06.04.1925
Neðri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

1. mál, fjárlög 1926

Bernharð Stefánsson:

Jeg á tvær litlar brtt. á þskj. 290. Önnur er undir XXV. lið, og flyt jeg hana með hv. þm. Barð. (HK). Þar förum við fram á, að veittar verði 10 þús. kr. til byggingar barnaskóla utan kaupstaða, alt að þriðjungi kostnaðar.

Þessi tillaga er þannig til orðin, að eins og menn muna flutti jeg við 2. umr. brtt. um, að ríkissjóður legði fram 5000 kr. til þess að reisa skólahús í Ólafsfirði, og hv. þm. Barð. (HK) aðra um að veita 3000 kr. í sama skyni handa hreppi í hans kjördæmi.

Enda þótt jeg hafi þá sýnt ljóslega fram á nauðsyn skólabyggingarinnar í Ólafsfirði, þá voru undirtektir hv. fjvn. og hv. deildar á þann veg, að jeg sá þann kost vænstan að taka till. aftur til 3. umr., en tillaga hv. þm. Barð. var feld.

Nú höfum við tekið það ráð að fara fram á, að ákveðin upphæð verði veitt til þess að reisa skólahús utan kaupstaða, án þess að tiltaka nánar, hvar þau skuli reist. Væntum við þess, að till. finni meiri náð fyrir augum hv. deildar í þessu formi en meðan við fórum beinlínis fram á ákveðnar fjárveitingar fyrir okkar eigin kjördæmi.

Því þar sem stjórn fræðslumálanna á að veita styrk af þessari upphæð þangað, sem þörfin er mest, þá er enginn kominn til þess að segja fyrirfram, hvert hann verður veittur.

Jeg skal að vísu við það kannast, að jeg hygg, að fjárveitingar til þessara skóla, sem við hv. þm. Barð. fluttum till. um við 2. umr. og sem báðar hafa meðmæli fræðslumálastjóra, muni vera einna mest aðkallandi og þeir, sem þar eiga hlut að máli, muni njóta þessa styrks, ef til kemur. En þó er það svo, að hv. frsm. (TrÞ) gat þess, að víðar væri þörf á að reisa barnaskóla, og ef svo skyldi reynast, að þörfin væri brýnni annarsstaðar, þá gengur fjárveitingin þangað, og er ekkert við því að segja.

En háttv. þingdm. verða að játa, að í till. er nú engin hreppapólitík, heldur miðar hún að því að styðja sjálfsagt og gott málefni og að ríkissjóður standi að nokkru við þær skuldbindingar, sem hann í raun og veru hefir tekið á sínar herðar fyrir löngu síðan.

Í frv. eru nú allháar fjárveitingar til bygginga á prestssetrum. Jeg er ekki að hafa á móti þeim í sjálfu sjer, en þó verð jeg að segja, að jeg fæ ekki sjeð, að þær eigi að vera stórum mun rjetthærri en styrkir til að reisa barnaskóla, þar sem óhjákvæmilegt er að reisa þá. Og jeg þóttist sýna fram á það við 2. umr., að óhjákvæmilegt er að reisa barnaskóla í Ólafsfirði, og hv. þm. Barð. hefir einnig sýnt fram á, að ekki verður hjá því komist að gera viðbót við skóla þann, sem hann vill fá styrk til.

Hin brtt., sem jeg á, er um að hækka úr 800 upp í 1200 kr. styrkinn til Frí manns B. Arngrímssonar.

Jeg skal ekki fjölyrða um þessa styrkveitingu.

Þessi maður er nú kominn á áttræðisaldur og fremur heilsulítill upp á síðkastið. Hann er mjög merkur maður fyrir margra hluta sakir, en einkum þó vegna hinnar alveg einstöku óeigingirni og brennandi áhuga fyrir almenningsheill, sem hann hefir sýnt frá fyrstu tíð.

Undanfarið hefir hann unnið að rannsóknum á áburðarefnum og ýmsu fleira, sem hann álítur, að þjóðinni megi koma að notum. Jeg skal ekki leggja neinn dóm á þessar rannsóknir, enda er jeg enginn sjerfræðingur í slíkum efnum, en þó þori jeg að fullyrða, að ýmsar góðar bendingar hefir Frímann gefið, sem vel eru þess verðar, að þeim sje gaumur gefinn — og ennfremur er mjer kunnugt um, að hann ver ákaflega miklum tíma til þessara rannsókna sinna. Hann lítur nefnilega svo á, að fyrir þann styrk, sem hann fær af almannafje, eigi að koma full vinna, og get jeg fullvissað menn um, að hann leggur fram meiri vinnu en svo, að 800 kr. geti talist sæmileg þóknun, hvað þá heldur kaup.

Annars þarf jeg ekki að fjölyrða um, hvort rannsóknir hans sjeu styrks verðar, vegna þess að Alþingi hefir í því efni sagt til um álit sitt, þar sem honum hafa verið veittar 800 kr. árlega um nokkurra ára skeið.

En nú stendur svo á, að sökum elli er þess varla að vænta, að hann geti fengið sjer verulega aukaatvinnu, enda vinnur hann altaf svo mikið að rannsóknum sínum, að hann hefir engan tíma til annara starfa.

Jeg skal og geta þess, að jeg álít, að Frímann muni vera sparsamasti maðurinn á öllu Íslandi, en þó svo sje, þá er samt augljóst, að 800 kr. hrökkva skamt, ekki síst þar sem hann ver töluverðum hluta styrksins í beinan kostnað við rannsóknir sínar.

Jeg hefi lítillega kynst lífskjörum þessa manns, og það get jeg sagt, að jeg hefi aldrei hitt fyrir nokkurn mann, sem hefir neitað sjer um jafnmörg lífsþægindi.

Jeg þykist vita, að þó jeg færi að lýsa lifnaðarháttum hans og sjálfsafneitun, þá myndi það láta í eyrum sem skáldskapur. Hv. þm. þyrftu sjálfir að heimsækja hann, til þess að sannfærast um, að jeg hefi ekkert ofmælt.

Jeg ætla ekki að ræða mikið um aðrar brtt., en þó vil jeg í sambandi við brtt. hv. fjvn. um styrk til þess að gera steinsteyptar sundlaugar mega minna hæstv. stjórn á umsókn um slíkan styrk, sem komið hefir úr mínu kjördæmi. Jeg vil mega vona, að hæstv. stjórn minnist þeirrar umsóknar, þegar hún úthlutar væntanlegum styrk í þessu skyni, án þess þó að jeg vilji fara fram á, að þessi umsókn verði látin sitja fyrir öðrum, heldur verði hún aðeins látin njóta jafnrjettis við samskonar beiðnir annarsstaðar frá.

Ennfremur vil jeg í sambandi við brtt. hv. þm. Árn. (MT og JörB) um 20000 kr. fjárveitingu til bryggjugerðar og lendingabóta á sama hátt mega minna hæstv. stjórn á, að einnig hefir komið umsókn úr mínu kjördæmi um styrk til þessara hluta, og vænti jeg þess, að á þá umsókn verði litið með sanngirni, þegar þessi fjárveiting kemur til úthlutunar.