17.03.1925
Neðri deild: 35. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2434 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

67. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Jón Auðunn Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð til háttv. 1. þm. N.-M. (HStef), sem vill leysa þetta mál með erfiðleikauppbót handa prestinum á Ísafirði. En þetta er engin úrlausn á málinu. Aðalástæðan fyrir skiftingunni er sú, að íbúar Hólssóknar eru illa haldnir vegna prestsleysisins, og úr því geta peningarnir ekki bætt. Þó Ísafjarðarpresturinn fengi kapelán, er ekki víst, að menn sættu sig við það, enda myndi það alls ekki nægja. Það eina, sem bætir úr þessu til fulls, er að skifta prestakallinu, enda myndi kapelán hafa sömu laun og prestur, og því ekkert unnið frá fjárhagsins sjónarmiði. Hv. þm. sagði, að fólkið væri alt á sama stað, og því væri ljettara fyrir prestinn að þjóna þar. Þessi umsögn hv. þm. sýnir dæmalausa vanþekkingu á staðháttum, sem jeg vona, að ekki þurfi að svara öðru en því að vísa þeim, sem ókunnugir eru og rengja vilja lýsingu mína og annara kunnugra, á landabrjef „Generalstabens“ Væru allir sóknarmenn á sama stað, eins og hann sagði, mundi alls ekki vera farið fram á þessa skiftingu. Það var heldur ekki allskostar rjett hermt hjá hv. þm. um tölu presta á landinu. Hann sagði þá ca. 140, en þeir munu vera um 112 alls. Jeg skal játa, að það er ef til vill hægt einhversstaðar að fækka prestum. En jeg tel varhugavert að fækka prestum að mun, ef við viljum halda í það þjóðkirkjufyrirkomulag, sem við nú búum við. Jeg skal svo ekki lengja þessar umr. meir en búið er, en jeg vænti þess, að þó að umr. þessar hafi orðið úr hófi langar, að mínu áliti tilefnislítið, þá hafi það ekki þau áhrif á atkv. háttv. þdm., að þeir vilji granda þessu sjálfsagða frv.