06.05.1925
Neðri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2719 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

116. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Magnús Jónsson:

Mjer þykir rjett að gera grein fyrir sjerstöðu okkar samþm. í nefndinni. Við höfum skrifað fjórar línur í nál., sem eiginlega taka fram aðalkjarnann í afstöðu okkar, þann, að við teljum, að þessu máli hafi verið ráðið til lykta í fyrra á þann hátt, að ekki sje sennilegt, að þingið bæti það nú, þótt breytt sje um. Síst af öllu teljum við, að til bóta sjeu brtt. þær, er fyrir liggja á þskj. 393, um að útflytjendur í landinu fái tvo fulltrúa í nefndinni, svo að þannig geti farið, að bankarnir, sem með þessa verslun fara og hljóta að fara, geti orðið í minni hluta í nefndinni.

Það hefir nú verið skýrt frá tilgangi þessa, þeim, að annaðhvort verði stöðvað gengi íslensku krónunnar eða að hún fari mjög varlega hækkandi.

Mjer virðist um þrent að velja í þessu máli. Fyrst að hafa fyrirkomulagið eins og það er; í öðru lagi að samþykkja þessa brtt., og í þriðja lagi að fara þann miðlunarveg, sem einnig hefir verið stungið upp á, að fjölga mönnum í nefndinni, en án þess að þeir hafi atkvæðisrjett um aðalstarfið, það að skrá verð gjaldeyrisins.

Tveim atriðum þessa máls virðist mjer oft blandað saman. Annað er það, að gengið sje skráð eins og skynsamlegast og hentugast er fyrir alþjóð, bæði útflytjendur og neytendur, en hitt er það að halda genginu samtímis á sanngjörnum grundvelli gagnvart þeim, sem versla eiga með gjaldeyrinn, svo að kaup og sala geti í raun og veru farið fram eftir því skráða gengi. Það er vitanlega ekki nóg að hafa nefnd til að skrá gengið, ef það svo verður ekki „effektivt“. Og mjer virðist, að ef bæta á mönnum í nefndina, sem mest líkindi eru til að dragi taumana aðeins í eina átt, að till. horfi til skemda í þessa átt. Má vel svo fara, að gengið verði skráð alt öðruvísi en verslunin er með það í rauninni. Slíkur tvískinnungur er vel mögulegur, ef nefndin heldur einstrengingslega fram annarihvorri hlið málsins, t. d. þeirri, að krónan skuli standa í stað móti sterling, en kaupmáttur hennar er að aukast gegn sterling og yfirleitt verð hennar að hækka. Þá missir skráða gengið alt gildi sitt, og ráðstöfunin þar með.

Yfirleitt eru þessar till. angi af þeirri skoðun, að við ráðum meira yfir genginu með skráningu þess en við í rauninni gerum. Jeg held, að við ráðum við það eitt að geta varist stærri sveiflum innan eins árs, eins og t. d. á síðastliðnu ári. En til lengdar verður aldrei hægt að spyrna á móti broddunum, ef eðlilegast er, að krónan hækki og þeir, sem fara með verslunina, þ. e. bankarnir, vilja, að svo verði.

Þess vegna var það eðlilegasta ráðið, sem tekið var í fyrra, að bankarnir ákvæðu gengið og að jafnframt væri með í ráðum einn maður af hendi stjórnarinnar, til þess að miðla málum, ef fulltrúum bankanna kæmi ekki saman. Og í rauninni hafa engir heyrst tala um, að þetta fyrirkomulag hafi gefist illa. Að vísu hafa margir kvartað yfir, að íslenska krónan hafi hækkað afskaplega mikið. Og það er satt, að um 10 mánaða skeið var krónan látin hækka ákaflega mikið, en engin rök hafa verið færð fyrir því, að það hafi á nokkurn hátt verið óeðlilegt eða orðið til stórkostlegs tjóns. Raunar var notaður til þess tími, sem auðvitað var mikill veltutími fyrir sjávarútveginn, og sem því hlaut mesta skaðann, þar sem hann flutti mest út en því verður ekki neitað, að sá tími var svo góður fyrir þennan atvinnuveg, að hann var fær um að bera þann þunga skatt, sem hlaust af hækkun krónunnar. Svo er það ekki rjett, þegar menn eru að bera saman verðið á sterlingspundinu þegar það var hæst og eins og það var í árslok. Því að þótt sterlingspundið kæmist upp í 33.95 krónur. þá var það aðeins snögg sveifla. Ef alt árið er tekið, þá kemur út hinn rjetti munur, eða sá, að pundið lækkaði úr 30 niður í 28 kr. Þetta er ákaflega mikil hækkun á krónunni, það skal jeg játa en jeg fyrir mitt leyti er alveg sannfærður um, að þó engu verði breytt um skráning krónunnar frá því, sem nú er, þá eru engin líkindi til, að hún hækki neitt þessu líkt á yfirstandandi ári, og það gerir hún líka sannarlega ekki nema það verði miklu meira veltiár en það lítur nú út fyrir að verða.

