20.04.1925
Neðri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2608 í B-deild Alþingistíðinda. (1678)

118. mál, herpinótaveiði

Jón Sigurðsson:

Jeg skal ekki teygja umr. mikið úr þessu. Jeg verð að játa það, að það er dálítið óþæg aðstaða fyrir mig, sem er einhliða landbúnaðarmaður, að eiga orðastað um þessi málefni við gamlan skipstjóra og svo útgerðarmann hinumegin, sem þekkja langtum betur inn á þetta en jeg; en þó hefir ýmislegt komið fram hjá þeim, sem er svo augljóst, að orki tvímælis, að jeg verð að svara þeim nokkrum orðum.

Jeg ætla fyrst að snúa mjer að hv. 1. þm. G.-K. (ÁF). Hann fordæmdi mjög samþyktir, og yfir höfuð allar slíkar heimildir. Jeg vil aðeins benda honum á það, að það eru ekki nema 2 ár síðan heimild var gefin einmitt til slíkrar samþyktar í hans eigin kjördæmi, samkv. eindregnum áskorunum frá kjósendum hans. (AF: Hvaða samþykt.?). Heimild til að banna dragnótaveiði í landhelgi. Þau lög voru sett aðallega vegna Gerðahrepps í Gullbringusýslu. Svo að þeir þarna suður með sjónum eru ekki alveg á sama máli og háttv. þm. (ÁF).

Þá ætla jeg að snúa mjer að öðru atriði, sem kom fram hjá hv. aðalflm. (SigurjJ). Hann vildi eins og fyr gera lítið úr, hvaða þýðingu þetta hefir fyrir Skagfirðinga; sagði, að það væri svo geysismátt, sem þeir veiddu, samanborið við þann mikla afla, sem um væri að ræða á hina hliðina. Jeg skal játa, að síldveiðar Skagfirðinga eru smáræði. En það er á annað atriði að líta; eins og jeg benti á í fyrri ræðu minni, þá eru sjómenn nyrðra sannfærðir um, að stöðvun síldargangnanna geti gert þeim stórtjón að því er fiskveiðar snertir. Ef línan færist inn, þá er aðstaðan sjerstaklega góð á sundunum milli eyjanna til þess að stöðva göngurnar lengra inn, því að þarna eru talsverð þrengsli; en þarna hljóta síldargöngurnar að leita inn. Því er það ekki aðeins síldveiði innfjarðamanna, sem gerður er leikur til að eyðileggja með þessu frv., heldur einnig ef til vill þorskveiðarnar.

Jeg verð að telja það meira en lítið varhugavert, ef það á að verða ofan á alt það los og tjón, sem síldveiðarnar í stórum stíl hafa óneitanlega bakað öðrum atvinnuvegum, að menn bæti því við að eyðileggja gamlan og rótgróinn atvinnuveg, sem hefir verið rekinn þarna um svo langt skeið, þó ekki sje í stórum stíl. En það má fullkomlega búast við, að það geti orðið, með þeim skipastól og tækjum, sem síldveiðin hefir nú á að skipa. Það er þess vegna þessum mönnum talsvert mikið áhugamál eða hagsmunamál, ekki síður en það getur verið fyrir síldveiðamenn í einstökum árum.