hvort leyfa ætti stórsölum að reka smásöluverslun, og eins hvort leyfa ætti sama smásala að hafa margar útsölur í sama verslunarstað. Mjer finst þetta atriði þó sjerstaklega varhugavert einmitt í sambandi við heimildina fyrir stórsala til að reka smásölu. Það gæti leitt til þess, að einstakir menn næðu of miklum tökum á versluninni. Það væri yfirleitt ekki úr vegi, að þetta væri athugað betur en gert hefir verið. En verði smásala heimiluð stórsölum, mun jeg greiða atkvæði á móti því, að sami maður megi reka smásölu á mörgum stöðum.