29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

1. mál, fjárlög 1926

Jónas Jónsson:

Jeg ætla að minnast á fáeinar brtt., sem jeg er ýmist flm. eða meðflm. að. Einnig mun jeg víkja að nokkrum öðrum, sem mjer finst máli skifta.

Á þskj. 400 á jeg brtt. með háttv. 2. landsk. (SJ) undir tölulið II, Þar hefir komist inn prentvilla, sem jeg býst við, að hæstv. forsrh. (JM) og fleiri hafi rekið augun í. Jeg hefi áður, þegar stúdentastyrkurinn var hjer til umr., minst á nauðsyn þess, að fleiri efnilegir menn og konur en stúdentar gætu fengið styrk til þess að stunda nám erlendis. Þessi litli styrkur er byrjun á því. En með því að mjer þótti of þröngt að orða liðinn svo, að hann ætti að vera til iðnfræðslu einungis, þar sem hjúkrun og búfræðinám á að heyra þar undir, orðaði jeg hann þannig: Til iðnfræðslu og verklegs náms og fleiri tegunda af skyldu námi. Þetta „skyldu námi“ hefir orðið að einu orði hjá prenturunum. Með því að fjvn. hefir tekið liðlega í málið, tek jeg hana aftur nú, en breyti henni til 3. umr.

Mjer er kunnugt um, að Jón Gunnarsson frá Blöndubakka er mjög duglegur og reglusamur maður. Fyrir einu ári fjekk hann styrk af þessu iðnnemafje og hefði vafalaust fengið hann í ár, ef hann hefði ekki verið feldur í fyrra. Þessi maður hefir altaf stundað nám sitt af kappi, og jeg hygg, að þótt völ sje á þó nokkrum dugandi mönnum í þessari grein, sje ekki nema gott að bæta við einum manni, sem hefir lært þessa grein til hlítar í landi, sem að staðháttum líkist voru landi, en er þó lengra komið.

Þá er brtt. á þskj. 400 undir tölulið III. Þannig er mál með vexti, að nálega allir barnakennarar landsins hafa með sjer fjelagsskap, er hefir í undirbúningi verk, sem hefir mikla þýðingu fyrir barnakenslu í landinu. Það er enginn hentugur landsuppdráttur af Íslandi til til barnakenslu. Það er til jarðfræðiskort Thoroddsens, en það er ekki hentugt til kenslu, þó að það sje ágætt í sinni röð. Nú hefir fjelagið fengið hæfan mann til þess að undirbúa stóran uppdrátt fyrir barnaskóla, sem á að prenta í Þýskalandi. En það er dýrt og yrði fjelaginu erfitt, og auk þess yrði kortið dýrara en góðu hófi gegndi. Það hefir verið hengt hjer upp sýnishorn af því, sem jeg vona, að hv. þdm. hafi sjeð. Uppdrátturinn er stærri en Thoroddsens, en þó ekki vísindalega nákvæmur, sem ekki er von, þar sem kort herforingjaráðsins er ekki komið af öllu landinu. En hann verður nægilega nákvæmur og mjög ljós fyrir kennara. Þessi litla fjárveiting getur orðið trygging fyrir því, að allir barnaskólar á landinu geti fengið heppilegan uppdrátt af Íslandi með hæfilegu verði.

Þá er brtt. á þessu sama þskj. undir tölulið V, frá hv. 3. landsk. (HSn) og mjer, um að Tryggva Magnússyni málara verði veittar 1500 kr. styrkur til að fullkomna sig í málaralist. Þessi ungi málari er þegar orðinn nokkuð þektur, og jeg get fullyrt, að hann hefir hlotið alveg óvenjulega góð meðmæli allra okkar helstu listamanna, sem álíta hann sjerstaklega mikið mannsefni. En þar sem sjón er sögu ríkari, höfum við fengið hann til að sýna hjer sína síðustu mynd, og mjer til mikillar ánægju hefi jeg sjeð, að margir hv. þdm. hafa athugað hana og verið talsvert ánægðir með hana. Við höfum áður átt einn málara, sem hefir tekið til meðferðar þjóðsögur okkar, en hann er nú dáinn. Jeg á við Guðmund Thorsteinsson. En hann er nú dáinn og enginn af núlifandi málurum okkar hefir stefnt í þessa átt, og mætti þó ætla, að þjóðsagnaheimurinn væri hin ríkasta náma fyrir listamenn. Þegar kornungur maður, eins og Tryggvi Magnússon er, gerir annað eins verk og þetta út af þjóðsögunni um hringinn í höll álfakonungsins, hefi jeg mikla trú á, að hann verði þjóð sinni til gagns og sóma. Hann hefir brotist áfram á ótrúlegan hátt og stundað nám bæði í Danmörku, Þýskalandi og Ameríku. Jeg veit ekki, hvernig hann hefir gert þetta kraftaverk, en hann hefir komist þetta áleiðis, sem þessi nýja mynd hans ber vott um.

