20.04.1925
Neðri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2937 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

50. mál, tollalög

Jón Baldvinsson:

Það voru eiginlega ekki merkilegar upplýsingar. sem hv. þm. Dala. (BJ) kom með viðvíkjandi verslun ríkisins, nema þá helst viðvíkjandi vínversluninni. En jeg hefi ekki heyrt neinn af þessum postulum frjálsrar verslunar nefna ráðstafanir til þess að leggja hana niður, og veit jeg þó ekki nema jeg kynni að geta fylgt því. En það var flokkur hv. þm. Dala., sem fylgir svo fast frjálsri verslun, sem lætur undir höfuð leggjast að flytja frv. um afnám þeirrar verslunar. En þegar sú verslun var stofnuð, man jeg ekki betur en allir fylgdu því. Annars er þessi flokkur, sem hv. þm. (BJ) talar um, eitthvað lítill orðinn. (BJ: Það hafa margir hlaupist burt). Og sjálfur er hann kominn yfir í Íhaldsflokkinn (BJ: Það er einn strokumaðurinn. sem talar). Hjer er sá einn strokumaður. sem gerst hefir varnarmaður stjórnarinnar.

Hæstv. atvrh. (MG) sagði að ríkisverslunin hefði að engu leyti brugðist vonum sínum í peningalegu tilliti, enda gat hann ekki annað en sagt það. En því undarlegra er það, að hann ætlar nú að sitja, hjá atkvgr. um mál, sem ekki hefir brugðist vonum hans og hann sjálfur hefir borið fram. Jeg man ekki betur en að hann bæði á síðasta þingi um eins árs frest til þess að sjá enn, hvernig verslunin gengi. Og það er óhætt að segja, að hún hefir á þessu ári borið svo góðan árangur, að hæstv. ráðherra (MG) ætti nú að halda miklu fastar í tóbakseinkasöluna en nokkru sinni fyr.

Hv. þm. Dala. (BJ) rakti dálítið sögu landsverslunarinnar og fann ýmislegt að. Og auðvitað hefir hún haft ýmsa galla. En nú vil jeg spyrja: Eru ekki líka ýmsir gallar á framkvæmd kaupmannaverslunarinnar? Jeg spyr, en hv. þm. (BJ) þarf ekki að svara. Hann sagði, að landsverslunin hefði fyrst verið undir eftirliti skrifstofustjóra í stjórnarráðinu. Af hverju? Af því kaupmenn börðust á móti því, að hún yrði sett á fót sem sjerstök stofnun. Þess vegna var að vonum sleifarlag á verslunarrekstrinum í fyrstu. En síðan var því kipt í lag og verslunin sett á fastan fót. Og þó hv. þm. (BJ) segi, að ekki hafi verið neinir úrvalsmenn við landsverslunina 1918, þá held jeg, að ekki hafi verið völ betri manna í landinu. Það voru alt þjóðkunnir kaupsýslumenn. Hv. þm. (BJ) lýsti mjög átakanlega þeim göllum, sem hafi verið og sjeu á vínversluninni. En því undarlegra er það, að vilja ekki taka hana undan þeirri stjórn nú og fela hana þeirri stofnun, sem hefir gefist svo vel, sem sje landsversluninni. Það var felt frv. um þetta í fyrra. En ef þeir gallar, sem hv. þm. Dala. lýsti, eru virkilega á rekstri vínverslunarinnar, þá er sýnilega þörf á því að bæta úr þeim.

Þá sagði hv. þm. Dala frá einu mjög merkilegu atriði. Hann sagði, að tóbaksverslunin hefði í byrjun orðið að kaupa rusl af kaupmönnum. Þetta er merkilegt fyrir þá sök, að því hefir verið haldið fram, að kaupmenn hefðu haft miklu betri vörur en landsverslun. En hvernig stóð þá á þessu rusli hjá kaupmönnum? Var því þá svo varið, að þeir flyttu inn rusl? Þetta sannar einmitt það, að kaupmenn flytja inn lakari tegundir en þær, sem landsverslunin hefir á boðstólum, og það eru auðvitað líkur til þess, að eins verði framvegis. Það hefir líka verið sýnt fram á það, að tóbak muni verða dýrara eftirleiðis, ef kaupmenn taka við verslun á því. Hv. þm. Dala. sagði ennfremur, að brytar á millilandaskipum seldu tóbak fyrir þúsundir króna á höfnum kringum land.

Það er ekki glæsileg mynd af tollgæslu lögreglustjóranna, sem hjer er brugðið upp. En sje eftirlitið svona nú, þá verður það ekki síður slæmt síðar, ef einkasalan verður lögð niður. Því þá verður eftirlitið sýnilega örðugra, svo sem hjer hefir verið margbent á. Hv. þm. (BJ) hefir lýst því yfir, að það viðgangist nú óátalið, að brytar á skipum selji tóbak fyrir þús. kr. á höfnum kringum landið. Svona er þá eftirlitið hjá íhaldsstjórninni.

Þá fullyrti hv. þm. (BJ), að gróði einkasölunnar væri fenginn með því að leggja 75% á vöruna. Jeg veit ekki, hvaðan hv. þm. (BJ) hefir þetta; en eftir skýrslunni frá landsverslun er álagningin alls ekki svo há, svo þetta er alveg rangt hjá hv. þm.

Þá mintist hv. þm. Dala. á steinolíuverslunina og vildi vísa til útgerðarmanna um hana. Jeg vil líka vísa til þeirra útgerðarmanna, sem næst standa þessu máli vjelskipaútgerðarmanna. Þeir álíta eindregið, að þeir hafi stórmikinn hag af því, að einkasala á steinolíu haldi áfram, hjá því að D. D. P. A. eða einhver hringur hjer í Reykjavík tæki við. Hinsvegar getur verið, að einstöku útgerðarmenn, sem eiga heima á höfnum, sem millilandaskipin koma stöðugt við á, geti fengið olíufatið eitthvað ofurlítið ódýrara á vissum tímum, sem t. d. svarar álagningargjaldi landsverslunar til ríkissjóðs, ef þeir geta fengið olíuna beint. En allur þorri útgerðarmanna úti um land mun ekki fá olíuna ódýrari hjá öðrum en hjá landsversluninni. Því ríkisverslun getur fengið miklu betri innkaup en einstökum mönnum er auðið. Annars er heldur lítið að marka þessa olíuútreikninga háttv. þm. því hvorki telja þeir með kostnaðinn af því að liggja með birgðir, nje rýrnun og annað slíkt. Jeg held því óhætt að leggja það undir dóm útgerðarmanna, hvort halda eigi einkasölunni áfram eða ekki. Og ef því væri skotið til kjósenda, hvort halda ætti áfram tóbakseinkasölunni eða leggja hana niður, þá er jeg viss um, að meiri hluti þeirra mundi vera mjer sammála, hvað rjett sje í þessu efni.