02.04.1925
Neðri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2664 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

99. mál, innheimta gjalda af erlendum fiskiskipum

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg vona, að ekki þurfi langar umr. um þessar lögskýringar. En af því að háttv. 2. þm. Rang. (KIJ) var að tala um úrskurð, sem hann hefði felt, þá vildi jeg, að ekki hallaðist mikið á og gera því grein fyrir mínum skilningi á lögunum, sem alveg er gagnstæður úrskurði hv. 2. þm. Rang.

Það er rjett, að lögin frá 1922 leggja lögreglustjórum ýmiskonar skyldur á herðar, en þar með er ekki sagt, að þeir eigi að hirða öll skipagjöldin og láta renna í sinn vasa, enda er þetta engin smáræðisfúlga. Og þó að fullmikið sje gert úr því, að skipaskoðunargjald færeyskra fiskiskipa sje talið of hátt, þ. e. l. kr. af hverri smálest, þá er þó þess að gæta, að skip þessi njóta sama rjettar um fiskiveiðar og innlend skip. Þetta gjald var líka til áður, en 50 aura gjaldið af smálest annara þjóða skipa var ekki í lög tekið fyr en 1921.

Þó að næstsíðasta málsgrein 4. gr. laganna frá 1922 kveði svo á, að fyrir skoðun skipsskjalanna skuli greiða lögreglustjóra eða hreppstjóra gjald það, er ákveðið er í aukatekjulögunum, þá er ekki þar með sagt, hverjir eigi að eiga gjaldið, heldur hitt, að gefa hinum erlendu mönnum til kynna, hverjir sjeu, sem taka eigi á móti gjaldinu, enda fer frv. ekki fram á að nema úr gildi þessa næstsíðustu málsgr. 4. gr.

Úrskurðurinn er því bygður á síðustu málsgr. 4. gr. og aths. við þá grein. En aths. segir ekkert annað, ef hún er rjett lesin, en að upphæð gjaldanna skuli á hverjum tíma vera sú, sem ákveðið sje í öðrum lögum, en hún segir ekkert um það, hver eigi að eignast gjöldin. (KlJ: En niðurlag hennar?). Í niðurlaginu segir svo (með leyfi hæstv. forseta):

„Ákvæðin um ákvörðun afgreiðslugjaldsins er lagt til, að ekki sjeu sett í lög þessi, en vísað til aukatekjulaga þeirra, sem í gildi eru á hverjum tíma, sbr. nú lög nr. 27, 27. júní 1921, síðustu málsgr. 54. gr.

Þá er ekki annað eftir til að byggja á en síðasta málsgr. 4. gr. laganna frá 1922, sem segir, að ef hreppstjóri innheimti gjaldið fyrir lögreglustjóra, þá skiftist það jafnt á milli þeirra. Þó svo verði litið á sem hjer sje átt við ríkissjóðsgjaldið samkv. lögunum frá 1921, þá verður þetta þó ekki teygt lengra en svo, að hreppstjóri fái helminginn en hinu eigi sýslumaður að taka við — og auðvitað skila í ríkissjóð. En jeg segi þetta ekki til ámælis hv. 2. þm. Rang. (KlJ), heldur vegna þess, að ýmsir lögreglustjórar hafa skilið þetta svo og greitt gjald þetta í ríkissjóð.

Jeg hefi ekki ætlast til, að lögin verkuðu lengra aftur fyrir sig en að þau næðu til gjaldanna fyrir árið 1924. Jeg bjóst við, að þetta mundi fara í mál og að lögreglustjórarnir mundu tapa því. Þá vildi jeg hafa heimild til að greiða þeim innheimtukostnaðinn einnig fyrir það árið. En nú hefir hv. fjhn. ekki fallist á þetta, svo jeg læt skeika að sköpuðu, hvernig um þetta fer árið 1924.

En jeg er í vanda staddur um þetta. Sumir hafa greitt, en aðrir ekki, og mjer virðist undarlegt að leggja annað í þessi ákvæði en að ríkissjóður eigi heimting á þessum gjöldum. Þess vegna held jeg mig við, að mínar lagaskýringar sjeu jafngildar og hinna.

Út af því, sem hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) sagði, þá hefi jeg lítið þar við að athuga. Jeg lít svo á, að það sje embættisskylda að annast innheimtu þessara gjalda. En hitt er þó ekki þar með sagt, að leggja eigi lögreglustjórum þessa innheimtu á herðar endurgjaldslaust, nema vitanlegt sje, að þeir hafi engan sjerstakan kostnað af henni.

En því get jeg lýst yfir, að á meðan jeg fer með framkvæmd þessara laga, þá mun jeg ekki greiða þeim neina þóknun, sem engu sjerstöku þurfa að kosta til innheimtunnar.