12.02.1925
Neðri deild: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2138 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Eins og sjá má af greinargerð fyrir frv. þessu, er meginatriði 1. gr. þess tilraun til að jafna skattgjald hlutafjelaga þannig, að það þurfi ekki að vera eins misjafnt ár frá ári eins og arður þeirra fjelaga, sem reka áhættusaman atvinnuveg, t. d. sjávarútveg.

Ákvæðin um skattgjald hlutafjelaga eru harðari hjá okkur en nágrannaþjóðum okkar, og þau koma sjerstaklega illa niður, þegar svo ber undir sem nú, að mikill arður verður á einu ári eftir undangengið tap og arðleysi.

Uppástunga sú, sem hjer er gerð, er sumpart sniðin eftir dönskum lögum, en sumpart eftir því, sem hjer á við vegna staðhátta. Að öðru leyti en því, sem farið er fram — á í 1. gr. frv. þessa, eru það aðeins smábreytingar við núgildandi skattalög, sem það hefir í sjer fólgnar. Má þar fyrst til nefna, að farið er fram á, að með konunglegri tilskipun megi undanþiggja þá menn, er starfa erlendis í þjónustu hins íslenska ríkis, tekjuskatti að nokkru eða öllu af launum þeim, er þeim eru greidd hjeðan fyrir starfið, og er þetta í samræmi við reglur þær, sem fylgt er annars á Norðurlöndum.

Loks er farið fram á heimild til þess að gera samning við stjórn Danmerkur um gagnkvæmar ívilnanir á tekju- og eignarskatti þeirra íslenskra og danskra ríkisborgara, sem eftir gildandi skattalöggjöf ríkjanna eiga að greiða skatt af sömu tekjum og eignum í báðum ríkjum. Er uppástunga þessi komin frá dansk-íslensku ráðgjafarnefndinni, og hefir uppkast af slíkum samningi gengið á milli stjórna beggja landanna. Þó slíkir samningar verði gerðir, munu þeir ekki hafa neinn tekjumissi í för með sjer fyrir ríkissjóðinn íslenska.

Það er efalaust, að full þörf hefði verið að taka tekju- og eignarskattslögin til gagngerðrar endurskoðunar, en til þess vanst ekki tími fyrir þetta þing, enda má segja, að reynslan fyrir þeim sje ennþá of stutt og einhliða vegna hins óhagstæða árferðis, sem verið hefir síðan lög þessi öðluðust gildi, þar til nú síðastliðið ár. Og nú fyrst er hægt að jafna skattinum niður eftir hagstætt árferði. Og þá fyrst, þegar búið er að fá reynslu bæði hagstæðra og erfiðra ára, verður fenginn grundvöllur fyrir gagngerða endurskoðun laganna í heild.

Að þessari umr. lokinni óska jeg málinu vísað til fjhn.