24.02.1925
Neðri deild: 15. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2855 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

50. mál, tollalög

Þorleifur Jónsson:

Þegar frv. koma fram hjer í þinginu, þá er eðlilegt, að manni verði fyrst á að athuga, hvort þau sjeu gagnleg fyrir alþjóð manna eða einstök hjeruð landsins. Og ef ekki verður hægt að sannfærast um ágæti þeirra frá þessari hlið þá er ekki að undra. Þótt menn líti vel í kringum sig, áður en þeir samþykkja slík frumvörp.

Jeg hefi nú verið að athuga með sjálfum mjer hvaða kosti þetta frv. hefði nú í raun og veru og að hverju leyti það gæti orðið til góðs. Það, sem hjer er um að ræða, er að breyta tekjustofni, sem ríkissjóður hefir haft og sem farið hefir vaxandi smátt og smátt og gefur nú meiri tekjur heldur en menn gerðu sjer í hugarlund, þegar tóbakseinkasalan var samþykt.

Aðalefni frv. er því að afnema einkasöluna og þar með hinar tryggu og vaxandi tekjur, sem hún gefur nú, en í stað þess á að hækka tóbakstollinn. En nú er margbúið að sýna fram á, að hinn hækkandi tollur gefur ekki eins miklar tekjur í ríkissjóð eins og einkasalan gefur nú, og munurinn getur vel orðið svo hundruðum þúsunda kr. skiftir.

Nú er svo komið, að tóbakseinkasalan er komin yfir örðugasta hjallann. Hún þarf ekki lengur að burðast með gamlar og rándýrar tóbaksbirgðir, sem hún tók að erfðum hjá tóbakssölunum. Hún hefir og komið á hjá sjer álitlegum varasjóði og, eins og áður er tekið fram, farin að gefa ríkissjóði vissar og miklar tekjur. Hvers vegna á því nú alt í einu að fara að afnema þessa tekjulind ríkissjóðs, eða breyta til þannig, að hann bíði mikinn halla af? Þetta væri því aðeins verjandi, að almenningur í landinu væri óánægður með einkasöluna og frv. þetta væri því flutt eftir einróma óskum þjóðarinnar. En þar er öðru máli að gegna. Því er svo háttað þar sem jeg þekki til, að menn sætta sig mjög vel við, að ríkið hafi einkasölu á tóbaki, þar sem það hefir sýnt sig. að hún gefur góðar tekjur í fjehirsluna. Og ef dæma má eftir þingmálafundargerðum, sem sendar hafa verið til Alþingis í þetta sinn, þá er einmitt yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar því fylgjandi. að tóbakseinkasalan haldi áfram. Nei, það er ekki þjóðin, sem heimtar, að einkasala þessi sje afnumin. Það er alt annað, sem liggur til grundvallar fyrir þessu frumhlaupi að einum vissasta og áreiðanlegasta tekjustofni ríkissjóðs. Það eru nokkrir kaupmenn, sem heimta sjer til handa þessi rjettindi af landinu. Og mjer finst, að Alþingi geti ekki tekið tillit til slíkrar kröfu. Af því, sem jeg þegar hefi tekið fram, að frv. þetta verður ekki til neins gagns fyrir þjóðina, heldur einungis til tjóns fyrir ríkissjóð, hlýt jeg að verða á móti því.

Ýmislegt af þeim ástæðum, sem flutningsmenn færa fram máli sínu til sönnunar, er mjög athugavert. Meðal annars að byggja útreikninga um líkar tekjur í ríkissjóð af tollaukanum á því, að miklu meira verði flutt inn af tóbaki en nú er, kannske alt að 12%. Jeg veit alls ekki, á hverju þeir geta bygt þetta, því að ef tóbaksnautn er að minka, þá er næsta ósennilegt, að hún aukist að mun, þó að einkasalan hverfi. Eða hefir einkasalan kannske ekki nóg af tóbaki á boðstólum? Eða er haldið í við kaupendur, sem geta borgað? Eða halda þeir, að menn auki tóbaksnautn sína svona í guðsþakkaskyni við tóbakskaupmenn? Nei, hjer er um ekkert slíkt að tala. En það er eins og háttv. flutningsmenn sjeu angraðir yfir því, að tóbaksinnflutningurinn hefir minkað heldur í seinni tíð. En er þá ekki vel farið, þegar það fer saman, að hann hefir minkað, en ríkið samt fengið miklu meiri tekjur en áður, meðan einkasalan var ekki?

Jeg er nú þeirrar skoðunar, að hvert það þjóðfjelag og hver sá maður sje sæll, sem hemil getur haft á tóbaksnautninni, og jeg býst við, og er viss um, að hið háa verð, sem orðið er á tóbaki yfirleitt sje orsök þess, að menn hafa heldur sparað það við sig. Og jeg sje ekki, að með því sje neinn skaði skeður.

Háttv. flm. halda því fram, að tóbakið verði ódýrara hjá kaupmönnum en það er nú. En jeg efast um að svo verði, eða yrði til lengdar þegar jafnhár tollur er kominn á tóbakið eins og nemur ágóða þeim, sem ríkissjóður hefir nú af tóbakseinkasölunni. Þá myndu og kaupmenn verða að leggja allmikið á, til þess að geta haft góðan kaupmannshagnað. Og ekki var það nein einkasala, sem kom tóbakinu upp í 70 kr. kg., eins og dæmi voru til sumstaðar á stríðsárunum. Þá var ekki um einkasölu að ræða, heldur svokallaða frjálsa samkepni. (MJ: Þetta hefir einmitt verið einkasala, því að hjer hefir einn maður verið um hituna). Jeg held, að ekki sje hægt að spá því, að afnám einkasölunnar muni hafa bætt verðlag í för með sjer.

Þá vík jeg að því, er hv. flm. sögðu um þá skerðingu á frjálsri verslun, sem einkasalan hefði í för með sjer. Samkv. skýrslum frá 1920 nam tóbaksverslunin 1/30 af allri verslun landsins, eða um 3%. Mjer finst það einkennilegt, að verslunarstjettin skuli fyllast öfund og óánægju yfir svona litlu. Eins og kunnugt er, er einkasala á tóbaki bæði í Frakklandi og Svíþjóð, og virðist ekki vera litið slíkum augum á hana þar sem kaupmenn hjer gera. Að vísu er mjer kunnugt um, að ekki eru allir kaupmenn hjer mótfallnir einkasölunni, en þó er enginn vafi á, að fyrir tilstilli þeirrar stjettar er frv. fram komið. Og víst er um það, að engu þjóðþrifamáli er hleypt af stokkunum, enda þótt frv. þetta kunni að komast í gegn.

Íhaldsflokkurinn hefir hjer á þinginu þegar flutt tvö frv., sem bæði miða að því að rýra tekjur ríkissjóðs, án þess þó að ljetta skattabyrðar almennings á nokkurn hátt. Annað er um breytingar á tekjuskattslögunum, og gengur það í þá átt að ljetta skatti af stórum hlutafjelögum, og hitt er þetta frv., sem miðar að því að láta gróða ríkissjóðs af tóbaki lenda hjá nokkrum kaupmönnum. Jeg held, að þingmenn ættu að hugsa sig um tvisvar áður en þeir ljá slíku atkvæði sitt