23.03.1925
Efri deild: 37. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2472 í B-deild Alþingistíðinda. (1558)

59. mál, sundnám

Frsm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Frv. á þskj. 65 ræðir heimildarlög til þess að skylda unglinga til sundnáms. Málið var tekið til athugunar af mentmn. þessarar hv. deildar og nál. hefir legið frammi nokkra daga, svo hv. þdm. hlýtur að vera það kunnugt. Hefi jeg litlu við nefndar­álitið að bæta, nema rifja upp ástæður þær, sem við nefndarmenn teljum fyrir því, að frv. þetta eigi fram að ganga. Nefndin var öll sammála um, að hjer væri um hið þarfasta mál að ræða, hvort skoðað er frá heilsufræðilegu eða upp­eldislegu sjónarmiði, og nauðsyn þess ætti að vera öllum ljós, að sem allra flestir hjer á landi kunni sund. Eins og tekið er fram í nál., munu áhrif sundsins á ein­staklinginn vera meiri en nokkurrar ann­arar íþróttar. Það hreinsar hörundið og styrkir meira en nokkuð annað. Líkaminn verður ekki eins viðkvæmur fyrir snögg­um breytingum á hita og kulda, og þess vegna ekki eins hætt við ofkælingu, sem er einhver algengasti kvilli hjer á landi í okkar breytilega loftslagi. Sundið þrosk­ar líka vilja og áræði, eykur heilbrigt sjálfstraust, því eins og kunnugt er, verð­ur sundmaðurinn eingöngu að treysta á krafta sína, þegar í vatnið er komið. Sundið skerpir hreinlætistilfinninguna og eykur hreinlæti, og eins og tekið er fram í nál., þá hefir verið sagt, að „leiðin til dygða lægi gegnum laugina.“

Að öllu þessu athuguðu finst nefnd­inni, að frá uppeldislegu sjónarmiði hafi mál þetta nægileg meðmæli. Því það má með sanni segja, að sundkunnáttan sje eitthvert fullkomnasta þroskameðal fyr­ir hverja uppvaxandi kynslóð. Skal jeg ekki fara langt út í þá hlið málsins, en vil þó tilfæra orð gamals leikfimis- og sund­kennara: Sundið æfir alla parta líkamans jafnt. Hreyfingar sundsins miða allar að því að fegra og samrætna vöxt líkamans og sundið styrkir starfsemi öndunarfær­anna.

Yrði sundið lögskipað, svo að með tím­anum lærði það hver karl og kona hjer á landi. bæti það óefað orðið á sínum tíma öflugur liður í berklavörnum okkar. Þar sem lifnaðarháttum landsmanna er þann­ig háttað, að menn geta átt á hættu að detta í vatn eða sjó við vinnu á bryggj­um og skipum, á ferðalagi í ár og vötn, þá er það auðsæ nauðsyn að kunna sund. Jeg geri ráð fyrir því, að mörg mannslíf mundu sparast af þeim, sem nú árlega týnast, ef sundkunnátta væri lögskipuð. Nefndin vill tryggja sem best öryggi þeirra, sem lögin eiga að ná til, og hefir þess vegna leyft sjer að gera smávægilega brtt. á þskj. 211, við 1. gr. frv., að í stað 10–15 ára komi 12–16. Einnig við 2. gr., að hún orðist þannig: „Skylt er hverjum nemanda, áður en kenslan byrjar, að sýna læknisvottorð um, að hann megi stunda sund heilsunnar vegna. Kostnaður við læknisskoðun þessa greið­ist úr ríkissjóði.“ Skal jeg gera grein fyrir, hvað vakir fyrir nefndinni með þessum breytingum. Nefndin lítur svo á, að 10 ára börn sjeu oft ekki nægilega þroskuð til þess að hafa full not kensl unnar. Auk þess mundi nemendafjöldi árlega í fjölmennum bæjum verða of mikill, og kostnaðurinn við kenslu því nær ókleifur. Læknisskoðunina hefir nefndin talið nauðsynlega áður en kenslan byrjar. Má vera, að það hafi vakað fyrir hv. flm. (JJós), en það er ekki tekið fram. Lækn­isskoðunin á ekki einungis að vera vegna hinna lötu og ófúsu unglinga, heldur einnig vegna hinna, sem ef til vill ekki þola sundnám, en hafa löngun til þess. Þeim þarf að aftra. Kostnaðinn viljum við, að ríkissjóður beri, enda verður hann ekki ægilegur. Yrði þessi skoðun dálítill útgjaldaauki fyrir aðstandendur barn­anna, þar sem skólaskoðun nægir engan veginn til þess að skera úr því, hvort börn hafi heilsu til sundnáms eða ekki. Ennfremur teldi jeg æskilegt, að læknir­inn og sundkennarinn hefðu sameiginlegt eftirlit með því, að sundlaugin væri í alla staði hæfileg til kenslunnar, og nauðsyn­leg áhöld notuð. Að fróðra manna sögn má laugin ekki vera djúp, því hætt er við, að byrjendur, og þá helst börn, fari í kaf, vatnið gruggist, svo kennarinn sjer ekki hvar barnið er, og verði kannske of seinn til að bjarga. Dýptin er talin hæfileg 1 meter, bæði fyrir börn og fullorðna. Það er ef til vill ekkert á móti því, að nefna hjer hin nauðsynlegustu áhöld, en þau eru: Sundkútar og sundbelti, helst ekki færri en eitt stykki á 3. hvern nemanda, og löng björgunarstöng, sem kennarinn getur náð með til nemenda, hvar sem er í lauginni. Einnig er það mín skoðun í þessu máli, að það eigi að taka upp í frv., að kennarinn eigi að kenna björgunar­sund; því þótt sundkensla fari fram, mun langt frá því, að björgunarsund sje al­ment kent.

Jeg vona, að hv. deild styðji að fram­kvæmd þessa þarfa og góða máls með því að samþykkja frv. á þskj. 65, þannig breytt, sem þskj. 211 fer fram á.