20.02.1925
Neðri deild: 12. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2763 í B-deild Alþingistíðinda. (1801)

50. mál, tollalög

Jón Baldvinsson:

Tóbakseinkasala ríkissjóðs hefir nú staðið í þrjú ár: 1922, 1923 og 1924, og jeg held, að ekki verði annað sagt en að hún hafi gengið eins vel og best var búist við. Nú er auðvitað, að fyrstu ár verslunarinnar er ekki fullkomlega að marka, þegar dæma á um það, hversu hún muni ganga í framtíðinni, svo að það er algerlega rangt að taka meðaltal af þessum þrem árum og leggja það til grundvallar. Í því efni er helst hægt að marka árið 1924 eitt saman, því að þá fyrst má telja, að verslunin sje komin nokkurnveginn í fast horf.

Það hefir oft verið mikið um það talað að innflutningur á tóbaki hafi minkað við ríkiseinkasöluna. En hjer er þess að gæta, að bæði árin 1916 og 1919 var innflutningur gífurlegur og er það alkunna að mjög mikið af þeim vörum lá fyrir í landinu, þegar ríkiseinkasalan tók til starfa. Mikið af þeim voru harla ljelegar stríðsvörur, sem gengu illa út og lágu óseldar í haugum, og eru kaupmenn kannske ekki alveg lausir við þær enn. En samt sem áður hafa þau selst smámsaman og þannig orðið til þess að draga úr innflutningi landsverslunarinnar. Af þessu getur mönnum skilist, hvílík kórvilla það er hjá hv. nefnd að byggja útreikning sinn á meðaltali innflutningsins þau þrjú ár, sem landsverslunin hefir starfað. Það verður beinlínis til að fella alla útreikninga hv. nefndar. Og það er margt fleira en þetta. sem rangt er í aths. við frv. Háttv. flm. (BL) hefir sjálfur upplýst, að það sje ekki rjett, sem sagt er um gengisgróðann í umsögninni um frv. Það er alveg rjett, að það á að draga hann frá tekjunum af versluninni, enda hefir hann ekki verið látinn ganga til þess að greiða venjuleg útgjöld af versluninni. Þessi gengisgróði, sem mun nema, eftir því sem næst verður komist, um 68 þús. kr., fór í óvenjuleg útgjöld. Það var nefnilega svo, eins og hv. þm. muna, að útsvar var lagt á tóbakseinkasöluna, og þar sem menn greindi mjög á um, hvort það væri rjettmætt, þá fór verslunin í mál út af því, og fjell dómur í málinu fyrst 1924 og versluninni gert að greiða útsvarið. Til þessara óvæntu útgjalda rann svo gengisgróðinn, en þetta kemur ekki fram í athugasemdunum við frv., eins og rjett hefði verið.

Það má því gera ráð fyrir 350 þús. kr. tekjum af versluninni auk þeirra 35 þús. kr.. sem lagðar eru í varasjóð. Það fje fer til að tryggja landsverslunina gegn óvæntu tapi, og er þannig styrkur fyrir ríkissjóðinn, þótt fjeð renni ekki beinlínis í hann. Sje þetta tillag í varasjóðinn þannig reiknað með, þá hækka hinar föstu tekjur upp í nærfelt 390 þús. kr., og auðvitað fæst aðeins sanngjarn grundvöllur undir tekjuáætlunina með því að byggja á síðasta ári, en ekki á hinum tveim fyrri, þegar kaupmenn lágu inni með miklar birgðir.

