24.02.1925
Neðri deild: 15. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2839 í B-deild Alþingistíðinda. (1825)

50. mál, tollalög

Bernharð Stefánsson:

Flest það, sem jeg vildi hjer sagt hafa hefir nú verið tekið fram af öðrum og vil jeg ekki endurtaka það, og get því verið stuttorður. Þó sje jeg ekki ástæðu til þess að falla frá orðinu með öllu, einkum vegna þess að hjer hefir verið varpað fram orðum um það, hvaða hvatir lægju bak, við afstöðu þm. til þessa máls. Þetta finst mjer sjerstök ástæða til þess, að sem flestir þm. geri grein fyrir atkvæði sínu í máli þessu.

Hjer hefir verið vitnað í sögu þjóðarinnar á undanförnum öldum, og núverandi einkasala á tóbaki borin saman við einokunarverslunina á 17. og 18. öld, og þetta tvent talið greinar á sama stofni. Og þeim mönnum, sem nú halda með landsverslun á tóbaki, brugðið um það, að þeir vildu innleiða ástand 17. aldar hjer á landi. Jeg er ekki sagnfræðingur, það játa jeg, og skal jeg því ekki fara langt út í sögulegan samanburð. Þó vil jeg taka það fram, að jeg álít einokunina og einkasölu á tóbaki í raun rjettri ekki saman berandi, og því staðlaus orð, sem sögð eru til þess að líkja því saman. Allir vita að hin forna einokun náði til allra vörutegunda sem til landsins fluttust, og auk þess voru ótal hömlur lagðar á viðskifti innanlands. Þannig, að menn máttu ekki versla nema við einstaka kaupmenn. Einokunin var sett af útlendum konungi til hagsmuna honum og útlendri þjóð, án nokkurs tillits til hinnar íslensku þjóðar. Aftur er einkasalan á tóbaki aðeins heildverslun, sem hefir aðeins innflutninginn með höndum. Að öðru leyti er tóbaksverslunin frjáls innanlands. Auk þess hefir hún verið sett af okkur sjálfum til þess að afla tekna í okkar eiginn ríkissjóð. Ennfremur skiftir það í mínum augum ekki alllitlu máli, að þessi einkasala nær aðeins til tóbaks, sem ekki verður talin nauðsynleg vara.

Alt tal um einokun í sambandi við þetta mál er því aðeins hjal út í bláinn. Enda er jeg fúsastur til að álíta að slík orð hafi fallið í hita baráttunnar, án þess að þeir, er þau viðhafa, hafi meint nokkuð alvarlegt með þeim. Jeg byggi það á því, að hv. flm. þessa frv. styðja þann mann í stjórn, sem talist getur faðir einkasölunnar hjer, og er ekki annað að sjá, en að þeir treysti honum vel þrátt fyrir það, og skil jeg ekki, að svo væri ef þeir litu eins á þetta mál og orð þeirra benda til.

Það er nú svo, að ríkið þarf jafnan fje til starfrækslu fyrirtækja sinna og þetta fje verður það að fá frá borgurum sínum. Eins og kunnugt er, eru ýmsar leiðir farnar til að afla þess og auðvitað ekki allar jafnheppilegar. Jeg býst við að menn geti verið sammála um það, að eitt hvað megi að þeim öllum finna og ætíð verði einhverjir sem þykir þær koma sjerstaklega hart niður á sjer og leggja á sig erfið bönd. Þegar einkasalan var sett, þá var það gert vegna þess að það þótti hagkvæm leið til að afla ríkissjóði tekna. Það eru ekki mörg ár liðin síðan þessi stofnun tók til starfa, en mjer finst reynslan hafi verið sú, að það hafi tekist ágætlega. Tekjurnar af tóbakseinkasölunni eru orðnar allálitlegar sjerstaklega á síðastl. ári.

Jeg vil geta þess, að fyrir mjer er þetta mál eingöngu fjárhagsatriði. Jeg þykist inna borgaralegu frelsi engu minna en hver annar, en finst ekki, að það sje mikið skert með þessu. Það geta allir neytt tóbaks eftir sem áður, allir verslað með það í smásölu. Það er þá aðeins á þennan fámenna flokk heildsalanna. sem einkasalan leggur höft. En meðan það er talið nauðsynlegt að hafa innflutningshöft á ónauðsynlegum varningi, þá finst mjer ekki, að þetta svonefnda frelsisrán sje nægileg orsök til að afnema einkasöluna. Því meira frelsisrán eru þó innflutningshöftin áreiðanlega heldur en einkasala á tóbaki.

Háttv. flm. frv. þessa halda því fram, bæði í greinargerð með frv. og eins í þingræðum, að ef frv. yrði samþykt, þá fáist á þann hátt eins miklar tekjur af tóbakinu og einkasalan gefur af sjer. Það er hvorttveggja, að þetta hefir verið vjefengt, enda renna þeir menn blint í sjóinn, sem slíku halda fram. Hafa ýmsir hv. þm. orðið til að færa rök fyrir því, hversu þessi staðhæfing sje hæpin. Líkurnar mæla einmitt með því, að tekjurnar minki, og að minsta kosti vita hv. flm., hverju þeir sleppa en ekki hvað þeir hreppa, þegar þeir vilja fleygja jafnöruggum og góðum tekjustofni sem ágóðanum af einkasölunni frá sjer.

Því hefir rækilega verið lýst af hv. 2. þm. Árn. (JörB), hversu freistingin til tollsvika aukist eftir því sem tollur verður hærri á einhverri vörutegund, og eins hve möguleikarnir fyrir tollsvikum á tóbaki muni aukast, ef einkasölunni verður slept. Þarf jeg engu þar við að bæta. En jeg verð hinsvegar að efast um, að sú staðhæfing sje rjett, að löglegur innflutningur á tóbaki muni aukast við afnám einkasölunnar.

Það mun vera venja, þegar frv. eru á ferðinni, að hleypa þeim a. m. k. gegnum 1. umr. og gefa nefnd kost á að athuga þau. En svo einfalt finst mjer þetta mál vera, sem hjer ræðir um, og svo augljóst er, að það væri að minsta kosti engin bót að þessu frv., en gæti hinsvegar orðið til hins mesta tjóns, ef það næði fram að ganga, þá mun jeg greiða atkvæði á móti því, að málið komist lengra. En þar sem það er óvenjulegt að meina frv. að ganga til 2. umr., þá vildi jeg ekki láta hjá líða að gera grein fyrir afstöðu minni.