Jeg vil undirstrika það, sem hv. þm. Vestm. (JJÓs), hv. 2. þm. G.-K. (BK) og hv. 1. landsk. (SE) hafa sagt um listaverk Nínu Sæmundsson. Jeg held, að ekki hafi verið sögð hjer sagan af því, hvernig heimurinn vissi fyrst, að hún var efni í listamann. Hún er ættuð úr Fljótshlíðinni, en fór kornung til Kaupmannahafnar. Þar var hún vinnukona og lenti hjá efnuðu, dönsku fólki. Einu sinni, þegar verið var að undirbúa veislu, gerði hún tiltölulega einfalt skraut, sem veislugestirnir sáu. Þetta varð til þess, að einn maður sagði, að þarna væri virkilegt listamannsefni og að henni var hjálpað til þess að komast í listaskóla. Síðan hefir hún haldið áfram frá sigri til sigurs, þangað til hún hefir nú unnið í París þann mesta sigur, sem einn listamaður getur unnið. Þessi saga er svo lík æfintýri, og það skemtilegu æfintýri, að jeg held ekki, að hv. þdm. muni iðra þess, þó að þeir leggi skerf til að kaupa þetta verk, sem 100 dómarar í París álitu þess vert, að það væri sýnt þar.

Þá er næst brtt. undir tölulið VII, frá hv. 1. þm. Rang. (EP), til húsabygginga á Stóruvöllum vegna sandgræðslunnar. Jeg verð að segja, að jeg á bágt með að vera ekki með öllum till., sem ganga í þessa átt. Svo óheppilega vill til, að sandurinn kringum Heklu hefir teygt sig niður á láglendið og eyðilagt landið þar. En þar býr sá maður, Eyjólfur í Hvammi, sem fyrstur fann ráð til þess að hefta sandfokið. En það er ekki von, að eitt lítið fjall og einn bóndi geti af eigin ramleik stövað sandfokið, enda hygg jeg, að ekki líði mörg ár, þangað til veitt verður mikið fje til þess að gera stórar girðingar þarna, því að reynsla er fyrir því, að ef girt er, grær landið upp á tiltölulega fáum árum. Stundum er þarna svo mikið sandfok, að ekki sjer handaskil, og gerir þetta mikil óþægindi líka á þeim jörðum, sem ekki eru í beinni hættu. Það er mesta nauðsyn að reyna að græða þetta belti, til þess að hindra, að meira land eyðileggist, og auk þess skapa möguleika fyrir aukinni bygð. Jeg skoða þetta eins og þegar verið er í hernum að skjóta út útvirki, og mun jeg því greiða atkv. með tillögunni.

Þá er till. undir tölulið XII, frá hv. þm. Vestm. og mjer. Jeg tel það viðurhlutamikið að fella þessa till. og finst undarlegt, að hæstv. forsrh. (JM), sem lengi hefir verið sýslumaður í Vestmannaeyjum og hefir hlotið að finna, hvílík óþægindi það eru að hafa ekkert drykkjarvatn annað en rigningarvatn, er ekki með þessari tillögu. Jeg álít, að yfir Vestmannaeyjum vofi mikil hætta, meðan ekki er bætt úr þessu. Nú vill svo til, að búið er að finna brunnstæði, þar sem líkur eru til, að megi fá nóg náttúrlegt og gott drykkjarvatn handa bæjarbúum.

Jeg bauðst til að vera meðflm. að þessari till., til þess að undirstrika þá miklu nauðsyn, sem jeg tel vera á þessu. Jeg veit, að Vestmannaeyingar þurfa að fá höfn og bryggju og margt annað, en þetta tel jeg flestu nauðsynlegra, og sjerstaklega ættum við Reykvíkingar, sem höfum það besta drykkjarvatn, sem yfirleitt er hægt að fá, að skilja þetta.

