17.03.1925
Neðri deild: 35. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2410 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

67. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg þakka hv. allshn. fyrir skilning hennar á þessu máli. Komu hinar góðu undirtektir hennar mjer þó ekki á óvart, þar sem jeg vissi, að tveir hv. nefndarmenn eru kunnugir þar vestra. — Jeg hefði líklega ekki farið að flytja þetta frv. nú, ef ekki hefðu alveg sjerstakar ástæður verið fyrir hendi. Svo liggur í því, að íbúarnir í Hnífsdal, sem munu vera um 400, hafa nú ákveðið að byggja sjer kirkju og hafa fengið loforð biskups um, að hún verði gerð að annexíu frá Ísafirði. En við það mundu minka tilfinnanlega þau not, sem menn í Hólssókn hafa af presti sínum, og þar sem þeir nú þykjast vanhaldnir í prestsþjónustu, og eru það líka, þá má nærri geta, hvað síðar verður. Þó er presturinn á Ísafirði mjög skyldurækinn í starfi sínu og leggur mikið á sig til að fullnægja þörfum safnaðanna, en það er hverjum presti um megn.

Þeir, sem ekki þekkja til á þessum slóðum, munu varla skilja, hve samgöngurnar þarna eru erfiðar og hve vont er að koma því við að þjóna kirkjunni í Hólssókn frá öðrum stöðum. Bæði er leiðin þangað landveginn oft mjög hættuleg, enda slys tíð, og í annan stað er sjóleiðin oft alveg ófær, sökum þess að ekki er hægt að lenda í Bolungarvík. Ennfremur hafa sóknarmenn allmikinn aukakostnað af því að sækja prestinn til Ísafjarðar. Er ekki hægt nema sjaldan að sæta ferðum, sem falla, þar sem söfnuðurinn heima er um 3000 manns, og því ekki von, að presturinn megi vera mikinn tíma að heiman í hvert sinn. Presturinn hefir líka mikinn aukakostnað af ferðum sínum, og er engum blöðum um það að fletta, að sá kostnaður fer langt fram úr þeim aukatekjum, sem hann hefir úr Hólssókn.

Það, sem biskup leggur aðaláhersluna á, er það að þar sem nú verði reist kirkja í Hnífsdal, þá sje óhugsandi, að Hólssókn fái þá prestsþjónustu, sem unandi verði við. Kveður hann rjettilega, að hvergi muni standa eins a og þarna, og þó víða væri máske ástæða til að fjölga prestum, þá mun þörfin hvergi vera eins brýn og þar vestra.

Jeg vona nú, að hv. deild láti það ekki hræða sig frá að greiða atkvæði með frv. þessu, að hún geti átt von á, að fleiri frv. um fjölgun prestakalla verði borin fram. Það væri í hæsta máta ósanngjarnt að sinna ekki rjettmætustu kröfunni, þó ekki sje hægt að fullnægja öllum öðrum kröfum, þó sanngjarnar sjeu.

Hv. þm. Borgf. (PO) hefir skýrt frá sínum ástæðum. Jeg bjóst nú sannast að segja ekki við, að hans skoðun hefði breyst síðan 1921, þó ennþá hafi ein knýjandi ástæða bæst við síðan þá, nefnilega kirkjubyggingin í Hnífsdal og þar af leiðandi minkuð prestsþjónusta í Hólssókn. Hv. þm. (PO) benti á, að legið gæti við borð aðskilnaður ríkis og kirkju. Jeg geri varla ráð fyrir, að svo stóru máli verði ráðið til lykta nema með þjóðaratkvæði, og þá get jeg trúað því, að sum útkjálkahjeruðin hugsi sig tvisvar um áður en þau greiddu atkvæði með aðskilnaði, nema þeim væri sjeð fyrir því meira fje til að halda uppi kirkju og kristindómi. En því vil jeg ekki trúa, að menn vilji, að þjóðin verði ver kristin en hún er nú.

Jeg skal játa, að fjárhagurinn er erfiður. En það er engu að síður erfiður fjárhagur þeirra manna, sem árum saman hafa búið við afla- og atvinnuleysi, en verða að leggja á sig þungar kvaðir fram yfir aðra til að geta orðið prestsþjónustu aðnjótandi. Svo má geta þess, að prestlaunasjóður fær meiri tekjur frá þessum sóknum en hann og ríkissjóður greiða prestunum, þó tveir verði. Sú ástæða hv. þm. (PO), að fólki fækki óðum í Bolungarvík, er alls ekki rjett. Árið 1920 er íbúatalan þar 935, en 1924 er hún komin upp í 966. Tölur þessar eru teknar eftir skýrslum biskups. Hitt er satt, að fólki hefir ekki liðið vel á þessum slóðum undanfarið. Aflaleysi hefir verið mikið og útgerðin gengið illa, en það ætti ekki að hafa þau áhrif, að menn þessir fengju síður rjetting mála sinna hjá hæstv. Alþingi.

Mál þetta var mikið rætt á þinginu 1921, og þá var sýnt ítarlega fram á rjettmæti þess. Vil jeg því ekki tefja tímann með löngum umr. um það og vona, að afgreiðsla þess dragist ekki fram úr hófi.