25.03.1925
Efri deild: 38. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2485 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

59. mál, sundnám

Frsm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Hæstv. forsrh. (JM) drap á það í ræðu sinni, að tíminn væri nokkuð langur, sem frv. þetta fer fram á að skylda unglinga á vissum aldri til þess að nema sund. Við nánari athugun hefir nefndin að vísu komist að svipaðri niðurstöðu, en hún álítur þó, að heppilegast sje að samþykkja frv. óbreytt einnig að því er þetta atriði snertir. Aths. hæstv. forsrh. um það, að varhugavert sje að gefa slík heimildarlög, kann að vera rjett í mörgum tilfellum. En hjer er gert ráð fyrir, að settar verði reglugerðir, sem stjórnarráðið á að staðfesta. Jeg held því, að þetta frv. sje a. m. k. ekki hættulegt, og jeg verð að halda fast við það, að hjer er um mikilsvert menningar- og uppeldis­mál að ræða.