24.04.1925
Neðri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2699 í B-deild Alþingistíðinda. (1768)

116. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Tryggvi Þórhallsson:

Það eru aðeins örfá orð að þessu sinni. Jeg bjóst við, að það yrði annað stórmál rætt á undan, svo jeg er ekki viðbúinn að tala í þessu máli.

Jeg gríp tækifærið nú til að lýsa því yfir, að jeg er ekki ánægður með þessa skipun, sem þessi lög hafa hrundið af stað. Þess vegna get jeg ekki tekið undir orð hæstv. fjrh. (JÞ), að þetta hafi yfirleitt gefist vel. Jeg álít þvert á móti, að um þetta mál hafi átt sjer stað hin mestu mistök, sem hafi komið afarþunglega og ranglátt niður á atvinnuvegunum. Jeg vil ekki samþykkja þetta frv. á þeim grundvelli, að það eigi í ár og lengur að stefna í sömu átt og undanfarið hefir verið stefnt, að hækka svona fljótt gengi peninganna. Það verður skattur á alla framleiðendur til lands og sjávar, og veldur og hefir valdið á undanförnu ári stórkostlegum erfiðleikum. Jeg verð því að mótmæla því, að það sje lögfest að halda sömu stefnu og árið sem leið. Jeg vil eindregið skjóta því til hv. fjhn., sem að öllum líkindum fær málið til meðferðar, að taka alvarlega til athugunar, hvort ekki eigi að gera annað af tvennu: festa algerlega gengi peninganna, sem yrði með því að gera þá innleysanlega með gulli, t. d. að 2/3, eða setja rammar skorður um, að krónan hækki ekki, og ef endilega á að hækka, að hún hækki þá á þeim tíma árs, sem helst verður kallaður dauði punkturinn í viðskiftalífinu, nefnilega fyrst á árinu, til þess að atvinnurekendur til lands og sjávar viti fullkomlega, að hverju er að ganga, þegar þeir hefja atvinnurekstur sinn. Jeg er ekki í vafa um, að hægt er að gera þetta, að gera krónuna innleysanlega með gulli, t. d. að 2/3, og festa þar með gengi hennar.

Jeg er ekki í vafa um, að það er miklu farsælla að byrja nú þannig eðlilega atvinnureksturinn á grundvelli fasts gengis, heldur en að þurfa að keppa eftir því í mörg, mörg ár að ná gullgengi, til þess að þá geti byrjað eðlilegt líf fyrir atvinnuvegina.

Að það á að framlengja þessa skráningu, getur kannske verið af því, að nú er svo langt liðið á þingið, að ekki sje þegar hægt að gera ráðstafanir til þess að koma öðru skipulagi á. En jeg fyrir mitt leyti ber fram þá kröfu, að það eigi þó að leggja grundvöll þegar að nýrri stefnu í þessu stórmáli. Eigi þessi gengisnefnd að standa áfram, finst mjer það ekki mega minna vera en að í nefndinni starfi auk þeirra, sem nú eru, fulltrúar sinn fyrir hvorn aðalatvinnuveg, til þess sjerstaklega að gæta hagsmuna þeirra. Mín krafa er sú, að nefndin gefi sjer góðan tíma til þess að athuga, hvort ekki væri hægt að fara þessa leið, er jeg hefi nefnt, og jeg vil helst, að nú sje stigið spor til að ná því marki. Því miður hefi jeg ekki nægilega undirbúið mig þessu viðvíkjandi, en jeg treysti hv. nefnd til að athuga þetta sem best. Mjer dylst ekki, að þetta er langstærsta málið, sem fyrir þinginu liggur.