Jeg held líka, að það sje nokkuð ástæðulaust að ætla, að bankarnir, sem nú hafa yfirtökin í nefndinni, muni skrá gengið öðruvísi en í hag sjávarútveginum og fjelögum. Auðvitað eru útgerðarmennirnir langstærstu viðskiftamenn bankanna, og ef þeir færu að bregða fæti fyrir þá, væru bankarnir með því að bregða fæti fyrir sjálfa sig. Það var einu sinni talað um það úr andstæðu horni, að bankarnir myndu halda óeðlilegu gengi til að auðga hina stóru viðskiftamenn sína. Auðvitað var það röng getgáta, en slíkt mætti samt fremur ætla en hitt, að bankarnir hefðu mestan áhuga á því að ríða bestu viðskiftamönnum sínum að fullu. Bönkunum ríður mest á því, að öll verslunin gangi sem best, fyrir utan það, að þeir eru margflæktir í fjölmörgum viðskiftum og öllum atvinnuvegum landsins, og því er ekki annað hugsanlegt en að þeir hafi sífelt hag alþjóðar fyrir augum. Þeirra hagur er alveg undir því kominn, að stóratvinnuvegunum vegni vel.

Hv. þm. Str. (TrÞ) lagði áherslu á það, að t. d. landbúnaðurinn ætti það á hættu, að gengi erlenda gjaldeyrisins væri felt í verði þegar haustaði. Ef reynslan er aðspurð, hygg jeg, að það sjáist, að á síðastliðnu hausti hafi mikið verið gert til þess, að erlendur gjaldeyrir fjelli ekki, og að það fyrirkomulag, sem þá var á gjaldeyrisskráningunni og nú á að breyta, hafi mjög stemt stigu fyrir því, að íslenska krónan tæki stórkostlega sveiflu upp á við og síðan strax niður á við árið sem leið. Reynslan hefir sýnt, að menn þurfa ekki að vera hræddir við, að nefndin sje skipuð eins og nú er, því að hún hefir sýnt og mun sýna fulla gætni.

Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að neytendum gæti ekki verið það á móti skapi, að gengið væri fest; það gæti engan skaðað. Það er nú svo. Ef gengið verður fest á móti gullverði og það sama gengur yfir Danmörku og Noreg, viðskiftalönd okkar, er það gott og blessað. En ef gengi norsku og sjerstaklega dönsku krónunnar væri látið sigla langt upp fyrir okkar, skyldi þá ekki fara svo, að mörgum fyndist sem gengi íslensku krónunnar væri altaf að falla? Því það mundi hafa í för með sjer aukna dýrtíð, þ. e. hækkandi vöruverð og hærri kaupkröfur. Því að þótt íslenska krónan standi í stað gagnvart sterlingspundinu, þá þarf hún ekki að gera það gagnvart dönsku krónunni, og af því stafar jafnan glundroði í verðlagi, ef hún fylgir ekki dönsku krónunni nokkurnveginn upp á við. Og enn eitt; meðan því er ekki slegið föstu að stýfa ísl. krónuna, þá er það víst, að ef við hugsum okkur að koma henni í gullverð, þá er engin leið til þess nema hún sje í samfylgd með dönsku og norsku krónunni. Ef við látum þær sigla okkur af sjer, þá verður róðurinn alveg ófær eftir á. Útvegsmönnunum, sem keppa við Norðmennina um Spánarmarkaðinn, líkar kannske vel á meðan norska krónan siglir fram úr okkur, en jeg er hræddur um, að þeim getist ekki jafnvel að því, þegar við eigum að fara að „sigla hana uppi“ aftur Og um stýfingu gjaldeyrisins er það að segja, að það eru þær ráðstafanir, sem ekki er gripið til fyr en fokið er í öll skjólin, eins og heiðarlegir menn gefa sig ekki upp til gjaldþrotaskifta fyr en þeir með engum ráðum geta ekið áfram. Jeg lít annars svo á, sem það atriði geti ekki legið hjer fyrir nú. En á það vil jeg leggja áherslu, að vera ekki að breyta skipulagi nefndarinnar, því það getur ekki til neins góðs leitt.

Af þessum ástæðum, er jeg nú hefi nefnt, höfum við hv. samþm. minn (JakM) tekið þá afstöðu í nefndinni, að leggja til, að frv. um framlenging á lögunum frá í fyrra verði samþykt óbreytt.