30.04.1925
Neðri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3200 í B-deild Alþingistíðinda. (1981)

111. mál, útvarp

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Nefndin hefir nú gefið út eins ítarlegt álit um málið og kostur er á. Þetta mál er erfiðara viðfangs en flest önnur mál, því að það eru aðeins fáir menn, sem geta gefið upplýsingar, er að gagni geti komið. Þetta er nýtt, og ekki hægt heldur að byggja á útlendri reynslu, eins og um margt annað. Þess er því ekki að vænta. að hv. þdm sjeu inni í málinu.

Það, sem fyrir nefndinni lá, var að líta á, hvort þetta útvarp væri æskilegt eða ekki, en hún var einróma í að leggja það til, að málinu yrði sint. En jeg skal ekkert um það fullyrða, hvort hún hefir fundið hina heppilegustu leið í því, en hún hefir gert sitt til að koma frv. í það horf, er hún álítur heppilegast fyrir landsmenn.

Nefndin álítur, að þetta mál eigi jafnvel frekar erindi til okkar en annara þjóða, vegna þess, hvað samgöngur eru hjer erfiðar. Kæmist útvarpið á, mætti segja, að bygðin færðist saman, þar sem menn í instu afdölum og ystu nesjum gætu samtímis hlustað á tíðindi þau eða skemtun, er útvarpsstöðin sendi frá sjer.

Skal jeg þá víkja að frv., nál. og brtt. þeim, er nefndin kemur fram með, og skal þá byrja á sjerleyfinu. Í frv. er leyfið bundið við sjerstaka menn. Nefndin vildi það ekki, heldur áleit hún rjett, að lögin hljóðuðu ekki upp á neitt sjerstakt nafn, og stjórnin rjeði því síðan, hverjum leyfi væri veitt. En jeg skal lýsa yfir því fyrir nefndarinnar hönd, að hún hefir ekkert á móti þessum mönnum, og álítur hún, að þeir eigi að ganga fyrir öðrum, að öðru jöfnu, þegar að veitingu sjerleyfis kemur.

Þá er hitt atriðið, sem er nokkuð stórt, hvort eigi að veita sjerleyfi eða ekki. Málið lá fyrir síðasta Alþingi og var því vísað til símastjóra til umsagnar. Hann sagði þá, að það væri ekki nægilega undirbúið og að landssíminn ætti að reka útvarpsstöð, þegar hann hefði fjárhagslegt bolmagn til þess. Nú var aftur leitað álits hans, og leggur hann með því, að sjerleyfi sje veitt. Líklega kemur þetta af því, að hann álítur, að framkvæmdir megi ekki dragast þangað til landssíminn hefir fjármagn til að koma upp slíkri stöð.

Jeg er fyrir mitt leyti ekki hrifinn af sjerleyfi, en tel þó rjett, að það sje nú veitt, til þess að stöðin komist upp eins fljótt og verða má. Hjer er heldur ekki um svo mjög langan sjerleyfistíma að ræða, aðeins 7 ár í hæsta lagi.

Nefndin vill ekki, að leyfið sje bundið við hlutafjelag, og hefir því komið fram með brtt. um það.

Þá er eitt atriði, og það er jafnvel erfiðast viðfangs, sem sje, hvaða afl slík stöð sem þessi eigi að hafa. Í frv. landssímastjórans er gert ráð fyrir, að stöðin hafi afl, sem svari ½ kw. í loftnetið, og er sennilegt, að það sje svipað og miðað er við í frv. á þskj. 308, eða að stöðin geti varpað út 150 kílómetra. Er erfitt að greina þetta. Fer mikið eftir því, hve sterk þau viðtökutæki eru, sem sett eru í 150 km. fjarlægð. Ef miðað er við svonefnd kristallsviðtökutæki, þá þyrfti stöðin að vera miklu sterkari en að hafa ½ kw. í loftnet, ef hún œtti að ná yfir 150 km. fjarlægð. En þetta er ekki einhlítt, og eftir öllum þeim upplýsingum, sem nefndin fjekk, þótti henni alt of lágt farið í frv. landssímastjórans, og eins í frv. því, er hjer liggur fyrir. Mætti stöðin ekki hafa minna afl en eitt kílówatt í loftnetið, og að flestra dómi ekki undir 1½ kílówatt, og það leggur nefndin til, að krafist verði. Með því móti er, að áliti kunnugra manna, fulltrygt, að stöðin geti náð til alls landsins, eða að menn með ekki alt of dýrum viðtökutækjum geti hlustað á stöðina, hvar sem þeir eru staddir á landinu. Þá hefir nefndin felt úr frv. heimildarleyfi til ríkisstjórnarinnar um að láta væntanlega sjerleyfisþiggjendur fá einkasölu á öllum útvarpstækjum. Nefndin telur sjálfsagt, að þeir, sem sjerleyfið fá, muni leggja allmikið upp úr þessu, að fá einkasölu á öllum tækjum, sem notuð eru á landinu, en þess ber að gæta, að til er fjöldi laghentra manna, sem geta með miklu minni tilkostnaði en að kaupa þessi tæki komið sjer þeim upp og sparað þannig stórfje. Enda er þegar svo komið, að þó nokkrir menn hafa sjálfir sett saman slík tæki hjer á landi og sett þau upp, og það svo fullkomin, að þeir geta náð sambandi við stöðvar á Englandi og jafnvel nokkrar stöðvar í Vesturheimi. En ef fyrirskipað væri, að öll tæki skyldu vera af ákveðinni tegund eða frá sjerstakri verksmiðju, þá væri öllum fyrirmunað að smíða sjálfir tæki sín og setja þau upp. Er samt hætt við, að fjöldi manns myndi gera það, og þannig að sjálfsögðu miklu fleiri fara í kringum rjettindi sjerleyfishafa en annars.

