14.05.1925
Neðri deild: 80. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2319 í B-deild Alþingistíðinda. (1266)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Út af fyrirspurn hv. 2. þm. Reykv. (JBald) vil jeg segja það, að jeg get ekki alveg svarað þessu, enda kemur þetta ekki undir minn úrskurð, nema að því leyti, sem skattstjóri eða einhver gjaldandi kann að óska úrskurðar þar um, en forsenda hv. þm. (JBald) var skökk, þar sem hann gerði ráð fyrir því, að sum fjelög hefðu gert upp reikning sinn áður en þingið var sett, 7. febrúar. Jeg hygg, að engin útgerðarfjelög hafi lokið uppgerð reikninga sinna fyr en eftir þann tíma, er frv. var samið og lagt fram, svo að jeg geri ráð fyrir, að öll fjelög hafi haft jafnt tækifæri hvað þetta snertir. En jeg get ekki sagt annað um það, sem háttv. þm. (JBald) spurði um, en alment tekið, að jeg mun reyna að haga svo mínum úrskurðum, að sem minst misrjetti eigi sjer stað, og jeg hygg, að af þessum ástæðum sje algerlega óþarft að fresta framkvæmd laganna í eitt ár, og leyfi mjer því að mæla á móti þeirri brtt., sem háttv. þm. (JBald) flytur.