Þá hefir hv. 2. þm. G.-K. (BK), hv. þm. Vestm. (JJós), hv. 3. landsk. (HSn) og jeg flutt brtt um, að dr. Helgi Pjeturss fengi nokkra launahækkun frá því, sem hann hefir haft, og væri mjög æskilegt, að ekki yrðu umr. um það framvegis á hverju þingi. Jeg veit, að þessu muni verða vel tekið, en jeg vil taka það fram, að þessi maður er alment álitinn einn af okkar snjöllustu rithöfundum og sá, sem einna best ritar íslenskt mál. Þó að fáir menn sjeu honum alveg sammála hvað lífsskoðun snertir, eru afarmargir menn, sem lesa með óblandinni ánægju alt, sem hann ritar. Jeg lít á hann ekki beinlínis sem vísindamann, nú orðið, heldur sem einkennilegan rithöfund, sem einna best fer með íslenskt mál.

Í sambandi við þá till., sem hv. þm. Snæf. (HSteins) flutti, var jeg í fyrra meðflm. hv. 1. landsk. (SE) að till. um styrk til ljósmóðurinnar á Eyrarbakka. Þá var hún feld, og mun jeg ekki taka upp aftur það, sem jeg sagði þá um þetta mál, en jeg veit, að Þórdís Símonardóttir verðskuldar, að henni sje þessi sómi sýndur, og hefi jeg af ræðu háttv. þm. Snæf. sannfærst um, að Matthildur Þorkelsdóttir á það ekki síður skilið. Það væri raunalegt, ef ljósmóðir, sem búin er að vinna meira en hálfa öld fyrir þjóð sína, þyrfti að fara á sveitina. Jeg held, að ræða hv. þm. Snæf. ætti að gera út af við þá skoðun, að vera á móti því að styrkja gamalt fólk, sem alla sína æfi hefir verið að vinna þjóðfjelaginu gagn.

Þá er á þessu sama þskj. till. frá hv. þm. Vestm. um lán handa bæjarfógetanum í Vestmannaeyjum til þess að koma upp embættisbústað. Þó að jeg í mörgum tilfellum mundi greiða atkv. á móti slíkum till., þar sem jeg álít, að í flestum kaupstöðum landsins standi svo á, að embættismönnum ætti að vera vorkunnarlaust að fá húsnæði, þá held jeg ekki, að landinu sje sæmandi, að sá maður, sem tekur á móti fleiri útlendingum en nokkur annar maður, að undanskildum bæjarfógetanum í Reykjavík, verði að hafa skrifstofu sína í einhverri ruslakompu, sem er til minkunar, að nokkur útlendingur sjái.