Nú er það greinilegt, að ef ríkissjóður á að byggja tekjur sínar á þessu, þá verður tap hans, ef þetta frv. gengur fram, um 200 þús. kr. á ári. Auk þessa er það vitanlegt, að eftir því, sem tollur á einhverjum vörutegundum hækkar, eftir því verður freistingin til tollsvika meiri. Arðsvonin af þeim er þá orðin svo mikil. Nú vita allir, hversu tollsvik eru auðveld á þessu landi, þar sem strandlengjan er svo löng og löggæslumennirnir svo fáir. Menn vita, hvernig gengið hefir með eftirlitið með bannlögunum, og með þeim er þó bæjarstjórnum falin umsjón, auk hinna venjulegu löggæslumanna. Þá er hættan ekki síður með tóbakið, þar sem enn færri hefðu eftirlitið með höndum. Tollurinn er líka svo hár samkv. frv., að veruleg arðsvon væri að því að koma tóbaki undan tolli. Jeg gæti því ímyndað mjer, að þeir menn, sem vilja afla ríkissjóði aukinna tekna með frv., yrðu fyrir miklum vonbrigðum, þegar farið yrði að telja fjeð í ríkishirsluna.

Hv. aðalflm. (BL) sagði, að frv. þetta myndi enga undrun vekja. Það má vel vera rjett hjá honum, en jeg get þó hugsað, að það valdi ekki fáum nokkurrar undrunar, að hann skuli ætla sjer að fá með þessu móti eins miklar tekjur í ríkissjóðinn og einkasalan gefur. Þá finst mjer miklu skiljanlegra það, sem hv. 1. þm. G-K. (AF) sagði á þingmálafundi um þetta atriði. Hann vildi láta afnema landsverslunina af „principiellum“ ástæðum. Hann kvað arðinn af versluninni eiga að falla í þeirra hlut, sem með lögum hefðu öðlast rjettinn til að versla, m. ö. o. kaupmannanna, og líkti því við rányrkju, að ríkissjóður leyfði sjer að hafa tekjur af henni á þennan hátt. Hann sagði það hreint út, að ríkissjóður mætti missa þessar tekjur.

Það er heldur engum vafa bundið, að við afnám einkasölunnar missir ríkissjóður miklar tekjur, eða því sem næst þær tekjur, sem hann hefir af henni nú. Það væri því ekki að ástæðulausu, þótt mönnum kæmi kynlega fyrir sjónir, að sá flokkur þingsins, sem hæst hefir talað um sparnað, skuli ótilkvaddur vilja fleygja burt tekjustofni, sem gefur af sjer nokkur hundruð þús. kr. árlega. Íhaldsflokkurinn vill láta greiða upp allar lausar skuldir ríkisins á tiltölulega fáum árum. Samtímis kemur hæstv. stjórn fram með frv. um að lækka tekjuskattinn á hærri gjaldendum, svo að nema myndi mörg hundruð þúsund kr. á ári. Ef þannig á að halda áfram að kasta frá sjer öllum nýtilegum tekjustofnum og margar fjárhæðir sem þessar koma saman, þá getur svo farið, að dragist að borga lausaskuldirnar.

Hv. þm. Ak. (BL) talaði á síðasta þingi um landsverslunina. Þá vildi hann ekki láta leggja hana niður strax, heldur bíða eitt ár enn, svo sem til reynslu. „Jeg býst þó við“, sagði hann, „að það verði þjóðinni til tjóns.“ Nú er frv. komið fram, og tjónið, sem hlotist hefir af rekstri einkasölunnar, hlýtur þá að liggja í því, hvað tekjurnar hafa orðið meiri en ætlað var. En það er á 2. hundrað þús. kr. Þetta eru þó hentugar tekjur og hafa þann mikla kost, að þær koma ekki þungt niður á neinum. Undarlegt, að þeir menn, sem altaf eru að burðast með hækkaða tolla á allskonar nauðsynjavörum, skuli amast við þessum arði.

Þá get jeg betur skilið aðstöðu hv. 1. þm. G.-K., þegar hann, eins og áður er vikið að, vill leggja niður einkasöluna vegna þess að kaupmannastjettinni „til komi“ arðurinn af versluninni, eins og þessi hv. þm. (ÁF) komst svo hátíðlega að orði í fyrra á þinginu. En eins og hv. 2. þm. Rang. (KlJ) tók fram, myndu það ekki samt verða öllu fleiri en 10 menn, sem kæmu til að skifta þessum 350 þús. kr. á milli sín.

