22.04.1925
Neðri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2945 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

50. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (JÞ):

Áður en farið er lengra út í það, hvernig vonir manna um tóbakseinkasöluna hafa ræst, þykir mjer hlýða að leggja fram tölur, sem sýna raunverulega hvernig þær hafa ræst, til þess að þm. þeir sem þurfa að svara hafi eitthvað til að styðjast við.

Árið 1919 varð tóbakstollurinn 705 þús. kr. 1920 varð hann 623 þús. kr. Þetta var það sem menn höfðu til að byggja á á þinginu 1921. Á þessu voru bygðar vonirnar um hið breytta skipulag. Voru þá áætlaðar tekjur af tolli og einkasölu til samans á árinu 1922 750 þús. kr., eða dálítið hærra en tóbakstollurinn hafði reynst þá tvö undanfarin ár. En útkoman varð sú, að 1922 urðu tekjurnar 439 þús., eða 311 þús. undir áætlun fjárlaganna. Fór menn þá að óra fyrir að bjartsýnin hefði verið of mikil, svo næsta ár eru tekjurnar áætlaðar 50 þús. kr. lægri eða 700 þús. kr. En þá verður útkoman sú að á árinu 1923 verða tekjurnar af tolli og einkasölu til samans 634 þús. eða 66 þús. undir áætlun.

Ennþá þóttust menn hafa verið of bjartsýnir og í fjárlögum fyrir árið 1924, sem sett voru á þinginu 1923 er tekjuáætlunin enn færð niður og þá ofan í 600 þús. kr., eða lægra en tollurinn einn nam 1919 og 1920. En þá fer svo að tekjurnar fara fram úr áætlun og verða 874 þús. kr. Af þeim tekjuauka eru 68 þús. beinlínis teknar með gengismismun, sem stafaði af því, að landsverslunin hafði 6 mánaða gjaldfrest erlendis, en á þeim tíma hækkaði ísl. krónan. Auk þessa ber þess að gæta að frá 1. apríl á árinu er tollurinn hækkaður um 25%. Orsökin til þess, að áætlunin stenst í þetta sinn er því annarsvegar sú, að verslunin verður fyrir óvæntu happi, en hinsvegar eru ráðstafanir löggjafarvaldsins.

Jeg fæ nú ekki skilið, hvernig hægt er að halda því fram, að vonirnar frá 1921 hafi ræst þegar þær bregðast svona tilfinnanlega tvö fyrstu árin.

Enda þótt áætlunin standist 1924, ber þess að gæta, að tekjurnar verða þó ekki nema 124 þús. meiri en þær voru áætlaðar 1922 með þáverandi tolli, og án gengismismunar, og sje tollhækkunin og gengishagnaðurinn dreginn frá, ná ekki einu sinni tekjur veltiársins 1924 áætluninni frá 1921.

Þessar tölur vildi jeg gefa til upplýsingar út af ummælum hv. þm. Str. (TrÞ) um uppfyllingu vonanna.