Þá vildi jeg víkja fáeinum orðum að brtt. á þskj. 408, sjerstaklega I. og III., en jeg verð fyrst sem einn í mentmn. að afsaka það, að við höfum bókstaflega ekki, sökum annríkis sumra hv. þdm. í nefndinni, getað haldið fund í langan tíma, og gátum ekki komið á reglulegum fundi fyr en í morgun. En jeg vona, að hv. deild láti málið ekki gjalda þess. Það hefir verið tekið fram af hæstv. atvrh. (MG) og hv. 1. landsk. (SE). hvernig liggur í þessu máli. Það er sem sje það, að Magnús Friðriksson á Staðarfelli hefir að nýju gefið landinu 10 þús. kr., en þessi gjöf fellur niður, ef ekki er hægt að stofna lítinn húsmæðraskóla á Staðarfelli. Nú hefir mentamálanefnd velt þessu fyrir sjer í vetur, og okkur kom saman um, að ekki mundi hægt að fá ríkið til að taka þessa stofnun að sjer og hæstv. forsrh. (JM) sagði, að ekki mundi hægt að nota Herdísarsjóðinn. En þegar við vorum að velta þessu fyrir okkur, hvernig mætti hrinda þessu máli í framkvæmd, kom þessi nýja gjöf, og í skjóli hennar höfum við leyft okkur að bera fram þessa till. Jeg álít vera ákaflega mikla nauðsyn á því, að slík tilraun verði gerð. Til eru tveir slíkir skólar hjer á landi, fyrst og fremst deild af kvennaskólanum hjer í Reykjavík, og svo er Blönduósskólinn. En þessi skóli getur orðið dálítið öðruvísi, af því að hann er í sveit, og af því að ungfrú Sigurborg Kristjánsdóttir, sem hefir beðið um Staðarfell fyrir skóla og sagt að hún gæti komið þar með ýmsa kenslu, svo sem skyrgerð og ostagerð, sem ekki væri hægt að kenna í Reykjavík eða Blönduósi, þá álít jeg, að hjer myndist heppileg verkaskifting, og ekki síst þar sem svo sáralítið hefir verið gert fyrir þessa mentun kvenna hjer á landi. Vona jeg, að þessu verði tekið vel og vil geta þess, að við í mentmn. höfum klipið utan af á alla vegu, til þess að baka ríkissjóði sem minstan kostnað. Breyting á húsinu á Staðarfelli mun kosta tæp 2000 kr. og eldavjel með miðstöð kostar 3000 kr. Jeg skal taka það fram, að jeg álít það nauðsynlegt, að konur í sveitum læri að þekkja þetta nýtísku hitunaráhald, því að það er alveg áreiðanlegt, að þessi hitun, sem nú er víða verið að koma á á efnaheimilum víðsvegar um land, bætir úr þessari tilfinnanlegustu vöntun sveitaheimilanna, Jeg held því, að ef hægt yrði að hafa ekki færri en 12 stúlkur við þessa kenslu, þá megi ekki sjá í það, þótt það kosti nokkur hundruð krónum meira, því þetta á einmitt að vera fyrirmynd.

Þá kem jeg að e-liðnum; jeg veit, að hv. þm. muni hafa sannfærst um það, að við höfum reynt að klípa utan af öllu, og út af spurningu hæstv. forsrh. skal jeg geta þess, að við höfðum ekki vel áttað okkur á þessu atriði, að ef byrjað verður á næsta vori, verður það ekki nema hálft ár, sem styrkurinn nær til, en við höfum hugsað okkur þetta ársstyrk og ennfremur, að þetta nægði til ársins. Við gerum ráð fyrir, að hægt sje í bili að komast af með svona lítinn styrk; samt ætlar Sigurborg Kristjánsdóttir ómögulegt að komast hjá því að hafa aðra kenslukonu með sjer, og virðist það ekkert óhóf. Viðvíkjandi síðari liðnum, 15000 króna láni til bústofnskaupa, get jeg verið hæstv. atvrh. (MG) þakklátur fyrir, hvernig hann vjek að þessu máli í dag og þeim blæ, sem var á orðum hans, og jeg skil hann svo, að hann myndi heldur greiða fyrir, að lánið fengist, og þar sem Magnús Friðriksson og kona hans hafa gefið þetta, þá er ekki hætta á, að verði mikill kostnaður fyrir ríkissjóð, og landið á eftir fá ár bú á þessu höfuðbóli, en þetta er alt annars eðlis, svo að þó að hv. deild vildi samþykkja fyrri liðinn, þá dugir það ekki; það er ekki hægt að bjarga fyrirtækinu, ef síðari liðurinn er feldur, því að þessi jörð krefur talsvert mikils, sem ekki er hægt að kaupa fyrir hina nýju gjöf. Jeg vil því taka fram, að það er gagnslaust að samþykkja þennan lið, ef hinn er feldur.

Þá vildi jeg víkja með fáeinum orðum að einstökum atriðum í brtt. nefndarinnar. Jeg vil gera að mínum orðum fyrirspurn háttv. 1. landsk. þm. (SE). hvað nefndin hugsar sjer að lægi í samningum við Stóra norræna ritsímafjelagið. Jeg álít þetta stórt mál, og mjer er kunnugt um, að það hefir af mönnum, sem hafa mikla þekkingu í þessari grein, verið álitið, að við yrðum að umbæta loftskeytastöðina hjer, svo að við gætum verið sjálfum okkur nógir, ef til þyrfti að taka. Jeg vil skjóta því til hv. forni. nefndarinnar (JóhJóh) og hæstv. atvrh. (MG), hvort þeir geti ekki frætt okkur um þetta, því að það mun vera nokkuð almenn ósk, að ekki verði gerður samningur til langs tíma við fjelagið, en að loftskeytastöðin verði gerð fullkomnari, til þess að geta fengið sanngjarnari kosti í bráð og lengd hjá fjelaginu.

