14.05.1925
Efri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2136 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

8. mál, verslunaratvinna

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg get vel skilið, að hv. 5. landsk. (JJ) sje ekki sem ánægðastur orðinn með frv., sjerstaklega þar sem felt er burtu ákvæðið um árs skatt af verslunum, sem sett var samkv. till. Verslunarráðsins. Hinsvegar dylst mjer ekki, að mörg ákvæði frv. miða til verulegra bóta, og hvað snertir tilgang frv., sem hæstv. atvrh. (MG) mintist á, að hamla óeðlilegri aðsókn að þessari atvinnugrein, þá held jeg, að hv. þm. (JJ) hljóti að kannast við, að t. d. hækkun leyfisbrjefagjaldsins sje ekki óverulegt atriði í þessu efni. T. d. kostar leyfi til að reka stórsölu 1000 kr. samkv. frv. þessu.

Hvað viðvíkur annars brtt. hv. þm (JJ), þá skal jeg ekki mæla á móti því, að hún kunni að hafa eitthvað til síns máls. En það er altaf nægur tími til að koma slíkri brtt. inn í lögin síðar meir. Þau tilfelli munu hvort sem er vera svo strjál, að samvinnufjelög hafi sýslunefndir á móti sjer, að ekki mun saka, þó þetta ákvæði bíði til næsta þings. En eins og nú er komið, stofnar brtt. frv. í hættu, ef hún verður samþykt, þar sem hún er svo seint fram komin, og vil jeg því enn á ný láta þá ósk í Ijós, að hv. deild felli brtt. og samþykki frv. eins og það er komið frá hv. Nd.