Þá er ýmislegt, sem sjálfsagt þarf að standa í reglugerð viðvíkjandi rekstri stöðvarinnar, og eftir till. nefndarinnar fær stjórnin enn frekari heimild til þess að setja reglugerðarákvæði en veitt er í frv. Jeg get bent á, að annarsstaðar þar, sem útvarp er rekið, munu vera settar sjerstakar nefndir til þess að hafa eftirlit með stöðv unum. Búa þær til nokkurskonar „prógram“ fyrir stöðvarnar, þar sem tekið er til, hvað þær megi senda út. Það er vikið að því í nál., að ef útvarp kæmi hjer, myndi það að líkindum vera tekið til notkunar í pólitísku baráttunni, þannig að útvarpsstöðin yrði látin flytja ræður manna og flytja stjórnmálafrjettir. Nefndin leggur áherslu á, að sjeð yrði um, að stöðin yrði ekki þannig notuð í þágu eins sjerstaks stjórnmálaflokks, nje flytji einhliða frjettir. Það ber og að athuga í þessu sambandi, hvort ekki beri að hafa eftirlit með öllu, sem stöðin sendir. Er það gert í Danmörku og víðar og er svipað eftirliti, sem sumstaðar er haft með kvikmyndahúsum, þar sem nefnd ákveður, hvaða myndir skuli sýndar og hverjar ekki. Það gæti og verið nauðsynlegt að banna stöðinni að senda alt, svo að hún spilli ekki smekk manna með því að senda út ýmislegt, sem að vísu gæti nefnst skemtilegt, en væri þýðingarlaust og óþarft. Þetta tekur hæstv. stjórn væntanlega alt til athugunar, og væntanlega er það margt fleira, sem athuga þarf áður en sjerleyfið er veitt, því að málið er svo nýtt og ókunnngt hjer.

Það er farið fram á það í frv., að fyrirtækið sje skattfrjálst í 5 ár. Gæti það þannig losnað við skatt allan sjerleyfistímann, eða ef brtt. nefndarinnar verður samþykt, borgar það aðeins skatt 2 síðustu árin. Það er nú sjálfsagt, að þetta fyrirtæki á ekki að vera gróðafyrirtæki, og verður það varla. Þó var jeg, ef satt skal segja, lengi vel óviss um það í allshn., hvort jeg ætti að fallast á, að fyrirtækið yrði skattfrjálst, en nefndin kom sjer samt saman um, að svo skyldi vera þennan tíma, og hefi jeg ekki gert það að ágreiningsatriði.

Eitt er það, sem jeg hefi sjeð ritað um víðvíkjandi útvarpi; það er rjettur rithöfunda á ritverkum sínum. Hefir risið deila um það í ýmsum löndum, þar sem útvarp er, hvort höfundum skáldverka sje ekki gerður mesti ógreiði með því, ef ritverk þeirra eru lesin upp fyrir mörgum hundruðum eða jafnvel mörgum þúsundum manna. Gæti slíkt auðsjáanlega spilt fyrir sölu bóka þeirra, og er jeg viss um, að hæstv. stjórn fylgist með, hvað gerist í þessu máli erlendis og sjer um, að engin óánægja geti af því orðið hjer.

Þá vil jeg að lokum minnast á erindi viðvíkjandi útvarpinu frá hr. A. Gook á Akureyri. Fer hann fram á að fá að setja upp útvarpsstöð í húsi sínu og varpa þaðan til annara notenda. Er það ekki einkaleyfi, sem hann fer fram á, og landssímastjórinn lítur svo á, að hr. Gook gæti fengið þetta leyfi þó sjerleyfi væri veitt. Hr. Gook er nú staddur hjer í bænum og hefir hann farið fram á það, að því yrði hreyft, hvort þau viðtökutæki, sem hann kynni að setja upp, gætu ekki verið gjaldfrjáls. Erindi hans hefir allsherjarnefnd vísað til hæstv. stjórnar, og nú vil jeg biðja hæstv. atvrh. (MG) að athuga, hvort þessi viðtökutæki, sem víst verða gefins, geta ekki orðið gjaldfrjáls, þótt sjerleyfi á almnennu útvarpi væri veitt. Virðist vera hægt að koma þessu í kring á þann hátt, að þau tæki, sem hr. Gook kynni að setja upp, væru útilokuð frá að hlusta á aðra útvarpsstöð en þessa einu á Akureyri. Er það hægt með því að láta viðtökutæki þessi hafa alveg sjerstaka bylgjulengd.

Jeg vonast eftir, að hæstv. atvrh. (MG) athugi þetta. Jeg hefi lofað að minnast á það í framsöguræðunni, og jeg hygg, að hæstv. stjórn sjái sjer fært að veita þetta leyfi, enda hefir landssímastjórinn mælt með því.

Jeg held jeg hafi þá tekið flest fram, sem máli skiftir. En hafi jeg einhverju gleymt, fæ jeg væntanlega tækifæri til að taka það fram síðar, og eins mun jeg reyna að svara þeim fyrirspurnum til nefndarinnar, sem fram kunna að koma.