20.02.1925
Neðri deild: 12. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2781 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

50. mál, tollalög

Ágúst Flygenring:

Það er aðeins viðvíkjandi því, sem nú var síðast sagt, að stefnurnar í þessu máli væru tvær, einkasölustefna og stefna frjálsrar' verslunar. Jeg svara þá fyrir mig, að það er stefnan eingöngu, og annað ekki, sem ræður afstöðu minni til þessa máls. Fyrir mjer er það eingöngu stefnumál og hefir aldrei verið annað, verður og ekki heldur. Jeg kýs jafnvel frjálsu verslunina heldur, þó að nokkurt tap verði af, en einkasöluna. Mjer finst það tilvinnandi fyrir að fá aftur verslunina frjálsa.

Viðvíkjandi áhrifum einkasölunnar á innflutninginn hafa verið færð rök að því, að innflutningurinn hefir talsvert minkað á þessum þremur árum. Landsversluninni verður alls ekki gefið þetta að sök, þannig að það sje að kenna ljelegum rekstri hennar; jeg held, að hún sje sæmilega rekin að öllu leyti og að það sje ekki rjett að gefa henni þetta að sök af þeim ástæðum. En jeg held, að þessi minkun á innflutningi sje óhjákvæmileg afleiðing einkasölufyrirkomulagsins. Einkasalan hlýtur að draga úr innflutningi. Það liggur alveg í augum uppi, að þegar hver strákur svo að segja getur skrifað og pantað sjer þessar vörur, hlýtur innflutningurinn að aukast. Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) sagði, að sig óaði við að fleygja verslunarhagnaðinum, sem væri allmikill, í hendur örfárra manna, sem síðan sætu einir að honum. Jeg er svo steinhissa á, að nokkur maður geti sagt annað eins og þetta, þar sem það, að verslunin yrði frjáls, mundi verða til þess stórum að auka bæði notkun tóbaksins og verslunina með það. Meðan verslunin var frjáls höfðu allir smásalar tóbaksvörur sem aukaatriði, þó að þeir versluðu aðallega með alt aðrar vörutegundir. Nú þegar verslunin á þessum vörum er komin í hendur ríkisins, þarf að verja hundruðum þúsunda króna til þess að koma vörunni út — selja hana. Það er ekki rjett að stimpla okkur, sem í nefndinni sátum fyrir 17 árum síðan, sem einkasölumenn. Það er alls ekki rjettmætt, þar sem við vorum engir fylgjandi einkasölu í raun og veru. Hitt er annað mál, að við vorum spurðir, hvort tiltækilegt væri, að ríkið tæki að sjer einkasölu á einstöku vörutegundum, og varð það úr, að við rjeðum til þess með tilliti til þáverandi tekna ríkissjóðs og með hagsmuni landsmanna allra fyrir augum, en sú stjórn, er við þessu skyldi taka, neitaði því, þá er til kom. En að við gáfumst upp við tóbakseinkasöluna þá, kom til af því, að við sáum, að hvorki mundu tekjur ríkissjóðs vaxa við það nje tóbakið verða ódýrara. Þetta er það sanna í þessu máli. Við höfum á engan hátt breytt um stefnu; við höfum aldrei einkasölumenn verið að öðru leyti en því, er einkasalan er komin í það form, að hún er eingöngu og aðeins miðuð við að afla ríkissjóði aukinna tekna. Þá hafa nokkrir okkar látið til leiðast að fylgja þessu í svip. Hvað tollhækkunina áhrærir, hygg jeg, að salan muni aukast, þrátt fyrir tollinn, við það að verslunin verður frjáls, og um erfiðleikana á því að fá tollinn greiddan get jeg ekki sjeð annað en að eins og landsverslunin sá ráð til að láta merkja vörur sínar, eins megi treysta ríkisstjórninni til þess líka. Það, að þær birgðir, sem nú kunni að vera fyrir í landinu, muni verða ríkissjóði til byrðarauka eða vandræða, sje jeg alls ekki. Jeg veit ekki til, að heyrst hafi kvartanir undan því, að of miklar birgðir væru til í landinu; um hitt er oftar talað, að birgðirnar sjeu of litlar. Það, hvort ríkissjóður missi eitthvað lítilsháttar af tekjum við þessa breytingu. er ekki stórvægilegt atriði í mínum augum. Einkasölu álít jeg óhafandi og óverjandi í alla staði. Jeg hygg, að búið sje að leggja nægilega skatta á landsmenn, þó að ekki sje verið að taka af þeim atvinnuvegina í viðbót. Jeg tel það aðeins til bóta, að tóbakið lækkar í verði við þetta, því að þá mun og fara saman aukin notkun og auknar tekjur í ríkissjóð. Jeg hygg, að jeg geti nú slept því að ræða frekar um þetta mál þangað til það kemur aftur úr nefnd og verður hjer í deildinni til 2. umr., og læt jeg því staðar numið í þetta sinn.