Það hefir verið deilt um það, hvort tóbaksvörurnar myndu hækka í verði eða ekki við afnám einkasölunnar. Hv. flm. gera ráð fyrir lækkun. Jeg get samt ekki fallist á það fremur en svo marga aðra útreikninga þeirra. Það mun vera venja kaupmanna að leggja á vörurnar komnar í hús, þ. e. a. s. þegar tollur hefir verið lagður á þær, í stað þess að landsverslun leggur á innkaupsverðið að viðbættum flutningskostnaði. Ef því kaupmenn legðu á tóbakið eitthvað svipað og þeir hafa áður gert, eða ca. 50%, þá er sýnilegt, að verðið mundi hækka stórum. — Þess má geta, að hjer er talnagáta í aths. við frv., sem hv. flm. (BL) leysti ekki. En máske gerir hann það, þótt síðar verði, og get jeg þá beðið með að tala um þetta atriði að þeim upplýsingum ófengnum.

Því er haldið fram í athugasemdum við frv., að rangt sje að álíta, að minkun innflutnings 1922 stafi af því, að miklar birgðir hafi verið til í landinu af tóbaki, fluttu inn árinu áður. Jeg hefi áður minst á, að svo hafi einmitt verið. — Það sýnir sig, að í tóbaksbirgðum kaupmanna hefir legið fast fje, miðað við 1921, um 1½ milj. króna. og sýnir það með öðru yfirburði ríkiseinkasölunnar, að þar liggja í þessum vörum aðeins um 300 þús. kr. Og þó að maður lækki hina töluna niður í 1200000 kr., þá er mismunurinn samt gífurlegur. Þá má líka athuga það, að flestir kaupmenn hjer fá rekstrarfje sitt frá bönkunum, og kemur það niður á þeim öðrum, sem láns þurfa við. T. d. væri þessi rekstrarfjárspörun nægileg í tvö ár handa búnaðarlánadeildinni, sem einu sinni átti að koma.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að tryggingarráðstöfunum frv. gegn smyglun. Tollvörurnar á að merkja. Eins og menn vita, merkir tóbakseinkasalan allar vörur sínar. Verksmiðjurnar, sem vörurnar framleiða, gera það samtímis því, áð búið er um þær, og hefir það engan aukakostnað í för með sjer. En bersýnilegt er, að þessu yrði ekki hægt að koma við hjer. Það er ómögulegt að merkja íslenskar tollvörur á þennan hátt — áður en tollurinn væri greiddur. Þess vegna yrði að beita þeirri aðferð, að rífa upp hverja tóbakssendingu og merkja síðan hvern pakka. En eins og hv. 2. þm. Rang. (KlJ) hefir bent á, gæti þetta valdið skemdum á vindlum og vindlingum, auk þess sem hver heilvita maður hlýtur að sjá, hversu tafsamt það verður að þurfa þannig að láta handleika hvern einasta pakka. Til þessa starfs myndi áreiðanlega þurfa allfjölmennan flokk nýrra embættismanna, og ekki aðeins að þeir þurfi að vera við hendina hjer, heldur alstaðar úti um land, þar sem innflutningur þessara vörutegunda á sjer stað. Jeg gæti hugsað mjer, að þetta tollmiðafyrirkomulag yrði nokkuð útdráttarsamt fyrir ríkissjóð. En kannske undirforingjarnir í ríkislögreglunni gætu komið hjer til aðstoðar sem tollmiðaembættismenn?

Hv. aðalflm. (BL) kom síðast með þjóðsöguna um óvættina, sem var að detta, og átti þar við landsverslunina. Jeg vil þá leyfa mjer að líkja frv. þessu við höndina, sem kom út úr berginu með brugðinn hnífinn til að höggva á lífvaðinn. En jeg vil í lengstu lög vona, að hjer fari eins og þá, að vígði þátturinn haldi.