07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

1. mál, fjárlög 1926

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg skal reyna að vera fáorður. Jeg get verið þakklátur hv. fjvn. fyrir þær viðtökur, sem þær tillögur hafa fengið, sem jeg er flm. að. Viðvíkjandi þeirri till., sem er á þskj. 290 undir tölulið LV. get jeg verið hv. fjvn. þakklátur fyrir undirtektir hennar. Hv. frsm. síðari kaflans (TrÞ) lýsti því yfir, að nefndin hefði átt tal við biskup og hefði hann sagt, að stjórnin í samráði við sig gæti keypt byggingarnar á Torfastöðum án þess að samþykki Alþingis kæmi til, og væri hann því hlyntur. Og hv. frsm. ljet í ljós sem skoðun nefndarinnar, að hún væri þessu hlynt. Mjer nægir algerlega þessi yfirlýsing hv. frsm., og tek því till. hjer með aftur.

Þá er brtt. mín á þskj. 299, undir tölulið IV, um Skeiðaáveitunar sem hv. frsm. gerði að umtalsefni. Hæstv. atvrh. (MG) hefir þegar gert svo glögga grein fyrir þessari tillögu, að jeg þarf þar litlu við að bæta. Hæstv. fjrh. (JÞ) tók í sama strenginn, og flytur hann brtt. við þessa till., og get jeg lýst því yfir, að jeg get vel fallist á þá brtt. Jeg get búist við, að stjórn Landsbankans þyki þetta viðfeldnari leið og eigi hægra með að sætta sig við þá tilslökun, sem bankinn þarf að gera, ef þetta verður samþykt svona. Annars legg jeg þann skilning í þessa tillögu, að ekki sje með henni lögð minni áhersla á að koma málinu í rjett horf heldur en með þeirri till., sem hv. fjvn. flytur á þskj. 290 undir tölulið XXXVIII. Jeg er báðum hæstv. ráðherrum þakklátur fyrir stuðning þeirra í þessu máli og tel mjög hyggilegt að koma því á þann rekspöl nú, að það þurfi ekki altaf að vera að tala um þetta mál. Jeg vona, ef tekst að koma fjárhagnum í gott horf, að bændur geti sjálfir annast þetta og þurfi ekki oftar að leita á náðir þingsins.

Þá voru nokkur ummæli hv. frsm. síðari kaflans (TrÞ), sem jeg get ekki látið alveg ómótmælt. Hann drap sem sje á það, að þegar búið væri að koma fullu lagi á fjárreiður fjelagsins, væri nefndin fús á að veita frekari stuðning, og þegar bændur hefðu sýnt fullan vilja á að standa í skilum, mundi hún vilja styðja áveitufjelagið. Þetta er nú gott og blessað, en jeg hefi það við það að athuga, að það er ekki rjett, að bændur hafi ekki sýnt fullan vilja á að hafa fjárreiðurnar í sem bestu lagi. Þeir hafa þvert á móti viljað standa við allar sínar skuldbindingar, en fyrirtækið varð svo kostnaðarsamt, að þeir hafa ekki getað staðið í skilum með alt fjeð, og hafa því í tæka tíð leitað til þingsins. Þingið hefir sint þessum málaleitunum. Það er því ekki að ræða um neitt tómlæti eða hirðuleysi af hálfu bænda í þessu efni. Nú mætti ef til vill segja, að fjelagið hefði verið einrátt um, hvort það legði út í þetta fyrirtæki; en þeir vissu ekki, að þetta mundi verða eins kostnaðarsamt og raun hefir á orðið, og eftir að verkið var byrjað og komið á góðan rekspöl, var ekkert vit í að hætta við alt saman. Þeir voru þá heldur ekki einráðir orðnir um það. Jeg er viss um, að ef búendur á þessu svæði hefðu haft hugboð um, hversu dýrt þetta yrði, þá hefðu þeir ekki lagt út í það, þó að þeir hefðu verið vissir um að fá þann stuðning, sem hjer er farið fram á. Mjer þykir leitt, að hv. fjvn. skyldi ekki fallast á þá tillögu, sem hæstv. atvrh. (MG) kom fram með. Eins og hv. þm. vita, er bústofn bænda ekki nógu mikill til þess að geta borið uppi svona mikinn kostnað; en þeir eru að hugsa um að stækka bú sín. En einmitt meðan verið er að koma þessu í kring, er mest nauðsynin á að fá fjárhagslegan stuðning. Þess vegna er hyggilegast að veita hann strax, enda eru þeir þá færari um að geta borið meira síðar. Hv. þdm. verða, um leið og þeir greiða atkvæði, að hafa það hugfast, að bændum er ekki sjálfrátt, á hvaða grundvelli þeir standa nú. Ef þeir hefðu vitað og fyrirsjeð þetta alt saman, væri eðlilegt, að þingið væri á móti. En þeir ákváðu að leggja út í þetta, þegar ekki var unt að sjá fyrir þá dýrtíð og fjárhagslega erfiðleika, sem síðan hafa orðið. Jeg vona, að háttv. þdm. gangi svo frá þessu máli, að ekki þurfi á næsta þingi að bera fram þessar sömu óskir.

Jeg skal geta þess viðvíkjandi brtt., sem jeg flyt á þskj. 299, undir tölulið IV, að jeg get tekið fyrri lið hennar aftur, þar sem hann stendur í fjárlögunum frá 2. umr., og það breytir engu, þó að tillaga hæstv. fjrh. (JÞ) verði samþykt sem viðauki við b-lið minnar tillögu.

Þá ætla jeg að víkja örfáum orðum að því, sem hæstv. fjrh. sagði um tillögu mína og tveggja annara þm., á þskj. 299, undir tölulið l, um að hækka tekjur af tóbakseinkasölunni úr 275000 kr. upp í 325000 kr. Hæstv. ráðherra sagði, að þessi till. gengi of langt og ætti ekki rjett á sjer að verða samþykt. Hann lagði til grundvallar, að ef tekið væri meðaltal af tekjum 2–3 síðastliðinna ára, færi þetta fram úr því. Þetta er rjett, og við vissum það ofurvel, en þess ber að gæta, að 2 árin er ekki hægt að taka til samanburðar, sökum þess, að þegar landsverslunin byrjaði tóbakseinkasöluna árið 1922, var innflutningur lítill af tóbaki og tóbak dýrt, og 1923 var rekstur verslunarinnar tæpast kominn í rjetta rás. Ef nokkuð er til að miða við, þá er það árið 1924. Hagnaðurinn var þá 350 þús. kr., auk varasjóðs, sem nam 35 þús. kr. Þessi upphæð er 60 þús. kr. minni en arðurinn af versluninni, og áætlunin er fullum 15% lægri en tekjur síðastliðins árs. Því get jeg ekki sjeð að þetta sje óvarlega áætlað. Jeg vil bæta því við, að með því að áætla þetta svona hátt er gefin bending til forstjóra um að leggja það mikið á tóbakið, að verslunin gefi þennan arð. Þó mörgum kunni að þykja það slæmt, finst mjer minna til um, þótt lagt sje mikið á tóbak en ýmsar aðrar vörutegundir, sem skattaðar eru hátt. Þó að tóbak sje fyrir marga eins og nauðsynjavara, er jeg í engum vafa um, að menn mundu heldur neita sjer um að kaupa það en mat til heimilisins. Annars er mjer þessi tillaga ekkert kappsmál, en jeg legg meiri áherslu á, að þessar tekjur standist áætlun en af öðrum nauðsynlegri vörum, sem ekki er hægt að komast af án.