Þá vil jeg út af öðrum lið. 24. brtt. nefndarinnar, láta sorg mína í ljós yfir því, að fjvn. Ed. hefir líklega óviljandi unnið mikið skaðræðisverk. Það, sem vakir fyrir nefndinni. er það, að það væri skynsamlegt fyrst um sinn með þessa skóla, að það gætu staðið að þeim 2–3 sýslur, en það gengur nú svo, að það er ekki hægt að fá fólk til að ganga inn á það. Jeg vil t. d. skjóta því til þeirra hv. þm., sem þekkja til í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, hvort þeir álíti, að slíkri samvinnu myndi hægt að koma þar á. Nei, fólk sækir skólana alveg á víxl, en það er ekki hægt að fá menn til að reka skólana saman, enda er í raun og veru ekki hægt að telja neinn rekstur frá hjeruðunum sjálfuni. Hvað leggur t. d. Reykjavík til kvennaskólans? 500 krónur. T. d. ef þetta skilyrði hefði verið fyrir fjárveitingu til Þingeyinga, þá hefði ekki verið hægt að fá Eyfirðinga til að leggja neitt til þess skóla. Sama er að segja um Árnesinga; þeir myndu ekki samþykkja að vera með Rangæingum, nje heldur Rangæingar að vera með Árnesingum. Jeg veit um, að fje hefir verið safnað í Árnessýslu til að byggja þar skóla, og hefir þar verið talað um tvo staði eða þrjá fyrir skólann, einn þeirra er Laugavatn, einhver yndislegasti staður á landinu. Eru þar svo mikil náttúrugæði, að þar þyrfti bókstaflega ekki að flytja að úr kaupstaðnum annað en kornmatinn. En það er annað, sem jeg vildi að jeg gæti hreyft hjartastrengi háttv. form. fjvn. (JóhJóh) með. Það stendur svo á, að Árnesingar hafa hjá sjer mann, sem allir vilja að stýri þessum skóla. það er sjera Kjartan Helgason í Hruna. Það er svo mikil trú á þessum manni, að það er áreiðanlegt, að menn myndu sækja til hans víðsvegar að. Jeg kom til hans fyrir 15 árum og hefi aldrei verið eins hrifinn af að heyra nokkurn mann tala um íslenskar bókmentir, bæði fornar og nýjar. Og það er það sárasta við þetta skilyrði, að fjárveitingin verður alls ekki notuð þar, og það, að ekki verður hægt fyrir þennan ágæta mann að hjálpa til, þegar til þarf að taka. Þetta skilyrði er þess vegna sjerlega óskynsamlegt, af því að það byggir ekki á þeim kringumstæðum, sem verður að taka tillit til, og við það dregst, að þetta hjerað geti notað það fje, sem það hefir til þess ætlað, nje heldur hægt að njóta hjálpar þessa mikla andans manns.

Þá vil jeg tjá nefndinni þakklæti mitt fyrir að hækka styrkinn til sundlauga. Jeg vil fylgja henni með það, af því að við, sem höfum samþykt fyrir fáum dögum frv. um sundnám, skiljum það og viljum láta nota þessar laugar. En jeg er henni ekki eins þakklátur fyrir að fella niður styrkinn til sundlaugar við alþýðuskóla Þingeyinga.

Jeg bauðst til að vera meðflutningsmaður að till. um vatnið í Vestmannaeyjum, af því að þar leikur á því, að líf fleiri hundruð manna geti verið í veði, en jeg tel, að sundlaugar sjeu okkur eins nauðsynlegar, enda erum við þar flestum þjóðum betur settir með okkar heitu laugar víðsvegar um landið, en það þarf að byggja sundlaugarnar. Má í því sambandi benda á, hvað stórborgirnar leggja á sig í því efni, t. d. Kaupmannahöfn, Stokkhólmur, Edinborg o. fl. Þar er lagt fram stórfje til að gera yfirbygðar sundlaugar handa fólkinu og varið til þess þúsundum og aftur þúsundum króna á ári að hita vatnið upp; en hjer er það til hjá okkur, og það verður vonandi ekki langt þangað til Reykjavík fær slíka laug, en það er verk, sem kostar 200–300 þús. kr. Annars vil jeg í þessu sambandi benda á, að það hefir aldrei verið önnur eins aðstaða og við skólann í Þingeyjarsýslu. Það er skóli, sem hitaður er upp með hveravatni, og þegar það kemur út úr húsinu, er hægt að hita upp laug með því, sem skólafólkið getur synt í allan skólatímann. Þetta er aðalástæðan fyrir þetta hjerað, en hjer er auk þess verið að gera tilraun, sem á að hafa þýðingu fyrir alt landið. Þess vegna má ekki fella þetta niður; það er eins og þegar þeir austanfjalls gerðu litla áveitu fyrst, til þess að vita, hvort það borgaði sig að gera hina miklu Flóaáveitu. En það er með þessar laugar, sem þannig geta komið upp, að við þurfum að vita, hvers þarf fyrir fólkið. Fólkið á Álafossi t. d. er miklu hraustara en annarsstaðar, — og af hverju? Af því að fólkið syndir daglega í heita pollinum, sem vatnið úr húsinu myndar. Jeg skil ekki annað en að hv. 6. landsk. (IHB), sem tók svo rækilega fram í nál. sínu um skyldusundið allar ástæður með því, líki það illa, ef ekki eru allar hendur á lofti, þegar greidd verða atkvæði um þessa till.

Um Búnaðarfjelag Íslands og Fiskifjelagið vil jeg segja það, að jeg held, að þeim stofnunum veiti ekki af að fá það fje, sem þeim var ætlað, og jeg get sagt hv. þm. það, að Fiskifjelagið, sem fær minna, er altaf að ná betri og betri tökum á sínu verkefni, og maður getur vonað, að því fari svo fram, að það eigi rjettmætar kröfur á meiri styrk en nú er veittur því.

Svo vil jeg minna á eitt atriði, sem hv. fjvn. er ekki nógu kunnug; það er sú breyting, sem hún hefir gert um útflutning á frystu kjöti. Það er ekkert fjárhagsmál, sem íslenskir bændur fylgja með eins mikilli athygli eins og kæliskipsmálið. Jeg hefi heyrt, að margir bændur segi: Ef við leggjum fje í nokkurt opinbert fyrirtæki, þá leggjum við í kæliskipið. Það er trú hjá fólkinu, að við eigum að koma annari aðalútflutningsvöru okkar nýrri á hinn mikla enska markað. Nú hefir fjvn. Nd., í stað þess að hefja fjársöfnun í kæliskipið, hugsað sjer að gera stærri tilraun en áður, nefnilega að leigja heilt skip. Hv. fjvn. hefir haldið, að Samband íslenskra samvinnufjelaga mundi gera þetta, en það er ekki rjett. Það hugsar fyrst um sjálft sig og því dettur ekki í hug að gera þessa tilraun, því að hún er gerð fyrir alla bændur á landinu, en margir þeirra eru ekki í Sambandi íslenskra samvinnufjelaga. Það, sem jeg hygg þess vegna, að hafi verið misskilið hjá nefndinni, er það, að fjelögin myndu gera þetta hvort sem væri, og þetta væri næg trygging, ef ekki stæði svona á, sem jeg hefi frá skýrt. En það er annað í þessu máli. Fjvn. Nd. snýr sjer til þessa kjötútflytjanda, Sambands íslenskra samvinnufjelaga, og biður hann að gera þessa tilraun. Menn hafa yfirleitt hugsað svo um þetta málefni, að það yrði líklega að kaupa eða byggja skip til þessara flutninga, sem þá yrði liður í Eimskipafjelagi Íslands, og það er enginn efi á því, að ríkið verður að leggja mikið í þetta skip og tryggja rekstur þess. En það má alveg eins fella þennan lið niður; hann verður ekki notaður eins og hann er. Nd. ætlast til, að hjer sje um framkvæmd fyrir alt landið að ræða, en ekki fyrir nokkurn hluta ríkisborgaranna. Jeg vil þess vegna skjóta því til hv. frsm. fjvn. (JóhJóh). hvort hann ekki teldi þessar upplýsingar mínar þess eðlis, að hann vildi taka aftur þessa till., að minsta kosti til 3. umr.